Hoppa yfir valmynd
29. ágúst 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni strandar á íbúðaskorti

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra skrifar:

Húsnæðismál hafa verið ofarlega á baugi síðastliðin ár enda ríkir skortur á íbúðarhúsnæði víða um land. Ríkisstjórnin hefur langt mikla áherslu á að efla húsnæðismarkaðinn og stuðla að auknu jafnvægi á honum óháð efnahag og búsetu. Fjölmörgum aðgerðum hefur nú þegar verið hrundið í framkvæmd til að bregðast við og eru aðrar í bígerð. Landsbyggðin hefur lögnum þótt sitja eftir í þessum efnum. Uppbygging íbúðarhúsnæðis víða um land hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, frekar en á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum.

Tillögur unnar í samstarfi við sveitarfélög

Á haustmánuðum setti ég af stað tilraunaverkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni með Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Var það gert í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land. 

Þrjátíu og þrjú sveitarfélög af öllu landinu sóttu um þátttöku. Sjö urðu fyrir valinu og tók valið mið af því að áskoranirnar sem þau stæðu frammi fyrir væru mismunandi og á ólíkum landsvæðum. Þannig yrði til breiðara framboð lausna í húsnæðismálum sem nýst geti sem flestum sveitarfélögum sem á þurfa að halda. Íbúðalánasjóður hefur undanfarna mánuði unnið náið með tilraunasveitarfélögunum að því að greina þann vanda sem þau standa frammi fyrir og undirbúa tillögur að aðgerðum.

Tólf tillögur að aðgerðum

Á grundvelli þeirrar vinnu voru lagðar fram tólf tillögur að lausnum sem kynntar voru fyrir ríkisstjórn í maí og birtar í samráðsgátt stjórnvalda í lok júlí. Þær umsagnir sem bárust voru allar jákvæðar og var í kjölfarið ákveðið að tillögurnar yrðu innleiddar.

Í byrjun vikunnar skrifaði ég undir breytingar á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni muni geta tekið lán hjá Íbúðalánasjóði til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem opinber húsnæðisáætlun, staðfest af Íbúðalánasjóði, sýnir að skortur sé á húsnæði af því tagi sem byggja á. Þá verður brugðist við skorti á hagkvæmu leiguhúsnæði með því að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með auknu stofnframlagi ríkisins og verður frumvarp þess efnis lagt fram á haustþingi.

Öflug byggðastefna er hagsmunamál okkar allra

Það er mikilvægt að atvinnutækifæri séu nýtt allt í kringum landið en dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hamli frekari uppbyggingu. Sá skortur er tilkominn vegna þess að misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Mikilvægt er að húsnæðisskortur standi ekki í vegi fyrir því og geri það að verkum að fólk fáist ekki til starfa. Sé það raunin ber stjórnvöldum að mínu viti skylda til þess að grípa til aðgerða og eftir því hefur ítrekað verið kallað. Með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni erum við að undirstrika vilja ríkisvaldsins til að standa við bakið á heimamönnum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2019

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum