Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. maí 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vornámskeið Greiningastöðvar ríkisins

Ágætu þátttakendur.

Með sama hætti og haustin eru uppskerutími bænda og búaliðs má með nokkrum rétti segja að vorin séu uppskerutími stjórnmálamanna. Við frestun á störfum Alþingis gefst tækifæri til að staldra við og horfa um öxl. Frestunin skapar hlé frá átökum og skoðanaskiptum um markmið og leiðir í þjóðfélagsumbótum. Þá skapast oft andrými til að vega og meta árangur og leggja drög að nýjum viðfangsefnum. Sömuleiðis og það er ef til mest um vert, tími til að hitta fólkið í landinu, hlusta á það og skiptast á skoðunum. Ég tók því með þökkum að mæta á þetta vornámskeið og deila með ykkur því sem gerst hefur í málefnum fatlaðra. Samtímis viðra hugmyndir um það sem við erum að fjalla um í félagsmálaráðuneytinu og horfa til framtíðar í þessum mikilvæga og jafnframt viðkvæma málaflokki sem málefni fatlaðra er. Málaflokki sem hefur mikil áhrif á líf og starf þeirra fjölskyldna sem hann snertir.

Við uppgjör vetrarins kemur í ljós að allnokkuð hefur gerst í málefnum fatlaðra. Við settum punktinn aftan við ár fatlaðra með myndarlegri lokaráðstefnu sem haldinn var í mars 2004 og var sótt af um 500 manns. Á alþjóðadegi fatlaðra 3. desember síðastliðinn fékk Vinnu- og hæfingarstöð fatlaðra á Suðurlandi afhent glæsilegt viðbótarhúsnæði á Selfossi. Það hefur skapað ný og fjölbreyttari tækifæri í atvinnumálum fatlaða til að auka færni sína og hæfni til virkrar þátttöku í samfélaginu. Í Þorlákshöfn var tekinn í notkun þjónustukjarni fyrir fatlaða. Með opnun hans var tekið enn eitt framfaraskrefið í þjónustu Svæðisskrifstofu í málefnum fatlaðra á Suðurlandi með það að markmiði að hún geti verið sveigjanlegri og mætt persónulegum þörfum hvers og eins. Tvö vefsetur tóku til starfa. Annað er vefsetur Samtakanna um vinnu og verkþjálfun en tilgangur þess er að gera aðgengilegar upplýsingar um vinnustaði og verkþjálfun fyrir fatlaða og einnig að kynna fjölbreytilega framleiðslu vinnustaðanna.

Hitt er vefsetur í fötlunarfræðum. Málefni fatlaðra er víðfeðmur málaflokkur sem snertir alla þætti mannlegs lífs. Það er því mjög mikilvægt að tengja saman eins marga þræði og hægt er. Þetta er verið að gera með vefsetrinu í fötlunarfræðum. Hér á landi hefur ekki fyrr verið á einum stað gerð tilraun til að hafa aðgengilegar upplýsingar fyrir alla sem tengjast málaflokknum, fatlaða sjálfa, starfsmenn og stjórnendur, fræðafólk og nemendur sem stunda nám sem tengist málefninu. Vefsetrið getur orðið mikilvæg upplýsingaveita í málefnum fatlaðra og miðstöð upplýsinga og fróðleiks; þekkingarbrunnur sem fólk á að geta leitað í.

Í september 2003 skipaði ég starfshóp til að semja framkvæmdaáætlun um aðgengi fyrir alla. Starfshópurinn skipulagði verkefnið þannig að því var skipt upp í sex verkáfanga. Ekki er tími til að fara yfir alla verkáfangana en ég vil nefna að í fyrsta verkáfanganum er gerð nákvæm úttekt á aðgengi fatlaðra með hliðsjón af 22 grunnreglum Sameinuðu þjóðanna um jafna þátttöku fatlaðra. Einnig verður verkefnum forgangsraðað með tilliti til mikilvægis. Enn fremur verður sett fram ítarleg áætlun um hugsanlega framkvæmd og útfærslu.

Töluverð vinna hefur farið í það að skoða hverja og eina reglu og brjóta einstök atriði hennar til mergjar. Það hefur verið gert með aðstoð ýmissa sérfræðinga sem best þekkja til á hverju sviði. Ætla má að hátt í 200 manns hafi komið að þessu verkefni. Ég á von á að fyrsta áfanga þessa verkefnis ljúki nú í sumar.

Af viðburðum vetrarins vil ég nefna myndarlega norræna ráðstefnu sem haldin var á Hótel Loftleiðum í síðastliðnum mánuði um starfsendurhæfingu. Þar gafst tækifæri til að skiptast á skoðunum við fulltrúa grannþjóðanna um þróunina að því er varðar starfs- og endurþjálfun. Mér er efst í huga ræða finnsks fulltrúa sem sagði frá merkilegu tilraunaverkefni sem miðar að því að auðvelda örorkubótaþegum að snúa aftur á almennan vinnumarkað. Árangurinn af þessu tilraunverkefni var að mínum dómi það góður að ég tel að þetta sé eitthvað sem við Íslendingar ættum að kanna nánar.

Það liggur fyrir að við verðum að finna leiðir til að hvetja alla til þátttöku á vinnumarkaði enda er mannauðurinn það dýrmætasta sem við eigum. Með því að virkja einstaklingana erum við ekki einungis að draga úr kostnaði fyrir samfélagið til lengri tíma litið heldur fyrst og fremst að bæta lífsgæði einstaklinganna sjálfra sem hlýtur að skipta mestu máli þegar allt kemur til alls.

Í því efni gegnir starfsendurhæfing einu af lykilhlutverkunum til að hvetja fólk til virkrar þátttöku innan samfélagsins. Á sama tíma er hún jafnframt til þess fallin að koma í veg fyrir fátækt og félagslega einangrun.

Starfsendurhæfing er síður en svo nýtt fyrirbrigði á Íslandi. Gallinn hefur fyrst og fremst verið sá að margir aðilar hafa haft á hendi þessa starfsemi, kraftarnir dreifðir og verulega hefur skort á heildaryfirsýn og samhæfingu. Þannig fara í dag þrjú ráðuneyti með starfsendurhæfingu. Á síðustu árum hafa þessi mál orðið meira aðkallandi og sífellt brýnna að leita nýrra leiða til að gera kerfið skilvirkara og nýta betur þá fjármuni sem varið er til þessarar starfsemi.

Að mínu mati er heildarsýnin lykilorðið. Um þessar mundir eru 35 ár síðan fyrstu hugmyndirnar um heildarskipulag málefna fatlaðra sáu dagsins ljós. Úr þeim var unnið og valin ákveðin leið sem fest var í sessi með lögum um málefni fatlaðra árið 1979 eða fyrir rúmlega 25 árum. Frá þeim tíma hefur mikið vatn runnið til sjávar og ég er ekki frá því að heildarsýnin hafi að einhverju leyti glatast. Ég tel að nú sé lag að meta stöðuna og fyllilega tímabært að setja nýjan kúrs. Sú vinna er hafin í félagsmálaráðuneytinu og ég á von á fyrstu tillögum á næstu vikum.

Að þessu máli er unnið á tveimur vígstöðvum. Annars vegar er að störfum fjöldi vinnuhópa sem eru að fjalla um og brjóta til mergjar stöðuna á hinum ýmsu sviðum sem telja má að séu hagsmunamál fatlaðra. Ég er ekki búinn að sjá tillögur vinnuhópanna en það sem er verið að ræða um er að sameina starfsemi, einfalda stjórnsýsluna og um leið auðvelda fötluðum og aðstandendum þeirra að fá þjónustu við hæfi.

Í sömu átt stefnir nefnd sem ég skipaði í ágúst í fyrra sem fékk það verkefni að endurskoða lög um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Það nefndarstarf snýst einnig um samræmingu bótakerfa, samhæfingu félagslegs stoðkerfis og markmiðið er bætt þjónusta sem taki mið af þörfum hvers og eins. Í raun snýst þetta nefndarstarf að hluta til um það hvernig megi liðsinna þeim sem hafa horfið af vinnumarkaði vegna örorku til að verða aftur virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Það gefur auga leið að þegar fjöldi þeirra sem lifa af örorkubótum er kominn fast að 13 þúsundum er verið að ræða um fjármuni sem skipta verulegu máli fyrir rekstur þjóðarbúsins svo að ekki sé talað um lífsgæði þessara sömu einstaklinga.

Starfsemi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins hefur einnig verið mér ofarlega í huga. Tilvísunum til stofnunarinnar hefur fjölgað verulega síðastliðin fimm ár. Árið 1995 var 99 börnum vísað til greiningar, 205 börnum árið 2000 og 302 börnum á síðasta ári. Þar af var 258 börnum vísað til greiningar í fyrsta sinn. Það er ljóst að biðtími eftir þjónustu stofnunarinnar hefur lengst. Þess vegna var gerð á vegum ráðuneytisins ítarleg úttekt árin 2002 til 2003 á stöðu hennar og þörfum fyrir þjónustu. Úttektin leiddi í ljós að nauðsynlegt væri að fjölga starfsmönnum sem nemur átta stöðugildum á fjögurra ára tímabili. Með þeim hætti ætti stofnunin að ráða við verkefni sín. Í samræmi við þessa niðurstöðu fjölgaði starfsmönnum á síðasta ári sem nemur 1½ stöðu. Þar til viðbótar fékk stofnunin rýmra húsnæði á síðasta ári.

Fjölgun tilvísana á síðasta ári kallar á endurskoðun á þörf stofnunarinnar fyrir starfsfólk. Fyrsta mat á breyttum aðstæðum bendir til að þörf sé fyrir fjóra til fimm starfsmenn í fullu starfi umfram þá átta sem áður var gert ráð fyrir. Um þessar mundir stendur glíman um skiptingu fjármuna í fjárlagafrumvarpinu sem hæst. Niðurstaðan ræðst ekki fyrr en við afgreiðslu frumvarpsins í desember næstkomandi en ég legg þunga áherslu á þetta mál í mínum ranni.

Ég vil ljúka þessum orðum mínum með því að þakka starfsmönnum Greiningarstöðvarinnar fyrir gott samstarf á liðnum árum. Það er ástæða til að geta þess að Stefán Hreiðarsson kynnti starfsemi Greiningarstöðvarinnar á fræðslufundi fyrir starfsmenn félagsmálaráðuneytisins þann 10. mars síðastliðinn. Þetta erindi vakti athygli starfsmannanna sem lýstu einum rómi yfir ánægju sinni með gott yfirlit sem Stefán gaf yfir starfsemi stofnunarinnar og þau viðfangsefni sem hún er að fást við. Fræðslufundir af þessu tagi eru liður í viðleitni að auka þekkingu starfsmanna á stofnunum ráðuneytisins og gera góð samskipti enn betri.

Ég þakka fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum