Hoppa yfir valmynd
10. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra við upphaf 45. þings ASÍ 2022

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Kæru þingfulltrúar, gestir og starfsfólk þingsins,

Það er mér sönn ánægja að fá hér tækifæri til að ávarpa ykkur við upphaf þessa 45. þings Alþýðusambands Íslands.

Þegar litið er yfir dagskrá þingsins þá er ljóst að flest af því sem þið takið til umræðu hér næstu daga snertir þá málaflokka sem tengjast félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu með einum eða öðrum hætti. Verkalýðshreyfingin, og þar með talið ASÍ, er mikilvægur samstarfsaðili ráðuneytisins og stjórnvalda og veitir og á að veita mikilvægt aðhald við stjórnvöld.

Pólitískar áherslur ráðherra

Tvö ár eru fljót að líða, en það er sá tími sem forysta ASÍ er kosin til hverju sinni. Fjögur ár, hámarkslengd kjörtímabils á Alþingi er líka stuttur tími, og oft er hann styttri en það í ráðherraembætti. Það eru því forréttindi að fá tækifæri eins og þau sem ég hef fengið með setu í ríkisstjórn og ég vil reyna að nýta það tækifæri sem allra best.

Tækifærið sem ég hef núna hyggst ég nýta til að styrkja velferðarkerfið á Íslandi. Ég ætla að nefna þrennt hér í því samhengi:

- Að umbylta örorkulífeyriskerfinu þannig að möguleikar fólks með mismikla starfsgetu til atvinnuvinnuþátttöku verði raunverulega auknir, og kjör hinna lakast settu bætt,
- Að opna vinnumarkaðinn fyrir meiri fjölbreytileika þar sem fatlað fólk, innflytjendur og fólk sem hefur einfaldlega misst fótanna með einum eða öðrum hætti fær raunveruleg tækifæri til að stunda atvinnu við hæfi, og
- Að hefja löngu nauðsynlega vegferð í bættri þjónustu við eldra fólk þar sem samþætting heilbrigðis- og félagshluta málaflokksins er lykilatriði.

Í þessari vinnu allri vil ég hafa að leiðarljósi baráttuna gegn fátækt og einmanaleika í samfélaginu.

Samráðið

Ég er alinn upp hjá félagsamtökum og legg mikla áherslu á samráð í öllum málaflokkum sem tengjast ráðuneyti mínu. Hvað vinnumarkaðinn varðar þá fer samráðið aðallega fram með tvennum hætti. Annars vegar í gegnum all margar nefndir sem fulltrúar vinnumarkaðarins eiga sæti í og síðan líka í gegn um Þjóðhagsráð, sem stýrt er af forsætisráðherra.

Á fundum Þjóðhagsráðs á þessu ári hafa verið tekin fyrir fjölmörg málefni sem tengjast vinnumarkaðnum með einum eða öðrum hætti. Ég ætla að koma inn á sum þeirra   stuttlega og byrja á húsnæðismálum.

Þjóðarátak í húsnæðismálum

Það eru fáir málaflokkar sem snerta með beinum hætti jafn mörg okkar og húsnæðismál. Húsnæðismál eru hvoru tveggja velferðarmál og efnahagsmál og þarf opinber stefnumótun og aðgerðir í húsnæðismálum þurfa samhliða að stuðla að félagslegri samheldni og efnahagslegum stöðugleika.

Við gerð lífskjarasamninga í apríl 2019 samþykkti ríkisstjórnin að styðja við gerð samninganna m.a. með aðgerðum í húsnæðismálum sem að langmestu leyti voru á grundvelli tillagna átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðuna á húsnæðismarkaði. Í janúar á þessu ári var staðan á húsnæðistillögum kynnt fyrir Þjóðhagsráði en flestar tillögur átakshópsins höfðu þá komið til framkvæmda og sumum lokið, aðrar í vinnslu eða komnar vel á veg.

Nýr starfshópur Þjóðhagsráðs skilaði tillögum í maí síðastliðnum sem leiddi til rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisáætlun til tíu ára. Tilgangur rammasamningsins er að auka framboð nýrra íbúða til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins og stuðla að auknum stöðugleika og jafnvægi á húsnæðismarkaði á næstu tíu árum.

Jafnframt hefur verið settur á starfshópur um húsnæðisstuðning sem ætlað er að koma með tillögur að endurskoðun beins hússnæðisstuðnings til einstaklinga í formi húsnæðisbóta, vaxtabóta, sérstaks húsnæðisstuðnings sveitarfélaga og skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar.

Þar að auki er starfshópur að störfum sem ætlað er að endurskoða húsaleigulögin til að bæta réttindi og húsnæðisöryggi leigjenda.

Þessi vinna að húsnæðismálum sem nú er í gangi skiptir miklu máli fyrir heimilin í landinu og stöðugleika í efnahagslífinu til lengri tíma litið.

Aðstæður á vinnumarkaði og kjarasamningsviðræðurnar framundan

Ég er ítrekað spurður um það hvað mér finnist og hvað ég vilji í tengslum við kjarasamningsveturinn sem framundan er. Við vitum að hækkun vaxta er mörgum heimilum þung, verðbólgan er há, skortur er á húsnæði á sama tíma og aldrei hafa fleiri leitað hér að alþjóðlegri vernd.

Samt er margt hagfeldara hér á landi en í löndunum í kringum okkur. Á það sérstaklega við um orkuverð og atvinnuástandið er hér gott.

Án þess að blanda mér inn í kjaraviðræður á hinum almenna vinnumarkaði þá vil ég deila með ykkur þeirri pólitísku sýn minni að hækka þurfi sérstaklega laun þeirra launalægstu og leiðrétta laun kvennastétta. Nokkur árangur hefur náðst í báðum þessum málum á undanförnum árum, og alveg ljóst að verkalýðshreyfingin náði umtalsverðum árangri í að hækka laun þeirra lægst launuðu í síðustu kjarasamningum. Á sama hátt hefur bilið milli karla og kvenna minnkað, en betur má ef duga skal. Forsætisráðherra hefur kallað eftir tillögum að aðgerðum frá starfshópi sínum um endurmat á virði kvennastarfa og bind ég vonir við að með þeim getum við stigið stærri skref á næstu árum.

Í umræðunni síðustu vikur hefur verið klifað á því að ríkisstjórnin hafi ekki gert neitt til að mæta verðbólgunni. Ég vil því nota tækifærið og minna á ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í sumar sem réðst þá strax í mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Hér var um að ræða aðgerðir sem tóku gildi 1. júní síðastliðinn,  3% hækkun almannatrygginga, 10% hækkun húsnæðisbóta og sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 20 þúsund krónur með hverju barni í tekjutengdar barnabætur. Um er að ræða um 6,5 milljarða varanlegar hækkanir.

Þá minni ég líka á þær aðgerðir sem eru í gangi varðandi húsnæðismál sem ég fór í hér að framan.

Velferð og virkni á vinnumarkaði

Ágætu þinggestir. Í sumar skipaði ég samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði. Leiðarljós nefndarinnar er að blása til sóknar á íslenskum vinnumarkaði með áherslu á réttlát umskipti, áherslu á jöfn tækifæri til vinnu og áherslu á velferð fólks á vinnumarkaði.

Nefndin fjallar meðal annars um mögulegar leiðir til að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum, til að mynda með samkomulagi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.

Markmið vinnunnar er að boða ákveðna byltingu á vinnumarkaði með fjölgun hlutastarfa og sveigjanlegra starfa og með því að tryggja hér sveigjanlegri, heilbrigðari og traustari vinnumarkað fyrir öll sem hér búa, fyrir fatlað fólk, fyrir innflytjendur, fyrir fólk sem hefur veikst eða ekki náð að fóta sig í lífinu. Skipun nefndarinnar er hluti af aðgerðum er snúa að því að bæta afkomu og möguleika fólks með mismikla starfsgetu til aukinnar virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á forsendum hvers og eins með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks.

Nefndin á líka að móta heildstæða stefnu um málefni ungs fólks á vinumarkaði, þar sem áhersla verði á að lækka hlutfall ungmenna og ungs fólks sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (hinn svokallaði NEET hópur).

Boðað verður til Vinnumarkaðsþings í upphafi næsta árs þar sem afrakstur vinnunnar verður kynnt. Í nefndinni eiga fulltrúar samtaka launafólks að sjálfsögðu sæti ásamt fjölda annarra aðila.

Ég hef miklar væntingar til þess að hér verði stigin mikilvæg skref í átt að opnari vinnumarkaði sem rúmar fleiri en nú er.

Framhaldsfræðslan

Einn mikilvægur angi af vinnumarkaðinum er framhaldsfræðslan sem nú er á ábyrgð ráðuneytis míns.

Ef við lítum nokkra áratugi aftur í tímann þá sjáum við að margt hefur breyst. Það er ekki svo langt síðan að reglan var sú að fólk menntaði sig eða þjálfaðist á einu sviði og svo vann það bara á því sviði allan sinn starfsaldur - ef þú varðst kennari þá varstu bara kennari allan starfsferilinn, o.s.frv. Og ef fólk varð fyrir slysi, veiktist eða missti vinnuna vegna óviðráðanlegra orsaka þá var ekkert sem greip það formlega og aðstoðaði það við að komast aftur til vinnu.

Í dag er mun algengara að fólk skipti örar um starf og á jafnvel góð starfsár á nokkrum sviðum. Þar fyrir utan þá hefur starfsumhverfið tekið ótrúlega miklum breytingum – ekki síst tæknilega. Og sem betur fer þá eigum við líka – í dag – ýmis úrræði sem ætlað er að styðja fólk til að vera í virkni, í námi og á vinnumarkaði, og aðstoða fólk aftur út á vinnumarkað.

Menntun og aðgangur að menntun er eitt öflugasta tækið til jöfnuðar og fátt mikilvægara en standa vörð um það verkfæri.

Ríkisstjórnin hefur sett sí- og endurmenntunarkerfið á oddinn og vill skapa íslensku menntakerfi svigrúm til þess að mæta samfélagsþróun bæði vegna loftslagsbreytinga og tæknivæðingar á vinnumarkaði. Það gerir hún meðal annars með aðgerðaáætlun um fjórðu iðnbyltinguna.  Ég hef á stefnuskrá minni að endurskoða framhaldsfræðsluna til að tryggja betur jöfn tækifæri fólks sem nýtir sér hana til menntunar og starfsþróunar. Þar vil ég ekki síst að framhaldsfræðslan nái betur til fólks, fleiri nýti sér hana og hún nái til fleiri hópa, eins og fatlaðs fólks og innflytjenda. 

Málefni innflytjenda og fólks af erlendum uppruna

Verkalýðshreyfingin hefur alla tíð látið sig málefni innflytjenda miklu varða, en málefni innflytjenda hafa orðið sífellt stærri málaflokkur á undanförnum árum. Mikilvægt er að þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022-2025 var samþykkt á þingi í júní síðastliðnum.

Framkvæmd áætlunarinnar er mikilvæg til að tryggja aðlögun og inngildingu innflytjenda að íslensku samfélagi. Meðal annars er lögð áhersla menntun og vinnumarkað, þ.m.t. að leita lausna á mati á þekkingu þeirra sem hingað flytja svo að samfélagið fari ekki á mis við þann þekkingarauð sem innflytjendur hafa fram að færa. Á sama tíma þarf öfluga íslenskukennslu fyrir fullorðna til að styrkja virka þátttöku fólks í samfélaginu.

Þá er að finna í áætluninni aðgerðir sem hafa það að markmiði að jafna tækifæri á vinnumarkaði, fræða fólk um réttindi sín og skyldur og að draga úr atvinnuleysi á meðal innflytjenda. Þar er og verður stórt verkefni að tryggja að innflytjendur fái greidd sömu laun og njóti sömu kjara og önnur fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Mikilvægt er fyrir þennan hóp að vita hvert hægt sé að leita verði fólk fórnarlömb brotastarfsemi á vinnumarkaði, svo sem launaþjófnaðar. Verkalýðshreyfingin er og verður mikilvægur samstarfsaðili, ég fullyrði sá mikilvægasti, í því verkefni.

Núna í október mun síðan hefjast vinna við heildarstefnumótun í málefnum innflytjenda sem miði að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til inngildingar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði, en slík stefna hefur ekki verið til á Íslandi.

Starfskjarafrumvarpið

Ég nefndi launaþjófnað hér að ofan, en í þingskjali ykkar um kjaramál og vinnumarkað segir: „Tryggja þarf öflugt eftirlit á vinnumarkaði til að sporna við brotum á lögum og kjarasamningum og misbeitingu launafólks. Launaþjónaður sæti refsingum.“

Ég tel heilshugar undir mikilvægi þess að tryggja þurfi öflugt eftirlit á vinnumarkaði. Það er mikilvægt að fundin verði lausn í lagaumhverfinu á þessum málum og óska ég eftir samstarfi við ykkur sem og aðra aðila á vinnumarkaði í því tilliti.

Kæru þingfulltrúar

Síðast en ekki síst vil ég þakka fyrir gott samstarf og samráð við ASÍ og þakka fyrir ykkar framlag og áhrif á þá fjölmörgu málaflokka sem heyra undir ráðuneyti mitt. Sterk verkalýðshreyfing styður við aukna velferð og velsæld í samfélaginu. 

Ég veit að sú forysta sem hér verður kjörin á þinginu mun vinna að því að styrkja velferðarríkið Ísland, en við eigum Verkalýðshreyfingunni margt að þakka sem við teljum sjálfsögð réttindi í dag. Þau voru það ekki alltaf. Gangi ykkur allt að sólu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum