Hoppa yfir valmynd
24. október 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ávarp félags- og jafnréttismálaráðherra á þingi ASÍ 24. október 2018

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Góðir gestir.

Við stöndum frammi fyrir gríðarlegum áskorunum á vinnumarkaði en komandi veturinn mun án efa litast af kjarasamningsviðræðum enda ljóst að nánast allir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði verða lausir í lok þessa árs auk þess sem samningar á opinberum vinnumarkaði verða lausir snemma á næsta ári. Við slíkar aðstæður skapast eðlilega ákveðinn órói á vinnumarkaði.

 

Margir segja að undiraldan sem nú er í gangi á vinnumarkaði sé ekkert frábrugðin því sem alltaf gerist í aðdraganda kjarasamninga. Hins vegar bendir margt til þess að umræðan nú sé þyngri en verið hefur í langan tíma. Þess vegna bið ég alla sem hlut eiga að máli að spara stóru orðin og mæta að samningaborðinu með einbeittan vilja til að ná ásættanlegri niðurstöðu, bæði fyrir launafólkið í landinu og þá ekki síst það sem minnst hafa milli handanna, sem og fyrirtækin í landinu.

 

Ég veit að margir hafa á tilfinningunni að í gangi sé launaskrið hjá efstu lögum samfélagsins og að skilja eigi eftir bæði millistéttina og lægri tekjuhópa. Við verðum að draga úr þessari tilfinningu og tryggja aukinn jöfnuð, ekki síst til að tryggja að börn í okkar góða og gjöfula landi alist ekki upp við svo mikla fátækt að þau geti ekki notið þess að stunda tómstundir, geti ekki boðið vinum sínum í afmælið sitt eða geti ekki haldið fermingarveislur vegna lágra tekna foreldra sinna.

 

Ég hef núna í sumar og haust verið að fara yfir og reyna að skilja launauppbygginguna sem tíðkast á vinnumarkaði í þessu ágæta landi okkar. Í því sambandi hef ég meðal annars reynt að skilja hvernig stendur á því að árslaun sumra einstaklinga eru hærri en verkamaður getur látið sig dreyma um á heilli starfsævi.

 

Ég er á því að bæði innan almenna og opinbera geirans þá séu efstu laun víða algjörlega úr takti við það sem almennt gerist í samfélaginu. Hinsvegar er ekki nóg að opinberi vinnumarkaðurinn taki á sínum málum, það verður hinn almenni líka að gera. Þar hafa hækkanir einstaka forstjóra verið úr öllum takti við raunveruleikann. Í því efni gengur ekki að bæði samtök atvinnulífs og verkalýðshreyfingin sitji hjá þegar kemur að fyrirtækjum sem eru í eigu lífeyrissjóða. Þar getið þið haft áhrif og beitt ykkar völdum.

 

Eftir að hafa farið yfir málin með ýmsum aðilum bæði á opinbera og almenna vinnumarkaðnum þá eru rökin fyrir hækkunum í efsta lagi samfélagsins yfirleitt sú að hækkunin sé vegna þess að laun hliðstæðra starfa hafi hækkað og þetta sé gert til að laun séu samkeppnishæf. Það eru tvær leiðir til að taka á launum í efsta lagi samfélagsins, annarsvegar að þeir sem ráði ríkjum bæði á almennum og opinberum markaði taki höndum saman og grípi til aðgerða en hin leiðin er að beita skattkerfinu. Best er að þessar leiðir færu að einhverju leyti saman.

 

Ég hyggst á næstunni reyna að beita mér fyrir því að samstaða náist um að taka á efstu launum samfélagsins. Þar þurfa að koma að báðir aðilar vinnumarkaðar, hið opinbera, forystumenn lífeyrissjóða og stærstu fyrirtækja. Ég hef sagt það áður, ég meinti það þá og segi það enn; Þessari vitleysu í efsta laginu verður að linna. Nú vil ég hinsvegar bæta við og segja að ef ekki næst samstaða um að stíga skref sem koma böndum á efstu laun samfélagsins, eins og ég lýsti hér að framan, þá mun sá sem hér stendur styðja verkalýðshreyfinguna í því að setja hátekjuskatt á hæstu tekjur íslensks samfélags.

 

Að þessu sögðu spyrja sig eflaust margir… Af hverju það sé mikilvægt að ná tökum á hæstu launum samfélagsins? Þurfum við ekki bara að hækka þá sem eru með lægri tekjur?

 

Þrátt fyrir að segja megi að efnahagshorfur séu almennt góðar bendir þó ýmislegt til að það muni eitthvað hægjast á hagkerfinu á komandi misserum, líkt og forseti Alþýðusambandsins kom inná hér áðan og að atvinnuleysi muni jafnframt aukast. Enn fremur hefur ferðaþjónustan verið mikið í umræðunni undanfarið og komið hefur í ljós að flugfélögin eru að glíma við rekstrarerfiðleika. Þá hefur hljóðið í atvinnurekendum víða á landinu verið þyngra en verið hefur á síðustu árum.

 

Við þessar aðstæður er margs að gæta en einnig til mikils að vinna og berum við öll ábyrgð í þeim efnum sama hvar við borðið við sitjum. Við eigum að geta í sameiningu varðveitt þann efnahagslega árangur sem náðst hefur á undanförnum misserum og haldið áfram að vinna ákveðið að því að treysta og viðhalda hér efnahagslegum stöðugleika.

 

Við þessar aðstæður þá er ekki svigrúm til launahækkana líkt og orðið hafa í efstu lögum samfélagsins niður allan stigann og þessvegna er mikilvægt að þeir sem hæstar hafi tekjurnar og hafa verið að hækka mest á undanförnum árum taki á sig auknar byrðar til að tryggja og viðhalda jöfnuði í íslensku samfélagi. Það er nefnilega svo að það þurfa allir að taka á til að viðhalda stöðugleika, ekki bara sumir.

 

Þrátt fyrir að kjarasamningar heyri ekki beint undir stjórnvöld hafa stjórnvöld oft og tíðum komið að gerð þeirra með einhverjum hætti, svo sem með tilteknum aðgerðum sem ætlað er að liðka fyrir því að samkomulag náist. Í ljósi þess sem ég hef sagt hér áður og sagði hér áðan þá verður aðkoma stjórnvalda mikilvægari en oft áður í þessum kjarasamningum. Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á gott samstarf og ég hef hingað til átt mjög gott samstarf við verkalýðshreyfinguna um ýmis mál og mun beita mér fyrir því að svo verði áfram á næstu vikum og mánuðum.

 

Einn mikilvægasti þátturinn í samstarfinu framundan verður sá hluti er snýr að endurskoðun skatta- og bótakerfis. Hafin er endurskoðun á tekjuskattskerfinu með áherslu á lækkun skattbyrði og mögulegar breytingar á fyrirkomulagi persónuafsláttar og samspili við bótakerfi sem ætlað er að styðja við tekjulægri hópa samfélagsins. Í þessari vinnu hefur sá sem hér stendur lagt ríka áherslu á samstarf við verkalýðshreyfinguna og það markmið að niðurstöður þessarar vinnu styðji við niðurstöður kjarasamningsviðræðna.

 

Góðir áheyrendur

 

Eins og ég nefndi áðan þá sýna tölur Vinnumálastofnunar að í september síðastliðnum hafi að jafnaði verið rúmlega fjögur þúsund einstaklingar skráðir án atvinnu hjá stofnuninni. Þrátt fyrir að þessum einstaklingum hafi fækkað frá því sem var í ágúst síðastliðnum eru þetta allt of margir miðað við tiltölulega gott ástand á vinnumarkaði.

 

Ég er einnig þeirrar skoðunar að allt of margir séu of lengi án atvinnu verði þeir fyrir því að verða atvinnulausir en ljóst er að eftir því sem lengri tími líður frá því að fólk missir vinnuna verður erfiðara fyrir það að ná fótfestu að nýju á vinnumarkaði.

 

Við verðum að bregðast við þessari óheillaþróun með einhverjum hætti og hef ég lagt á það áherslu við Vinnumálastofnun að stofnunin setji aukinn kraft í að fækka þeim einstaklingum sem standa of lengi utan vinnumarkaðar. Er sú áhersla í takt við þá vinnu sem ég hef sett í algjöran forgang í ráðuneyti mínu varðandi mögulegar leiðir til að styðja þá til virkni sem ekki ná því af sjálfsdáðum.

 

Eins og flestum er kunnugt stendur yfir gríðarlega umfangsmikil vinna í ráðuneyti mínu þar sem verið er að skoða leiðir að nýju framfærslukerfi almannatrygginga fyrir fólk sem hefur skerta starfsgetu samhliða því að tekið verði upp mat á starfsgetu. Er þessum breytingum ætlað er að leysa af hólmi núverandi örorkumatskerfi.

 

Við þá vinnu er lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og þverfaglegt mat á starfsgetu fólks sem byggist á líkamlegum, sálfræðilegum og félagslegum áhættuþáttum enda hefur reynslan sýnt að samspil ólíkra þátta getur haft áhrif á möguleika einstaklings til bata og til að snúa aftur til vinnu eftir tímabundið brotthvarf af vinnumarkaði. Í þessari vinnu hef ég lagt áherslu á að nýtt framfærslukerfi verði þannig úr garði gert að það hvetji fólk sem hefur skerta starfsgetu til atvinnuþátttöku enda hefur virk þátttaka í samfélaginu bein áhrif á andlega líðan einstaklinga.

 

Til að þetta geti orðið að veruleika verður atvinnulífið að skoða sinn þátt í að opna vinnumarkaðinn fyrir fólki sem einhverra hluta vegna hefur skerta starfsgetu en hafa ber í huga að þessi hópur er langt frá því að vera einsleitur. Ég er vel meðvitaður um að við getum ekki kallað eftir atvinnuþátttöku fólks sem hefur skerta starfsgetu séu hlutastörf og önnur sveigjanleg störf ekki til staðar á vinnumarkaði og mun ég því leggja mitt að mörkum til að tryggja möguleika fólks sem hefur skerta starfsgetu til að ráða sig í slík störf.

 

Það er mér nefnilega verulegt áhyggjuefni að við erum að sjá nýgengi örorku hér á landi slaga í náttúrulega fjölgun starfsfólks á vinnumarkaði. Við erum jafnframt að sjá að hlutfall ungra öryrkja á aldrinum 18–39 ára er hæst á Íslandi í norrænum samanburði en 29% öryrkja hér á landi er á þessum aldri.

 

Um er að ræða mikilvægt samfélagsmál sem varðar okkur öll og við verðum að stöðva þessa þróun. Þar verðum við fyrst og síðast að huga að líðan ungmennanna okkar sem byggja eiga framtíð þessa lands en rannsóknir sýna að vanlíðan þeirra hefur aukist. Ég hef miklar áhyggjur af þessari þróun og við megum ekki skella skollaeyrum við þessum skilaboðum heldur verðum við að líta til framtíðar, meðal annars með því að styðja við ungt fólk sem er að taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði.

 

Við verðum að leggja áherslu á að efla virkni fólks á hvaða aldri sem er, líka þeirra sem hafa skerta starfsgetu, og legg ég því áherslu á að til verði framfærslukerfi sem verður hvetjandi en ekki letjandi þegar kemur að atvinnuþátttöku fólks sem hefur skerta starfsgetu. Í þessari vinnu er gríðarlega mikilvægt að eiga gott samstarf við fulltrúa ykkar hér í verkalýðshreyfingunni.

 

Í þessu sambandi langar mig einnig að geta þess að ég fagna því að við séum loksins búin að innleiða efni tilskipunarinnar um jafna meðferð á vinnumarkaði en lögin tóku gildi síðastliðið vor. Að mínu mati var löngu kominn tími til að við tækjum þetta skref.

 

Fyrirséð er að vinnumarkaðurinn mun taka miklum breytingum á komandi árum, meðal annars samhliða áframhaldandi tækniframförum og hnattvæðingu. Með tækniframförum hafa kröfur um líkamlega getu minnkað sem hefur greitt fyrir atvinnuþátttöku fólks með líkamlegar skerðingar. Aftur á móti hefur andlegt álag aukist og kröfur um að tileinka sér nýjungar hafa enn fremur aukist. Þannig hefur störfum sem krefjast lítillar færni fækkað á sama tíma og sérfræðistörfum hefur fjölgað en ætla má að sú þróun haldi áfram með tilheyrandi áskorunum fyrir atvinnuþátttöku einstaklinga sem hafa skerta starfsgetu.

 

Aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa undanfarin ár verið sammála um mikilvægi þess að færni-, menntunar- og mannaflaþörf á íslenskum vinnumarkaði verði betur greind en verið hefur fram til þessa. Í ljósi þess hefur á síðustu misserum verið starfandi hópur sérfræðinga á vegum Vinnumálastofnunar, ASÍ, SA og Hagstofunnar við mótun tillagna að framtíðarfyrirkomulagi við gerð færni- og mannaflaspár fyrir íslenskan vinnumarkað.

 

Aðstæður á vinnumarkaði um þessar mundir sýna að mínu mati fram á mikilvægi þess að slíkar spár séu framkvæmdar, bæði til skamms tíma sem og lengri tíma litið, ekki síst til að auðvelda ungu fólki að ákveða hvað það vill verða þegar það verður stórt og auka möguleika þess á að fá vinnu við hæfi að námi loknu.

 

Það er því gaman að segja frá því að á föstudaginn í næstu viku, 2. nóvember, verður haldin ráðstefna, Forskot til framtíðar, þar sem til umfjöllunar verður vinnumarkaður framtíðarinnar með áherslu á möguleg áhrif breyttrar heimsmyndar á náms- og atvinnutækifæri ungs fólks og er ASÍ einn af bakhjörlum ráðstefnunnar. Ráðstefnan er opin öllum og vil ég hvetja alla sem hafa áhuga á mennta- og vinnumarkaðsmálum framtíðarinnar til að skrá sig.

 

Um nokkurt skeið hefur verið í gangi samstarfsverki ríkisins og BSRB um styttingu vinnutímans. Það er gaman að geta sagt frá því að svo virðist sem niðurstöður þeirra kannana sem gerðar hafa verið í tengslum við verkefnið séu afar jákvæðar og endurspegla þær einnig niðurstöður sambærilegra kannana hjá Reykjavíkurborg en borgin hefur staðið fyrir sérstöku verkefni um styttingu vinnutíma frá árinu 2015.

 

Hefur komið í ljós að stytting vinnutímans hefur haft í för með sér betri líðan þeirra starfsmanna sem tekið hafa þátt í verkefninu sem og betri starfsanda á vinnustöðunum sem taka þátt.

 

Enn fremur hefur dregið úr upplifun starfsmanna sem þátt taka í verkefninu af kulnun í starfi auk þess sem dregið hefur úr andlegum og líkamlegum streitueinkennum

 

Allt þetta jákvæða sem ég hef talið hér upp virðist ekki hafa haft neikvæð áhrif á framleiðni eða þá þjónustu sem veitt er á þessum vinnustöðum sem taka þátt í verkefninu nema síður sé auk þess sem fjarvistir á vinnutíma virðast færri en áður og allt bendir til að veikindadögum hafi fækkað. Það þarf kannski ekki djúpa greiningu til að sjá að þegar starfsfólki líður vel í vinnunni og er ánægt þá gerast hlutirnir.

 

Það er alveg ljóst að við þurfum vinnandi hendur, án þeirra ná hjól atvinnulífsins ekki að snúast. Á sama tíma og umræða um kulnun í starfi, og óhemju álag oft og tíðum hjá þeim sem halda hjólunum gangandi, hefur umræða um slæma meðferð á erlendu starfsfólki orðið háværari. Slíkt á ekki að líðast – ég hef sagt það áður og ítreka það hér.

 

Á þessu kjörtímabili hafa þegar verið gerðar lagabreytingar sem forseti ASÍ vitnaði til hér áðan og eiga vonandi eftir að reynast vel í því að snúa þessari þróun við. Reynslan mun leiða það í ljós en stutt er síðan hluti þessara lagabreytinga tóku gildi og því varla farið að reyna almennilega á þær enn. Ef í ljós kemur að ekki hafi verið gengið nægilega langt með þessum lagabreytingum mun ég ekki liggja á liði mínu og leggja til enn frekari breytingar.

 

Mikil og góð samvinna við verkalýðshreyfinguna skiptir þó öllu máli hér enda mikilvæg reynsla þar innanborðs þegar kemur að eftirliti með því að ekki sé verið að brjóta kjarasamninga um réttindi fólks á vinnumarkaði.

 

En það þarf fleira að koma til. Að mínu viti þurfa allir þeir aðilar sem með einhverjum hætti koma að eftirliti á vinnumarkaði að taka höndum saman, hvort sem um er að ræða eftirlit með skattgreiðslum, launagreiðslum til starfsmanna eða eftirlit með því að fyrirtæki séu ekki að koma sér undan skyldum sínum með svokölluðu kennitöluflakki en slíka brotastarfsemi verður að taka miklu fastari tökum en gert hefur verið eigi árangur að nást.

 

Ég hef kallað ýmsa aðila að borðinu til að hefja samhentar aðgerðir til að sporna gegn því að brotið sé á kjarasamningsbundnum réttindum útsendra starfsmanna og starfsmannaleigustarfsmanna. Þessi hópur verður kallaður saman strax í næstu viku og bind ég miklar vonir við niðurstöðu þessa samtals.

 

Hér þurfum við líka á viðhorfsbreytingu að halda. Það á ekki að líða illa meðferð á starfsfólki, hvort sem um er að ræða Íslendinga, útlendinga, konur, karla eða ungmenni. Við þurfum sem samfélag að fordæma slíka hegðun þannig að atvinnurekendur hugsi sig tvisvar um áður en þeir bendla nafn sitt eða þá starfsemi sem þeir standa fyrir við slíkt. Ill meðferð á starfsfólki verður að hafa í för með sér afleiðingar sem betra er fyrir atvinnurekendur og ímynd fyrirtækja að vera án.

 

Hver vinnustaður verður að móta sér stefnu í tengslum við forvarnarstarf. Markmiðið er einfalt – að starfsfólki líði vel í vinnunni og komi heilt heim að vinnudegi loknum.

 

Haustið 2017 birtust opinberlega sögur mörg hundruð kvenna um kynbundna og kynferðislega áreitni og um kynbundið ofbeldi sem þær höfðu orðið fyrir, þar með talið í vinnunni. Samfélagsumræðan um þetta þjóðarmein hefur verið kölluð #metoo og hefur leitt í ljós að kynferðislegt eða kynbundið ofbeldi, áreitni og ýmis konar mismunun virðist vera í öllum lögum samfélagsins, þar með talið á vinnumarkaði.

 

Það er ólíðandi að svo margar konur verði fyrir slíkri hegðun en meðal þeirra sem stigið hafa fram eru ungar stúlkur – dætur okkar – með frásagnir úr tómstunda- og íþróttastarfi og fullorðnar konur með frásagnir frá starfsferli sínum. Samhliða þessum frásögnum erum við að sjá tölur um að vanlíðan stúlkna í 10. bekk og fyrstu bekkjum menntaskóla er að aukast stórlega.

 

Þar sem mér blöskrar þessi ómenning á vinnustöðum hef ég skipað nefnd sem hefur það hlutverk að meta umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldis, auk eineltis á íslenskum vinnumarkaði. Jafnframt hefur nefndinni verið falið að rannsaka reynslu þolenda, vitna og gerenda og skoða til hvaða aðgerða er gripið á vinnustöðum í slíkum málum.

 

Þá er nefndinni ætlað að kanna hvort atvinnurekendur hafi gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað sínum, þar sem meðal annars komi fram til hvaða aðgerða skuli gripið í því skyni að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustaðnum og hvernig brugðist er við komi fram kvörtun, ábending eða rökstuddur grunur um slíka háttsemi á vinnustaðnum.

 

Samhliða framangreindri nefnd hefur verið skipaður aðgerðahópur en hlutverk hans verður meðal annars að koma á fót og fylgja eftir aðgerðum á vinnumarkaði sem miða að því að koma í veg fyrir einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

 

Ég vona innilega að þessi umræða sem verið hefur í samfélaginu undanfarið ár, þær aðgerðir sem gripið verður til sem og vonandi breytt og betri vinnustaðamenning verði til þess að uppræta þessa hegðun þannig að konur framtíðarinnar hafi ekki ástæðu til að stíga fram með þeim hætti sem konur gerðu þegar metoo-byltingunni var hrundið af stað.

 

Ég vona einnig að breytt landslag á þessu svið verði til þess að við sjáum fleiri konur en nú er við stjórnvölinn á öllum sviðum samfélagsins.

 

Því miður er staðreyndin sú að undanfarin ár hefur ríkt stöðnun hvað varðar breytta kynjasamsetningu í efstu stjórnunarlögum fyrirtækja. Svo notað sé líkingarmál hefur stundum verið rætt um að konur, sem eru að reyna að komast á toppinn, lýsi þeirri vegferð eins og þær séu að synda í leir á meðan karlar syndi í vatni. Þessu verðum við að breyta.

 

Á sama tíma og við hvetjum konur til að taka virkari þátt á vinnumarkaði en þær gera nú þegar tel ég mikilvægt að þær greiðslur sem foreldrar geta fengið úr Fæðingarorlofssjóði þegar kemur að töku fæðingarorlofs séu það háar að bæði mæður og feður sjái sér fært að nýta rétt sinn til fulls án þess að það verði til þess að heimilisbókhaldið fari á hliðina. Jafnframt verðum við að lengja fæðingarorlofið og brúa bilið milli þess og leikskóla.

 

Í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að draga sem mest úr tekjumissi foreldra vegna fæðingar barna verður hámarkið á fæðingarorlofsgreiðslum því hækkað í 600.000 vegna barna sem fæðast eftir næstu áramót. Þessu skrefi ber að fagna.

 

 

Áður en ég læt staðar numið vil ég, síðast en ekki síst víkja að húsnæðismálunum, sem meðal annars hefur verið mikið rætt um í tengslum við komandi kjarasamningsviðræður. Enda er ljóst að enginn grundvöllur er fyrir kjarasamningum ef húsnæðisverð heldur áfram að hækka líkt og gerst hefur á undanförnum árum. Ég tel gríðarlega mikilvægt að allir hlutaðeigandi sem láta sig varða velferð almennings á sviði húsnæðismála, þar á meðal verkalýðshreyfingin, komi saman að borðinu þannig að gera megi raunverulegar breytingar á húsnæðismálum hér á landi. Í þessu sambandi hef ég kallað eftir því að menn hugsi bæði í stærri lausnum og út fyrir boxið. Húsnæðisöryggi er grundvöllur velferðar almennings á öðrum sviðum og því verðum við að gera betur í þessum málaflokki.

 

Staðan á leigumarkaði er óviðunandi og hefur verið of lengi. Leigjendur búa við lítið húsnæðisöryggi og eru miklu líklegri en aðrir hópar á húsnæðismarkaði til að búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Það er allt of mikið að verja 40% eða hærra hlutfalli af ráðstöfunartekjum sínum í leigu.

 

Leiguverð hefur hækkað mikið samhliða hækkun fasteignaverðs. Þannig hefur til að mynda staðvirt meðalleiguverð húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu aukist um 37% frá árinu 2011. Svo mikil hækkun á leiguverði hefur reynst afar þungbær, ekki síst þeim sem minnst hafa á milli handanna. Sú hækkun gerir þeim sem stefna að því að festa kaup á eigin húsnæði það vitaskuld einnig enn erfiðara að safna fyrir útborgun til fasteignakaupa.

 

Það auðveldar ekki heldur stöðu þeirra sem stefna að fyrstu kaupum eigin húsnæðis að raunverð lítilla íbúða, undir 70 fermetrum að stærð, hefur hækkað mest samanborið við annað íbúðarhúsnæði, og er í sögulegu hámarki um þessar mundir.

 

Við vitum líka að flestir á leigumarkaði eru þar af nauðsyn fremur en að eigin vali. Samkvæmt nýlegri könnun sem unnin var fyrir Íbúðalánasjóð bjuggu 8% svarenda á leigumarkaði í leiguhúsnæði af því að þeir völdu að gera það en 64% sögðust gera það af nauðsyn.

 

Svo þarf aftur á móti ekki að vera. Við eigum að geta byggt upp heilbrigðan leigumarkað þar sem viðeigandi húsnæði býðst á viðráðanlegu verði þannig að einstaklingar hafi raunverulegt val um búsetuform, hvort sem þeir kjósa að búa í eigin húsnæði, leiguhúsnæði eða búsetuíbúð í húsnæðissamvinnufélagi. Öll hafa þessi búsetuform mismunandi eiginleika sem höfða til ólíkra hópa en forsenda fyrir raunverulegu vali er þó auðvitað alltaf viðráðanlegur húsnæðiskostnaður og húsnæðisöryggi.

 

Margt hefur vissulega áunnist í húsnæðismálum á undanförnum árum, meðal annars fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar. Má í því sambandi nefna almenna íbúðakerfið sem komið var á fót í samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Tilgangur þess var og er að fjölga leiguíbúðum á viðráðanlegu verði sem og nýtt húsnæðisbótakerfi sem jók verulega húsnæðisstuðning við leigjendur og gerði hann jafnari þeim stuðningi sem hið opinbera hefur veitt íbúðareigendum og búseturéttarhöfum húsnæðissamvinnufélaga í gegnum vaxtabótakerfið.

 

Þá má nefna stuðning við fyrstu kaupendur í formi heimildar til ráðstöfunar skattfrjáls séreignarsparnaðar og þær mikilvægu breytingar sem gerðar voru á lögum um húsnæðismál fyrr á þessu ári.

 

Í samræmi við áherslu þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr á húsnæðismál stendur nú enn fremur til að gera breytingar á fyrirkomulagi húsnæðismála innan Stjórnarráðsins þannig að þau verði á ábyrgð eins og sama ráðuneytisins, ólíkt því sem verið hefur. Tel ég að það muni efla mjög stjórnsýsluna á þessu sviði enda næst með því betri yfirsýn og stefnumótun og skýrari ábyrgð á málaflokknum.

 

Jafnframt þarf að skoða hvaða leiðir séu færar til að auðvelda fólki að festa kaup á sinni fyrstu fasteign. Þau mál eru til skoðunar og er verið að vinna að tillögum í samstarfi við Íbúðalánasjóð með hliðsjón af þeim leiðum sem farnar hafa verið í nágrannalöndum okkar. Tillögur þar að lútandi eru í vinnslu en þar erum við bæði að horfa til nágrannalanda okkar á Norðurlöndum sem og til Sviss þar sem tíðkast að nýta lífeyrissparnað til fyrstu kaupa á húsnæði.

 

Þrátt fyrir þau skref sem stigin hafa verið í húsnæðismálum undanfarin ár er okkur öllum ljóst að við eigum margt óunnið en til að tryggja að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum, óháð efnahag og búsetu  verðum við að auka framboð á viðeigandi húsnæði á viðráðanlegu verði.

 

Þar tel ég að líta megi til reynslu nágrannaþjóðar okkar í Finnlandi en þar hefur góður árangur náðst á sviði húsnæðismála, stöðugleiki ríkir þar á húsnæðismarkaði og byrði húsnæðiskostnaðar hjá þeim efnaminni er lægri en annars staðar á Norðurlöndunum.

 

Húsnæðisstefna Finna grundvallast á öflugu samstarfi finnska ríkisins, sveitarfélaga og opinberra stofnana og hafa þessir aðilar til að mynda gert með sér samkomulag um byggingu 60.000 íbúða á Helsinki-svæðinu á árunum 2016-2019. Áhersla hefur verið lögð á byggingu hagkvæms húsnæðis án hagnaðarsjónarmiða og gegnir finnska húsnæðisstofnunin ARA, systurstofnun Íbúðalánasjóðs, þar lykilhlutverki með veitingu styrkja, vaxtaniðurgreiðslna og ábyrgða. Hefur hún átt aðkomu að byggingu um það bil fimmtungs allra íbúða í Finnlandi. Ég tel að við getum lært margt af Finnum í þessum efnum.

 

 

Ég hef átt gott samtal við foryustu verklýðshreyfingarinngar um húsnæðismál enda hafa húsnæðismál oft á tíðum haft mikil áhrif á lausn kjaradeilna. Ég horfi til þess sem þið munið leggja áherslu á í þessum efnum. Húsnæðismálin eru ein af grunnforsendum fyrir því að ná kjarasamningum. Í þessu efni þurfum við að hugsa út fyrir boxið og hugsa í stærri lausnum. Ég er tilbúinn í þann leiðangur með ykkur í komandi kjarasamningum.

 

Mig langar einnig rétt í lokin að segja örfá orð um skuldamál heimilanna en nú er 10 ár liðin frá efnahagshruni. Í hruninu þurftu margir að taka á sig byrðar og mér fannst þær upplýsingar að 10.000 fjölskyldur hefðu misst heimili sín í hruninu sláandi. Fyrir skemmstu var lögð fram á Alþingi skýrslubeiðni til Félagsmálaráðherra um hver væri félagsleg staða þessara heimila eftir hrunið. Ég hef ákveðið að dýpka þessa vinnu við úrvinnslu skýrslubeiðninnar og er að forma það með hvaða hætti það verður gert.

Spurningarnar sem mér finnst við m.a. þurfa að leita svara við eru:

  1. Komu ákveðnir samfélagshópar verr út úr hruninu en aðrir m.t.t. tekju, eigna-og skuldastöðu ?
  2. Hvert var efnahagslegt tap/ávinningur einstakra hópa
  3. Hvað skýrir efnahagslegt tap/ávinning einstakra hópa?
  4. Hvaða afleiðingar hafði efnahagsáfallið fyrir viðkomandi hópa og fjölskyldur þeirra?

 

Það er mikilvægt að við förum yfir þessi mál. Bæði til að læra hvað hefði mátt betur fara og eins til að skoða hvort þeir sem verst fóru út úr hruninu séu enn að glíma við erfiðleika af þeim sökum og þá hvort ástæða sé fyrir okkar ágæta samfélag að grípa þar inní og koma þessum fjölskyldum til  hjálpar.

 

Góðir gestir

 

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur lagt ríka áherslu á samvinnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins líkt og verið hefur hingað til. Ég hef átt gott samstarf við verkalýðshreyfinguna um ýmis mál, svo sem hugmyndir um breytingar á skattkerfinu, ýmsar breytingar í velferðarmálum og róttækari nálgun í húsnæðismálum en við höfum séð undanfarin ár en allt eru þetta atriði sem ríma vel við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

 

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og þakka Gylfa Arnbjörnssyni samstarfið og framlag hans til málefna verkalýðshreyfingarinnar undanfarin ár, við höfum átt gott samstarf það tæpa ár sem ég hef setið í stól félagsmálaráðherra. Ég vil óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

Um leið vil ég segja við ykkur sem hér eruð að ég hlakka því til að takast á við þessi mál, sem og önnur sem á fjörur okkar rekur, með nýrri og öflugri forystu ASÍ sem þið munuð kjósa ykkur hér á þinginu. Ég þakka fyrir mig og hlakka til samstarfsins og er tilbúinn til samstarfs við ykkur í komandi kjarasamningum og í framtíðinni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum