Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

50 ára afmæli íbúðalána á Íslandi. Ávarp Árna Magnússonar, félagsmálaráðherra

AM hjá ILS v/50 ara afm
Opinber húsnæðislán í 50 ár

Góðir gestir,

 

Að hafa húsaskjól er ekki einungis  frumþörf hvers manns heldur  er öryggi í húsnæðismálum einn stærsti velferðarþáttur hvers þjóðfélags.  Það er meginskýringin á því að í flestum samfélögum samtímans hefur hið opinbera með einum eða öðrum hætti afskipti af skipan húsnæðismála með það að leiðarljósi að tryggja öryggi og jafnrétti þegnanna í húsnæðismálum. 

Ég setti mér það markmið þegar ég tók við embætti félagsmálaráðherra að móta heildstæða húsnæðisstefnu. Annars vegar hef ég lagt áherslu á að auka möguleika fólks til  að eignast eigið húsnæði með því að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs í 90% af íbúðarverði og endurskipuleggja verðbréfaútgáfu sjóðsins með það fyrir augum að skapa forsendur fyrir vaxtalækkun.  

Aðgerðirnar hafa borið góðan ávöxt, útlán Íbúðalánasjóðs hafa aldrei verið hærri og vextir aldrei verið lægri á almennum íbúðalánum eftir að horfið var frá almennum niðurgreiðslum á lánum með upptöku húsbréfakerfisins á sínum tíma. Kaup á íbúðarhúsnæði eru stærsta fjárfesting og hæsti útgjaldaliður hverrar fjölskyldu.  Lækkun vaxta af íbúðarhúsnæði hefur því reynst mikil kjarabót fyrir fjölskyldurnar í landinu.

 Hins vegar hef ég lagt mikla áherslu á að efla og renna styrkari stoðum undir almennan leigumarkað. Leigumarkaður er mikilvæg forsenda fyrir öflugu húsnæðiskerfi. Árið 2001 var stofnað til átaks í byggingu leiguíbúða í samvinnu við sveitarfélög, Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði. Samkvæmt niðurstöðum nefndar sem gerði úttekt á leigumarkaðnum og skilaði skýrslu árið 2004 þá er staðan á leigumarkaðnum góð, hefur raunar aldrei verið betri að því að best verður séð. 

Sérstaka átakið hefur skilað góðum árangri, framboð hefur aukist verulega og nýir aðilar, bæði félög og fyrirtæki, hafa komið inn á markaðinn.  Aukið framboð húsnæðis hefur haldið leiguverði niðri. 

 Ég hef gert samkomulag við fjármálaráðherra um að framhald verði á þessu átaki þannig að Íbúðalánasjóður  hefur heimild til að veita lán til allt að 400 íbúða á ári næstu fjögur árin frá 1. janúar 2006 að telja.  Lánin verða með 3,5% vöxtum og er gert ráð fyrir að sveitarfélög, félög námsmanna, fatlaðra, öryrkja og aldraðra njóti forgangs til lántöku, líkt og verið hefur.

Á undanförnum 50 árum hefur margt breyst og stórstígar framfarir orðið í húsnæðismálum. 

Tvær af hverjum þremur íbúðum landsmanna hafa verið byggðar á þessu tímaskeiði og hefur meginhluti þeirra verið fjármagnaður á grundvelli lánveitinga frá Húsnæðisstofnun eða Íbúðalánasjóði.  Húsakostur Íslendinga er nú með því besta sem þekkist á Vesturlöndum bæði hvað varðar gæði og stærð.  En það er ekki svo ýkja langt síðan að hér var húsnæðisekla og fólk bjó í heilsuspillandi húsnæði. 

Alla síðustu öld var verkalýðshreyfing öflugur gerandi í húsnæðismálum.  Félagslegar íbúðabyggingar má rekja allt til ársins 1919, þegar fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík beitti sér fyrir stofnun samvinnufélags um byggingu leiguíbúða, er hlaut nafnið Byggingarfélag Reykjavíkur hf. 

Lögin um Byggingarsjóð verkamanna tóku gildi árið 1929 og fyrstu verkamannabústaðirnir við Hringbraut eru enn í dag glæsilegur vitnisburður um aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðismálum.  Húsnæðismálin voru oft í forgrunni verkalýðsbaráttunnar og hluti af kjarasamningum.  Uppbygging Breiðholtshverfisins, sem var eitt stærsta byggingarátak í sögu landsins, kom í kjölfar ”júlíyfirlýsingar” ríkisstjórnarinnar og samninga milli aðila vinnumarkaðarins árið 1965.

Þróunin í húsnæðismálum hefur verið hröð undanfarin ár. Stofnun Íbúðalánasjóðs árið 1999 var mikið framfaraspor.  Með stofnun sjóðsins var mörkuð ný sýn í húsnæðismálum.  Horfið var frá lokuðu og flóknu félagslegu íbúðakerfi sem takmarkaði valfrelsi og frumkvæði fólks til að koma sér þaki yfir höfuðið. 

Viðbótarlánin, sem leystu gamla félagslega eignaríbúðakerfið af hólmi, gerðu fólki kleift að velja sjálft hvar og hvernig það vildi búa.  Þau voru þannig mjög mikilvægt skref í átt til aukins jafnræðis í þjóðfélagi okkar. Viðbótarlánin þjónuðu fjölskyldum landsins vel en þegar lánshlutfallið var hækkað í 90% á sl. ári voru þau eðli málsins samkvæmt lögð af. 

Mikil samstaða hefur lengst af ríkt í þjóðfélaginu um meginstefnuna í húsnæðismálum.  Tveir þættir hafa verið í forgrunni, annars vegar sjálfseignarstefnan og hins vegar jafnrétti í húsnæðismálum með tilliti til búsetu og efnahags.  Við höfum sérstöðu á Vesturlöndum varðandi séreign, um 80% fjölskyldna býr í eigin húsnæði. Félagslegi þátturinn í húsnæðisstefnunni hefur að mestu leyti byggst á eignaríbúðum ólíkt því sem var hjá frændum okkar á Norðurlöndunum.  Sumir segja að í genum okkar Íslendinga leynist einhver sérstök “eignargleði” og að  Bjartur í Sumarhúsum blundi í okkur flestum.

Ríkisvaldið hefur verið sterkur bakhjarl þeirrar velmegunarbyltingar sem hófst um og eftir stríðslokin.  En það má ekki gleyma dugnaði og elju fólks við koma sér upp þaki yfir höfuð.  Að byggja eigið húsnæði var þjóðaríþrótt lengst af. Lánadeild smáíbúða, sem var forveri húsnæðismálastjórnar og smáíbúðahverfið svokallað er til vitnis um, var lánveiting sem ætluð var fólki sem vildi byggja eigið húsnæði.  Í árdaga voru lánamöguleikar afar takmarkaðir en ríkisvaldið hefur leitt þróun lánamöguleika allt þar til fyrir rúmu ári síðan að lánastofnanir komu af krafti inn á lánamarkaðinn.  Það ber að fagna þátttöku lánastofnana en lengst af hefur fjármögnun húsnæðismála hvílt á ríkisvaldinu  og í raun í miklu meira mæli hér á landi en hjá frændum okkar á Norðurlöndum svo dæmi sé tekið. 

Þróunin undanfarið hefur kallað á að þörfin fyrir aðkomu ríkisins á íbúðalánamarkaði verði endurmetin. Í mínum huga er meginhlutverk ríkisins að sjá til þess að markmið laga um húsnæðismál verði uppfyllt, og að öllum landsmönnum sé tryggður aðgangur að ódýru fjármagni til húsnæðisöflunar, óháð efnahag eða búsetu. Þær leiðir sem valdar eru til að uppfylla þessi markmið hljóta að taka mið af aðstæðum á hverjum tíma. Ég tel að Íbúðalánasjóður verði áfram starfandi á komandi árum, þótt hlutverk hans kunni hugsanlega að breytast. Að mínu mati er þó mikilvægast að ræða hugsanlegar breytingar án fordóma, og hafa eingöngu að leiðarljósi hagsmuni þeirra sem við öll störfum fyrir, sem eru íbúar þessa lands.

Að lokum vil ég þakka fyrir að fá að vera með ykkur öllum á þessum tímamótum og vonast til þess að eiga hér með ykkur ánægjulega stund.

 

 



AM hjá ILS v/50 ara afm
Opinber húsnæðislán í 50 ár
AM hjá ILS v/50 ara afm
Opinber húsnæðislán í 50 ár

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum