Hoppa yfir valmynd
19. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp á málþingi Sigurhæða

Kæru málþings gestir

Kærar þakkir fyrir að fá tækifæri til að ávarpa ykkur hér í dag.

Það sem mér finnst skemmtilegast og mest gefandi í starfi mínu sem ráðherra er ekki síst það að fá tækifæri til að hitta fólk eins og ykkur, alls konar fólk sem brennur fyrir því sem það er að gera. Það eru nefnilega ekki síst félagasamtök eins og Soroptimistar sem drífa áfram mikilvæg verkefni.

Hér í dag erum við að fagna einu slíku verkefni – Sigurhæðum. Sigurhæðir, eins og Bjarkahlíð í Reykjavík og Bjarmahlíð og Aflið á Akureyri og Drekaslóð eru ómetanleg fyrir samfélagið.

Og hér svífur jákvæðnin yfir vötnum – Fram úr björtustu vonum –

---

Ég hefði sannarlega viljað hafa geta verið með ykkur hér frá því í morgunn – því ég sé að dagskráin sem hér hefur verið er uppfull af mjög áhugaverðum fyrirlestrum og einvala lið fyrirlesara.

Það er ánægjulegt að sjá hér á dagskrá málþingsins umfjöllun um verkefni sem við í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu höfum stutt við.

Karlmennska á strandstað
Um áramótin veitti ég Karlmennskunni styrk til þess að styðja við átakið „Jákvæð karlmennska“.

Heimilisfriður
Við í ráðuneytinu erum nýbúin að skrifa undir samning við Heimilisfrið – það er gott að geta stutt við þjónustu fyrir þá einstaklinga sem hafa beitt ofbeldi í nánum samböndum.

Aðgerðarteymi gegn ofbeldi
Í Covid faraldrinum var sett af stað sérstakt aðgerðarteymi gegn ofbeldi. Þáverandi félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra skipuðu þær Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra og Eygjó Harðardóttur fyrrverandi félagsmálaráðherra í teymið.

Verkefni teymisins sneru einkum að almennri vitundarvakningu um ofbeldi gegn börnum og heimilisofbeldi. Eflingu þjónustu og stuðningsúrræða við þolendur ofbeldis og suðning og þróun og framkvæmd annarra verkefna á þessu sviði.

Aðgerðarteymið kom m.a. með tillögu að aðgerðum sem miða að gerendum sem ríkislögreglustjóri vinnur nú að samkvæmt styrktarsamkomulagi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Aðgerðirnar fela í sér a) innleiðingu áhættumatskerfis í málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum, b) þróun og innleiðingu á áhættumatskerfi þar sem skilningur á kynferðisbrotum gegn börnum og aðstæðum er dreginn fram og mögulegar kveikjur brotanna, c) þróaðar verði leiðir til að draga úr áhættu á frekari brotum og d) bjóða upp á hvatningarsamtöl  með geranda/sakborningi af forvarnarteymi, óháð sakamálarannsókn.

Forvarnarstarf gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum
Ráðuneytið hefur í gegnum árin stutt við aðgerðir gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum. Aðgerðarteymið sem ég nefndi hér á undan lagði fram tillögur um aðgerðir gegn kynferðisofbeldi gagnvart börnum og veitti ráðuneytið styrk til aðgerða gegn stafrænu kynferðisofbeldi gegn börnum,

 

Þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025
Starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins fylgir nú eftir þingsályktun um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021 – 2025. Þar er ekki síst lögð megináhersla á að efla aldursmiðaða kennslu og forvarnir í leik-, grunn- og framhaldsskólum í samvinnu við heilsugæslu, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar.

Starfshópur um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti
Eftir að aðgerðarteymið gegn ofbeldi lauk störfum skipaði dómsmálaráðherra sérstakan starfshóp um forvarnir og vitundarvakningu gegn kynferðisbrotum og kynbundnu ofbeldi og áreiti. Hlutverk starfshópsins, sem leiddur er af ríkislögreglustjóra, er að styðja við uppbyggingu á samstarfi lögreglu og samstarfsaðila gegn ofbeldi og afleiðingum þess, þar á meðal í formlegri þjónustu við þolendur kynferðisbrota. Starfshópurinn mun einnig standa fyrir almennri vitundarvakningu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu.

---

Það er magnað að lesa um aðdraganda Sigurhæða í áfangaskýrslunni frá því í lok september 2021. Ekki síst sá hluti sem segir frá Soroptimistaklúppi Suðurlands – einum af 19 klúbbum þessara grasrótarsamtaka kvenna. Þið þekkið örugglega þessa sögu betur en ég – en mér finnst það magnað að þessi frjálsu félagasamtök hafi tekið umræðu um það hvernig þær geti best orðið að liði í samfélaginu og treyst félagslega innviði i heimabyggð. Þeirra niðurstaða var að ekki væru líkur á því að Suðurland skæri sig úr landinu í heild hvað tíðni og alvarleika kynbundins ofbeldis snerti og það að engin sérhæfð úrræði ætluð þolendum voru til staðar á Suðurlandi. Þess vegna eigum við SIGURHÆÐIR í dag.

Þetta er því enn eitt dæmið um mikilvægi frjálsra félagasamtaka fyrir okkur sem samfélag.

Markmið Sigurhæða þríþætt
Ég get ekki sett mig í spor þeirra kvenna sem eru þolendur kynbundins ofbeldis en ég get ímyndað mér að það sé ómetanlegt að geta leitað á öruggan vettvang og fengið aðstoð fagfólks til að vinna úr áföllum sem eiga rætur í ofbeldinu, hvort sem það er kynferðislegt, andlegt, líkamlegt eða tilfinningalegt.

Ég veit að annað megin verkefni Sigurhæða er að vera mikilvægur vettvangur til að efla samstarf milli þeirra sem veita þolendum kynbundins ofbeldis þjónustu á Suðurlandi.

Það er líka frábært að eitt af hlutverkum Sigurhæða sé að auka vitund og þekkingu á kynbundnu ofbeldi meðal almennings, fagaðila og samstarfsaðila með þjálfun og fræðslu.

Hvatningin til þeirra sem orðið hafa fyrir hvers konar ofbeldi til að segja frá og leita sér aðstoðar er afar mikilvæg – og líka fræðsla fyrir okkur öll – til að berjast gegn gerendameðvirkni.


Ein af tillögum aðgerðarteymisins gegn ofbeldi var að þróa rafrænu vefgáttina 112.is
og efna til almennrar vitundarvakningar undir yfirskriftinni „Segðu frá“. Þar er almenningur hvattur til þess að tilkynna og leita aðstoðar hafi viðkomandi einstaklingur orðið fyrir ofbeldi eða orðið vitni af ofbeldi.

Vitundarvakningin miðar sérstaklega að viðkvæmum hópum þar með talið börnum, fólki af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki.

112.is er nú orðin vel þekkt upplýsingaveita um allt sem tengist ofbeldi og þangað leita margir daglega eftir upplýsingum um ofbeldi, birtingarmyndir þess, fræðsluefni og upplýsingum um þjónustuúrræði – þar með talið þjónustu SIGURHÆÐA.

---

Kæru málþings gestir

Ég vil enn og aftur þakka fyrir þann heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag.

Ég treysti því að SIGURHÆÐIR haldi áfram að sinna sínu mikilvæga starfi og að starfið haldi áfram að fara fram úr björtustu vonum

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum