Hoppa yfir valmynd
07. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnunarávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra á vinnustofu um framhaldsfræðslu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

Ágætu fundargestir og þátttakendur á þessari vinnustofu um þróun framhaldsfræðslunnar.

Mikið er gaman að sjá ykkur svona mörg hér í morgunsárið. Það virðist vera metþátttaka hér í dag sem sýnir okkur, svart á hvítu, hvað málefnið er brýnt og hvað það skiptir okkur öll miklu máli.

Við sem erum hér mætt erum nokkurs konar þverskurður af öllum þeim sem koma að framhaldsfræðslu í einni eða annarri mynd. Við höfum hér fulltrúa frá stjórnvöldum, stofnunum, fræðsluaðilum, kennurum, stéttarfélögum og atvinnurekendum – og við höfum hér fjölda nemenda, sem er mikilvægt í svona hugmyndavinnu, eins og við erum að fara í á eftir.

Við ykkur, kæru nemendur, vil ég segja að ykkar sjónarmið og skoðanir um hvernig þið viljið sjá framhaldsfræðsluna þróast skiptir okkur mjög miklu máli og er mjög dýrmæt, þar sem kerfið á að vera fyrir ykkur og sérsniðið að ykkar þörfum, þannig að þið getið blómstað og nýtt hæfileika ykkar. Og í dag ætlum við ekki síst að hlusta á það sem þið hafið fram að færa.

Framhaldsfræðslan snýst um að gefa fólki tækin og tólin til að lifa og starfa í lýðræðissamfélagi sem er á fleygiferð inn í framtíðina. Við höfum öll heyrt um tækniþróunina, gervigreindina sem æðir áfram, loftslagsvána sem vekur ugg og við sjáum allar þessar breytingar eiga sér stað – núna – fyrir framan nefið á okkur. Við vitum ekkert alveg, fyrir fullt og fast, hvernig framtíðin muni líta út eða hvaða störf munu breytast og þá hvernig.

En við vitum fyrir víst að allar þessar breytingar munu eiga sér stað og okkar fyrsta svar við þeim er menntun og enn meiri menntun. Og menntun þar sem enginn er undanskilinn.

Og við erum ekki að tala hér bara um meira nám eða fleiri námskeið, heldur líka fjölbreyttara nám og sveigjanlegra nám. Nám fyrir allt það nýjasta í atvinnulífinu og nám án aðgreiningar sem hentar allskonar fólki sem sinnir allskonar verkefnum á ólíkum tímabilum ævi sinnar.

Og þá erum við komin að skilgreiningu eða afmörkun á framhaldsfræðslunni, en eins og þið sáuð í fundarboðinu þá þarf enga fyrirfram þekkingu til að taka þátt í þessari vinnustofu. Það er þó gott að vita að framhaldsfræðslan er eitt sérstakt mengi inni í afar stóru mengi sí- og endurmenntunar – segja má fimmta stoð menntakerfisins á eftir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Í raun er framhaldsfræðslan nýtt tækifæri til náms og starfa fyrir þau sem ekki luku námi í framhaldsskóla á sínum tíma, en við vitum að brotthvarf úr framhaldsskólum hefur til langs tíma verið of hátt á Íslandi – þó svo að það hafi farið minnkandi síðasta áratug. Og með framhaldsfræðslunni eru stjórnvöld að styðja við þau sem hættu á sínum tíma í skóla og um leið að auðvelda þeim að mennta sig síðar meir á ævinni.

En til að fyrirbyggja allan misskilning þá vil ég taka fram að það að hætta í skóla þarf alls ekkert að vera slæmt – en vegna hraðans í dag, tæknibreytinganna, nýsköpunarkröfunnar – þá þurfum við að tryggja að allir þjóðfélagshópar geti aflað sér nýrrar þekkingar og færni til að takast á við flóknari verkefni í flóknara og hraðara samfélagi. Og þá þekkingu og færni þarf að læra og endurlæra. Og því miður þá sýna allar rannsóknir okkur það að fólk með stutta skólagöngu tekur minnst allra hópa þátt í símenntun – og því þurfum við að breyta. Við viljum einmitt að þessi hópur taki fullan þátt í allskonar námi, þ.m.t. framhaldsfræðslu, starfstengdum námskeiðum og leggi þannig góðan grunn að spennandi framtíðarverkefnum. Jafnframt er mikilvægt að framhaldfræðslunni verði áfram gerð góð skil, ekki aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land.

Framhaldsfræðslan getur byggt upp þennan grunn með námi, náms- og starfsráðgjöf og mati á raunfærni þannig að fólk geti haldið áfram í námi eða fengið alls konar störf og skapað þannig verðmæti fyrir sig og samfélagið. En til að svo verði þurfum við að taka aðeins til í kerfinu og gera því kleift að ná til fleiri með hagnýtu og eftirsóknarverðum tilboðum sem nýtast fólki áfram og geta mætt öllum þeim nýjungunum sem við vitum að eru framundan.

Við þurfum því að vera hugmyndarík og djörf og ræða hvernig framhaldsfræðslan nær best til fólks og fyrirtækja og hvernig hún tekur þátt í að auka velferð og lífsgæði og skapa verðmæti fyrir einstaklinga og samfélag. Framhaldsfræðslan þarf að grípa fólk sem ekki hefur lokið námi, eða sem af einhverjum ástæðum hefur skerta möguleika til náms- eða atvinnuþátttöku. Framhaldsfræðslan þarf líka að fá skýra stöðu meðal annarra sí- og endurmenntunarkosta, sem sérstök stuðningsaðgerð stjórnvalda til að bjóða þessum hópum upp á annað tækifæri til náms. Og talandi um skýrleika þá þurfum við að skýra betur hver þessi markhópur er eiginlega og hvar endimörk þjónustunnar eru. Eða jafnvel hvaða nýja þjónustu þarf að þróa.

Í lögunum um framhaldsfræðslu frá 2010 er staða innflytjenda og fatlaðs fólks t.d. ekki nægilega skýr og gott væri að fá umræðu á borðum hvernig við getum unnið með það.

Við þurfum líka að skoða kostnaðarhliðina og fjármögnunina til að tryggja það að framhaldsfræðslan sé vel nýtt af þeim sem helst þurfa á að halda, hún sé aðgengileg án mikils tilkostnaðar, geti mætt áhuga einstaklinga, áskorunum atvinnulífs og eigi svör við áskorunum fjórðu iðnbyltingarinnar og loftslagsbreytinga.

Ágætu áheyrendur!

Það að málaflokkur framhaldsfræðslunnar sé kominn í félags- og vinnumarkaðsráðuneytið gefur kærkomið tækifæri til að samþætta framhaldsfræðsluna enn betur við þau velferðar- og atvinnumál sem eru á forræði ráðuneytisins.

Ég bind miklar vonir við afrakstur dagsins en efnistökin byggja á umræðum hagsmunaaðila, frá því í sumar, sem voru okkur í ráðuneytinu til aðstoðar til að undirbúa þennan stóra fund. Þemun sem rædd verða í hópavinnunni byggja á því samstarfi. Starfshópur um heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins, sem verið er að skipa í, mun vinna með hugmyndir og niðurstöður dagsins og birta Grænbók um helstu álitamál framhaldsfræðslunnar, Hvítbók um stefnu til framtíðar og ráðuneytið vinna nýtt frumvarp til laga um framhaldsfræðslu á grunni þessarar vinnu, vonandi á næsta haustþingi.

En það eru líka fleiri verkefni í ráðuneytinu sem tengjast framhaldsfræðslunni með beinum hætti s.s.

  • Starfshópur um aukin námstækifæri fyrir fatlað fólk
  • Starfshópur um velferð og virkni
  • Starfshópur um stefnu í málefnum innflytjenda.

Verkefnin varða öll umbætur á þessum kerfum. Verkefnunum mætum við með opnum hug og með það að leiðarljósi að bæta þjónustu og leggja grunn að því að á Íslandi bjóðist öllum tækifæri til náms og stuðnings. Það leggur grunn að enn betra og réttlátara samfélagi.

Við lifum á róstursömum tímum. Ég er nýkominn af fundi með félags- og vinnumarkaðsráðherrum í Evrópu þar sem umræðuefnið var hvernig við getum staðið betur að aðlögun úkraínsks flóttafólks, og nýkominn af fundi norrænna ráðherra sem fara með innflytjendamál. Eitt af því sem þar kom mjög skýrt fram var mikilvægi þess að meta menntun og starfsreynslu þeirra sem leita skjóls undan neyð heima fyrir og að fólk læri tungumál móttökulandsins. Það skiptir miklu máli fyrir inngildingu í samfélagið.

Það er því afar mikilvægt að fólk fái tækifæri til hvoru tveggja hérlendis. Hér bíður okkar mikilvægt verk – það er ekki í lagi að við bjóðum háskólamenntuðu fólki frá öðrum löndum upp á það að nám þeirra sé ekki metið að verðleikum og að viðkomandi fái ekki vinnu sem samræmist menntun og starfsreynslu þeirra. Með áframhaldandi hætti verður aðgreining á vinnumarkaði eftir þjóðerni viðvarandi regla en ekki undantekning. Gegn því þarf að sporna.

Ég nefni háskólastigið hér því þar eru snertifletir við framhaldsfræðslu t.d. hvað varðar mat á raunfærni og menntun og við þurfum að teikna framgangsleiðir nemenda í framhaldsfræðslu enn betur upp, svo þau sjái fyrir sér mögulegar leiðir og beinar brautir en ekki blindgötur.

Ágætu fundargestir, ég óska ykkur góðs gengis í dag og hlakka til að sjá hugmyndir ykkar og umbótatillögur þannig að við getum byggt áfram upp öflugt og skýrt framhaldsfræðslukerfi sem rúmar okkur öll - skapar tækifæri og eykur jöfnuð.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum