Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. desember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sextíu ára afmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga

Herra forseti, virðulega samkoma.

Ég vil byrja á að óska sveitarstjórnarmönnum til hamingju með 60 ára afmæli Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það voru framsýnir sveitarstjórnarmenn sem komu saman þann 11. júní 1945 til að stofnsetja Sambandið. Í upphafi voru aðeins fimmtíu og tvö af rúmlega 220 sveitarfélögum í landinu, aðilar að Sambandi íslenskra sveitarfélaga, en eins og við þekkjum öll hefur því vaxið fiskur um hrygg. Í dag eru öll sveitarfélög í landinu aðilar að Sambandinu og það er orðið lögformlegur samstarfsvettvangur þeirra.

Undanfarið hefur umræða um málefni sveitarfélaga verið áberandi, ekki síst í aðdraganda atkvæðagreiðslna um sameiningu og er það vel. Það er mjög mikilvægt að við höldum þeirri umræðu lifandi og ráðstefnan hér í dag er gott innlegg í hana. Ég hef ákveðið að leggja nú í fyrsta sinn fram skýrslu um málefni sveitarfélaga sem rædd verður á Alþingi þegar þing kemur saman að loknu jólahléi. Í þeirri skýrslu verður fyrst og fremst leitast við að varpa ljósi á sveitarfélögin og stöðu þeirra í stjórnskipan landsins, hlutverk þeirra og vægi í íslensku samfélagi. Ég vonast til þess að þær upplýsingar sem þar koma fram muni reynast góður grunnur að málefnalegri umræðu um málefni sveitarfélaga.

En um hvað á ég að tala við ykkur í dag? Ég stýri jú því ráðuneyti sem fer meðal annars með sveitarstjórnarmál. Hvert er hlutverk þess gagnvart Sambandi íslenskra sveitarfélaga? Hvert er hlutverk ráðuneytisins gagnvart sveitarfélögunum? Hvernig stuðlar ráðuneytið að því að sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga sé tryggður í raun? Hvert er hlutverk ráðuneytisins gagnvart einstökum íbúum þessa lands, hvort sem þeir búa á Seltjarnarnesi eða í Súðavík? Hvert hefur hlutverkið verið fram að þessu og hvert á það að vera í framtíðinni? Til hvers er þetta allt saman; ríki, þrískipt ríkisvald, stjórnarráð, ráðuneyti, sveitarfélög, sjálfsstjórnarréttur sveitarfélaga og sameiginleg samfélagsleg verkefni? Hvernig áhrif hafa þessir þættir á lýðræðið?

Er lýðræðið fjöregg í okkar samfélagi í dag eða fremur fagurt en innihaldslítið hugtak sem við grípum til á tyllidögum? Það er ekki einfalt að fjalla um lýðræðið. Nei, það er þvert á móti afar flókið og það er hægt að nálgast það frá ótal hliðum. Menn geta sennilega rammað flestar gerðir stjórnskipulags inn í lýðræðisrammann. Í ráðstjórnarríkjunum töldu menn sig búa við lýðræði, enda nálgaðist kosningaþátttaka almennings þar 100% og allir þeir sem mættu kjörstað kusu réttan flokk, þann eina sem var í boði. Í hugum flestra snýst þó lýðræði um réttindi fólks til að kjósa sér eða skipta um leiðtoga og aðra fulltrúa sem starfa á vettvangi samfélagsins og um frelsi til orða og athafna. Valkostir og frelsi eru þannig vissulega grundvöllur lýðræðisins.

Umræða um lýðræðislegan grundvöll sveitarfélaga er mjög mikilvæg og getur tekið á sig ýmsar myndir. Ég tók við því verkefni að stýra átaki um eflingu sveitarstjórnarstigsins og sameiningarkosningum sem sumir segja að hafi verið mjög góð æfing í lýðræði. Í því sambandi get ég tekið undir orð forseta Íslands, herra Ólafs Ragnars Grímssonar, hér í morgun, er hann sagði að sveitarfélögin hefðu reynst íslensku lýðræði þjálfunarstöð. Við þá æfingu sem við höfum nú gengið í gegnum hafa vissulega vaknað margar spurningar. Hvað er það sem raunverulega hefur áhrif, hverjir beita sér í lýðræðinu og hvernig? Hvar ætla menn að enda þegar þeir leggja upp í lýðræðislega umræðu, eða ætti ég að segja baráttu? Ég hef átt þess kost að fara víða um land til að ræða við íbúa og sveitarstjórnarmenn um málefni sveitarfélaga. Á þeim fundum kom fram að fólk hefur mismunandi sýn á lýðræðið. Sú sýn er afstæð og í mjög mörgum tilvikum nánast einstaklingsbundin og þá nátengd menningu á viðkomandi svæðum eins og forsetinn minntist á hér í ávarpi sínu í morgun. Sumir telja lýðræðinu best borgið í fámennum sveitarfélögum þar sem nálægðin er mikil en aðrir telja að áhrifin verði meiri í stærri samfélögum sem geti haft víðtækari áhrif á þróun mála.

Umræða um lýðræði hefur átt sér stað frá alda öðli. Gríski heimspekingurinn Aristóteles og félagar hans höfðu mótað sér skoðanir á lýðræði og stjórnsýslu borgríkja. Samkvæmt hugmyndum þess tíma átti borgríkið að vera sjálfbært, þannig að það gæti sinnt verkefnum sínum, en þó nógu lítið svo flestir þekktust og gætu hist til skrafs og ráðagerða. Með öðrum orðum voru þau tvö atriði sem mestu máli skiptu við stjórnsýslu þessara fornu borgríkja, nálægðin við borgarana og sjálfstæði þeirra til ákvarðanatöku í þeirra efnum.

Margt fleira áhugavert hefur verið skrifað þar sem velt er upp ýmsum hliðum lýðræðisins, svo sem hið áhrifamikla rit breska heimspekingsins John Locke „Ritgerð um ríkisvald“.

Við getum nálgast umræðu um lýðræði í sveitarfélögum í dag út frá grundvallarreglum sem eru nær okkur í tíma, það er sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga, samkvæmt 78. gr. stjórnarskrár íslenska lýðveldisins og nálægðarreglu Rómarsáttmálans.

Í nálægðarreglu Rómarsáttmálans felst sú hugsun að heppilegast sé að ákvarðanir séu teknar sem næst þeim er þær varða og þar sem þær komast með sem einföldustum og skilvirkustum hætti í framkvæmd. Nálægðarreglan felur í sér að komist er hjá óþarfa miðstýringu en hamlar því hins vegar ekki að ríkið getur sett miðlægar reglur á þeim sviðum og í þeim tilfellum sem slíkt er talið nauðsynlegt.

Megininntak sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga má lesa úr 78. gr. í mannréttindakafla stjórnarskrár okkar. Lýðræðislegur réttur íbúanna til að kjósa sjálfir fulltrúa til að fara með stjórn í málefnum sveitarfélagsins er grundvallarþáttur í sjálfsstjórn sveitarfélaganna.

Í ákvæðinu kemur skýrt fram sá vilji stjórnarskrárgjafans að sveitarfélög séu til á Íslandi, þau skuli hafa með höndum verkefni og raunverulegt svigrúm innan ramma laga til að taka ákvarðanir varðandi sín málefni og setja eigin fingraför á þau í samræmi við staðbundnar þarfir og aðstæður. Auk þess skulu sveitarfélög hafa forráð yfir eigin tekjustofnum.

Úr nálægðarreglunni og stjórnarskrá lýðveldisins má þannig lesa að sveitarfélög skuli hafa verkefni sem skipta íbúana máli. Ef helsta verkefni sveitarfélaganna er fjallskil, þá er líklega æskilegt að sveitarfélögin séu fámenn og taki fyrst og fremst mið af landfræðilegum aðstæðum til heiða. Líklega er það þó verkefni sem skiptir fæsta íbúa verulegu máli í dag.

Til þess að sveitarfélög geti sinnt verkefnum sem skipta flesta íbúa máli í dag, svo sem félagsþjónustu og fræðslu, og umhverfis- og skipulagsmálum, þá þurfa þau að hafa til þess nægilegt bolmagn. Vera sjálfbær eins og Aristóteles sagði. Við erum líklega vanari því að ræða um sjálfbærni í tengslum við umhverfismál, en ég tel að það sé að vissu leyti hægt að heimfæra þá hugmyndafræði yfir á sveitarfélögin.

Spurningin um sjálfbærni sveitarfélaga snýst þá um hversu marga íbúa og hve miklar tekjur sveitarfélaga þarf að hafa til að geta boðið upp á þá þjónustu og það umhverfi sem íbúar í nútímasamfélögum krefjast og raunverulega valkosti til að velja um í kosningum og milli sveitarfélaga.

Að vissu leyti er hugtakið sjálfbærni líkt hinu efnislega hugtaki burðargetu. Burðargeta skips segir t.d. til um það hversu mikið skipið getur borið til að haldast á floti. Hugtakið sjálfbærni í tengslum við sveitarfélög snýst þannig ekki síst um það hversu öflugt sveitarfélag þarf að vera til að geta borið sjálft þau verkefni sem því er ætlað að sinna. Umræða um sjálfbærni sveitarfélaga á svo sannarlega rétt á sér, ekki síst nú, þegar vandi steðjar að mörgum sveitarfélögum á landsbyggðinni.

Ef sveitarfélag er ekki sjálfbært er ólíklegt að sveitarstjórn geti nýtt sér sjálfsstjórnarrétt sinn, þ.e. réttinn til að velja milli mismunandi leiða við mótun stefnu og framkvæmd verkefna. En eins og áður hefur komið fram er grundvallaratriði í sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaga að sveitarstjórn hafi bolmagn og svigrúm til að setja eigin fingraför á þá málaflokka sem skipta íbúana máli og ákveða skattheimtuna. Til að uppfylla þessi skilyrði má ljóst vera að sveitarfélög þurfa að hafa ákveðinn lágmarksíbúafjölda, eða með öðrum orðum, ákveðinn lágmarksfjölda skattgreiðenda.

Í fámennustu sveitarfélögunum á Íslandi, þar sem kosið er óbundinni kosningu, er kosningaþátttaka minnst. Hugsanlega er það vísbending um að sveitarfélagið hafi ekki bolmagn til að sinna þeim verkefnum sem íbúarnir vilja hafa áhrif á.

Sveitarfélagið sinnir ekki verkefnum sem raunverulega skipta íbúana máli og því telja þeir ekki ástæðu til þess að mæta á kjörstað, enda ekki boðið upp á mismunandi valkosti í stefnu og framkvæmd. Er hugsanlegt að lýðræði í mjög fámennum sveitarfélögum sé því kannski aðeins fögur orð en innihaldslítið í reynd? Hvernig horfir þetta við þeim sem búa á Seltjarnarnesi eða í Súðavík? Ég geri ráð fyrir því að sýn íbúa í þessum sveitarfélögum sé mismunandi enda aðstæður afar ólíkar. Og hið sama má segja um íbúa í Akrahreppi? Hver er þeirra sýn á lýðræðið og kostina við að hafa raunveruleg áhrif?

Ég ætla ekki að svara þeim spurningum hér og nú en tel að við verðum að taka þessa umræðu á næstu misserum af fullri alvöru og einurð. Það er mitt mat og mín sannfæring að mörg sveitarfélög á Íslandi verði að stækka og eflast svo þau geti uppfyllt ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórnarrétt og nálægðarreglu Rómarsáttmálans.

Aðeins þannig geti lýðræðið orðið þeim og íbúum þeirra það fjöregg sem því er ætlað í hinu flókna nútímasamfélagi sem við búum í.

Ég ætla að ljúka þessum orðum mínum hér með því að ítreka hamingjuóskir mínar til Sambands íslenskra sveitarfélaga í tilefni af sextíu ára afmæli Sambandsins á þessu ári. Ég tel að afmælisbarnið hafi dafnað afar vel og ég vænti þess að svo verði um ókomna framtíð. Formaður Sambandsins, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, sagði hér í upphafsorðum sínum í morgun að hlutur kvenna hefði aukist á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga, og er það vel. En betur má ef duga skal. Það er mikilvægur þáttur í lýðræðinu að bæði kynin komi að ákvarðanatöku og á það ekki síst við á vettvangi stjórnmálanna. Því er mikilvægt að við leggjumst öll á árina við að efla hlut kvenna í sveitarstjórnarkosningunum næsta vor.

Ég vil biðja formann Sambandsins að koma hér til mín og taka við gjöf frá félagsmálaráðuneytinu með þökkum fyrir afar gott og gjöfult samstarf. Gjöfinni er ætlað að veita Sambandi íslenskra sveitarfélaga glögga yfirsýn yfir öll sveitarfélög á landinu, jafnt Súðavík sem Seltjarnarnes.

Gjörðu svo vel og megi samstarf okkar vaxa og dafna í framtíðinni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum