Hoppa yfir valmynd
13. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga 2022

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Fjármögnun þjónustu við fatlað fólk í nútíð og framtíð er eitt meginviðfangsefni fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga að þessu sinni og ég fagna því. Gríðarlega mikill fjárhagslegur halli er á þjónustu við málaflokkinn hjá sveitarfélögum eins og niðurstöður úttekta hafa sýnt. Það er alvarleg staða sem við þurfum að takast á við í sameiningu, ríki og sveitarfélög.

Í sameiningu leitum við því nú skýringa og við leitum lausna. Starfshópur sem ég skipaði í upphafi sumars á jafnframt að skila tillögum að kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga á grundvelli kortlagningar og rýni sem hópnum er jafnframt falið að vinna. Ég hef því óskað eftir því að fyrstu tillögur hópsins liggi fyrir í desember næstkomandi.

Að lokum minni ég á að við ætlum okkur stóra hluti á næstu árum. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um lögfestingu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og því er vinna við gerð framkvæmdaáætlunar, eða landsáætlunar, á grundvelli samningsins að hefjast í þessum mánuði.

Við eigum enn þá talsvert langt í land með að jafna tækifæri fatlaðs fólks á við ófatlað fólk. Tækifæri til mennta eru færri. Möguleikar á vinnumarkaði eru minni. En á sama tíma er framlag fatlaðs fólks til samfélagsins meira en við gerum okkur oft grein fyrir. Meiri fjölbreytileika fylgir opnara, manneskjulegra og betra samfélag.

Vanmetum ekki kraftinn í fötluðu fólki og framlagi þess og hjálpumst að við það á næstu árum að tryggja full mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi. Oft finnst okkur landsmönnum gaman þegar við erum best í heimi. Okkur væri svo sannarlega mikill sómi að því að verða best í heimi í málefnum fatlaðs fólks.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum