Hoppa yfir valmynd
04. apríl 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræða ráðherra við setningu ráðstefnu um framtíðarskipan vinnunnar og breytingar á vinnumarkaði

Ræða Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, við opnun ráðstefnu um framtíðarskipan vinnunnar og breytingar á vinnumarkaði sem haldin var í Hörpu 4. og 5. apríl 2019 í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og Alþjóðavinnumálastofnunina.

Hr. forseti Íslands, forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, framkvæmdastjóri Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, ráðherrar, fulltrúar alþjóðlegra og norrænna samtaka aðila vinnumarkaðarins og aðrir þátttakendur.

Á árunum 1914–1918 gekk mannkynið í gegnum þann mikla hildarleik sem fyrri heimsstyrjöldin var. Samtals er áætlað að um 60 milljónir hermanna hafi tekið þátt í þeirri styrjöld sem kölluð var styrjöldin til að ljúka öllum styrjöldum. Fórnarlömbin þegar yfir lauk voru níu milljónir hermanna og sex milljónir óbreyttra borgara. Á síðustu mánuðum stríðsins geisaði Spánarveikin. Talið er að hún hafi valdið dauða milli 50 og 100 milljóna manna. Íslendingar fóru ekki varhluta af þessum hamförum. Afkomendur Íslendinga í Kanada voru í herjum bandamanna. Aðdrættir á nauðsynjavöru urðu stórum erfiðari vegna styrjaldarinnar á meginlandi Evrópu. Spánarveikin tók sinn toll á Íslandi eins og í öðrum ríkjum.

Styrjöldinni lauk 11. nóvember 1919 og formlega með friðarsamningunum sem undirritaðir voru í Versölum 28. júní 1919. Unnið var að gerð friðarsamningsins af nefndum og ráðum. Ein nefndin hafði þó sérstöðu. Henni var komið á laggirnar að beiðni samtaka launafólks í nokkrum ríkjum til að fjalla almennt um vinnurétt. Í henni áttu ekki aðeins sæti fulltrúar ríkisstjórna heldur einnig talsmenn atvinnurekenda og launafólks, samtals 15 manns.

Að loknu 10 vikna starfi afgreiddi vinnumálanefndin skjal sem byggt var á breskum drögum sem 11. apríl 1919 urðu að XIII. kafla Versalasáttmálans. Í kaflanum er kveðið á um það að komið skuli á fót sérstakri stofnun er hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða og aðeins verði sigruð með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna. Sérstaklega er tekið fram að varanlegur friður verði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti sé fyrst komið á innan þjóðfélaganna sjálfra vegna þess að vísinn að árekstrum, sem leiða til styrjalda þjóða í milli, leynist í því félagslega ranglæti sem milljónir manna búa við í hinum ýmsu löndum. Í því skyni viði stofnunin að sér upplýsingum um atvinnumál og ástand í félagsmálum, ákveði lágmarkskröfur og samræmi þær í hverju landi eftir aðstæðum þess og þörfum. Þessi kafli Versalasamningsins er kjarninn í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization – ILO). Síðan er liðin ein öld.

Ég ætla ekki að fjölyrða um sögu Alþjóðavinnumálstofnunarinnar. Það verður gert af mér fróðari manni. Ég vil einungis geta þess að Norðurlöndin hafa sýnt starfi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá upphafi mikinn áhuga og stutt starf hennar með ýmsum hætti. Danmörk, Noregur og Svíþjóð voru meðal stofnríkjanna. Þótt Finnland væri ekki í þeim hópi tók finnsk sendinefnd þátt í fyrsta Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í Washington í lok október 1919. Það var haldið í skugga þess að mikill baráttumaður fyrir stofnun Þjóðabandalagsins og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Woodrow Wilson forseti Bandaríkjanna, hafði mánuði áður fengið hjartaáfall. Með dyggum stuðningi frú Wilson og ungs manns að nafni Franklin D. Roosevelt var þingið haldið með miklum sóma.

Frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur erlent samstarf stjórnvalda á sviði félags- og vinnumála vaxið mikið að umfangi. Þar vegur þyngst þátttaka í samstarfi Norðurlandanna og samvinna við aðildarríki Evrópuráðsins sem hófst á sjötta áratug síðustu aldar. Aðild að alþjóðlegu félagsmálasamstarfi hófst áratug fyrr, eða árið 1945, þegar umsókn Íslands að Alþjóðavinnumálastofnuninni var samþykkt á Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í París. Stofnunin mun vera meðal fyrstu eða jafnvel alfyrstu alþjóðlegu samtökin sem Ísland gekk í eftir lýðveldisstofnunina árið 1944. – Ég vil nota þetta tækifæri og bjóða forstjóra stofnunarinnar, Guy Ryder, hjartanlega velkominn á ráðstefnuna. Hann er fyrsti forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem heimsækir Ísland.

Þegar aldarafmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar stóð fyrir dyrum barst ríkisstjórnum aðildarríkjanna bréf, í desember 2015, frá forstjóranum, Guy Ryder. Í bréfinu var því beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna að efna til umræðna um eftirfarandi þætti sem gætu orðið innlegg í stefnumótun fyrir starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í nánustu framtíð: Þróun atvinnulífsins og samfélagsins, atvinnusköpun – einnig í þágu þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, breytingar á skipulagi vinnunnar vegna nýrrar tækni og á samskiptum atvinnurekenda og launafólks, réttindum og skyldum sem og formi á reglusetningu o.fl. á sviði félags- og vinnumála.

Ríkisstjórnir Norðurlandanna svöruðu bréfi forstjórans í febrúar 2016 með því að upplýsa að þær hafi ákveðið í stofna til samstarfsverkefnis af þessu tilefni í samvinnu við Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, Alþjóðavinnumálastofnunina og samtök aðila vinnumarkaðarins. Hluti af samstarfsverkefninu yrði að halda árlegar ráðstefnur um þau viðfangsefni sem koma fram í bréfi forstjórans. Ráðstefnurnar myndu fylgja formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Finnlandi árið 2016, önnur í Noregi árið 2017 og sú þriðja í Svíþjóð vorið 2018. Nú er komið að lokaþætti verkefnisins sem er þessi ráðstefna sem nú er að hefjast hér í Reykjavík.

Verkefni okkar verður að brjóta til mergjar skýrslur sem teknar hafa verið saman á undanförnum misserum um viðbrögð við fyrirsjánanlegum breytingum sem verða á vinnu og vinnuumhverfi á næstu árum og áratugum. Ég vil í því sambandi nefna skýrslu heimsnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Áfangaskýrslu um sérstakt rannsóknarverkefni sem Norræna ráðherranefndin stofnaði til árið 2017. Einnig verður gerð grein fyrir athyglisverðri skýrslu nefndar á vegum danskra stjórnvalda og skýrslu nefndar á vegum íslenska forsætisráðherrans. Seinni ráðstefnudaginn munum við beina sjónum að stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum og fræðast um leiðir til að vinna að launajafnrétti og gegn kynbundnu misrétti í atvinnulífinu.

Þótt Ísland standi öðrum ríkjum framar um stöðu og þróun kynjajafnréttis hefur ekki náðst jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins og það á ekki síst við um vinnumarkaðinn. Alþjóðaefnahagsráðið hefur reiknað út að á Norðurlöndunum verði jafnrétti á vinnumarkaði ekki náð fyrr en eftir um sextíu ár og eru þetta þó þær þjóðir sem framast standa í þessum efnum. Rannsóknir sýna að það er mikið þjóðhagslegt hagsmunamál að auka jafnrétti á vinnumarkaði og í atvinnulífinu. Stærstu vörðurnar á þeirri leið sem leitt hefur Ísland til forystu í jafnréttismálum hafa margar orðið til fyrir afskipti hins opinbera, oftar en ekki í góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á jafnréttismál og að Ísland eigi að vera fyrirmynd um jafnréttismál þar sem hægt er að gera enn betur.

Ég vil nefna eitt atriði. Meðan á ráðstefnunni stendur verður tækifærið notað til að fullgilda samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 186, um vinnuskilyrði farmanna, frá árinu 2006. Með fullgildingunni öðlast íslensk stjórnvöld hafnareftirlitsmála valdheimildir til að beita fullnustuákvæðum gagnvart siglingum skipa sem uppfylla ekki alþjóðakröfur um aðbúnað, öryggi og hollustuhætti áhafna kaupskipa og atvinnuréttindi þeirra. Sama tækifæri verður notað til að ganga frá fullgildingu Svíþjóðar á samþykkt stonunarinnar nr. 189, um þjónustufólk á heimilum.

Framundan er glæsileg dagskrá og er markmið ráðstefnunnar  að draga fram þætti sem við teljum eiga erindi í mótun stefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á næstu árum. Í gær fóru fram skoðanaskipti milli norrænu vinnumálaráðherranna og forstjóra Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um með hvað hætti okkar framlagi verði best komið á framfæri. Niðurstaðan er sú að beinast liggur við að það verði gert á komandi afmælisþingi stofnunarinnar í júní næstkomandi. Það er því verðugt verkefni ráðstefnunnar og búa okkur og fulltrúa okkar sem best undir 100 ára afmælisþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Ég segi ráðstefnuna hér með setta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum