Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. mars 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félagsmálaráðherra á íbúaþingi á Ísafirði

Ágætu þátttakendur!

Ég vil byrja á því að fagna þessu framtaki, þessu glæsilega íbúaþingi og þakka þeim sem hafa undirbúið það. Fjölmenningarsetrið og starfsmenn þess hafa borið hitann og þungann af skipulagningu og framkvæmd bæði þessa þings og ráðstefnu um innflytjenda- og byggðamál sem hefur verið til fyrirmyndar. Starfsemi Fjölmenningarseturs einkennist af dugnaði og krafti. Héðan frá Ísafirði hefur það þjónað landinu öllu, verið sveitarfélögum á Austurlandi innan handar við stefnumótun í innflytjendamálum og lagt til mikilvægar upplýsingar fyrir innflytjendur á þjónustuveitunni Ísland.is svo að fátt eitt sé nefnt.

Ég vil einnig þakka Háskólasetri Vestfjarða fyrir framlag þess til ráðstefnunnar og þessa íbúaþings.

Af ýmsum rótum

Umræður um innflytjendamál og aðlögun innflytjenda vekja vissulega margar spurningar.

Hvaðan komum við Íslendingar? Hvert eigum við rætur okkar að rekja? Vísindarannsóknir benda til þess að meiri hluti íslenskra karlmanna eigi rætur sínar að rekja til Noregs, en meiri hluti kvenna sæki þær til Írlands. Hvað segir þetta okkur?

Jú, að minnsta kosti það að rætur okkar séu að einhverju leyti ólíkar. Hver skyldi til dæmis uppruni þeirra sem byggðu upp Skandinavíu hafa verið? Hverjir settust upprunalega að á Írlandi?

Ég hef spurt mig þessara spurninga og margra fleiri þegar innflytjendamál eru annars vegar. Ég hef velt því fyrir mér af hverju Norður-Ameríka og New York eru svo sterk og áhugaverð svæði sem raun ber vitni. Þar sem ólíkir menningarheimar frá öllum heimsálfum koma saman.

Það hvarflar ekki að mér að segja að blöndun og sambýli ólíkra menningarheima, heimsálfa, þjóða og trúarbragða sé einfalt mál. Þvert á móti.

Ég tel hins vegar grundvallaratriði að við lítum á jákvæðu hliðar þeirrar staðreyndar að samfélög manna um allan heim eru að verða fjölmenningarleg. Við eigum að líta á styrkleikana en ekki veikleikana. Í heiminum eru yfir fimm þúsund mismunandi menningar- og trúarsamfélög.

Tækni, ódýr fargjöld og alþjóðavæðing gerir það að verkum að fólk ferðast um allan heim. Þessi þróun hefur vissulega lengi verið fyrir hendi en er nú sýnilegri og hraðari en nokkru sinni fyrr.

Jákvæð viðbrögð

Ég las nýlega áhugaverða úttekt í Time undir yfirskriftinni: „Getting along. The many faces of Europe.“ Þar eru dregnar upp myndir af fjölmenningarlegum samfélögum í fyrrverandi nýlenduríkjunum Frakklandi og Bretlandi. Þar er einnig fjallað um Nyamko Sabuni sem nú er ráðherra innflytjenda-, aðlögunar- og jafnréttismála í ríkisstjórn Svíþjóðar. Hún kom til Svíþjóðar frá Kongó 12 ára að aldri þar sem faðir hennar sótti um pólitískt hæli. Nú, 26 árum seinna, er hún orðin ráðherra í Svíþjóð.

Ég get tekið undir þau orð í greininni að Sabuni sé dæmi um vel heppnaða aðlögun. Ég átti þess kost að hitta hana að máli á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem nýlega var haldinn í New York. Það var áhrifamikið að hlusta á hana flytja mál sitt af mikilli innlifun. Hún heldur því fram að jafnréttismál og launamunur kynjanna séu léttvæg í samanburði við vandamál tengd aðlögun í sænsku samfélagi og árekstra sem eiga sér stað vegna ólíkra hefða.

Ég vil nefna í þessu samhengi að félagsmálaráðuneytið hefur hlotið afar jákvæð viðbrögð gagnvart aðlögun flóttamanna hér á landi. Þau verkefni hafa verið unnin í góðri samvinnu við Rauða krossinn og þau sveitarfélög sem tekið hafa á móti flóttamönnum hverju sinni.

Alþjóðaflóttamannastofnunin hefur rætt um „hið íslenska módel“ og óskað eftir því að fá að nýta sér það sem fyrirmynd. Þetta undirstrikar að mínu mati að góð samvinna á milli ríkis og sveitarfélaga er grundvallaratriði þegar móttaka flóttamanna og innflytjenda er annars vegar. Það er sérlega ánægjulegt fyrir mig að nefna það hér að það var einmitt á Ísafirði sem byrjað var að þróa þá fyrirmynd að hver fjölskylda flóttafólks fengi stuðningsfjölskyldu. Það hefur sannarlega gengið vel upp.

Aðlögunarverkefni í tilraunaskyni

Ég sé fyrir mér að vinnubrögð við móttöku flóttamanna verði yfirfærð á aðlögun innflytjenda almennt. Ég hef því ákveðið að styðja aðlögunarverkefni á tveimur stöðum á landinu í tilraunaskyni árin 2007 og 2008.

Um er að ræða verkefni í Fjarðabyggð og í Bolungarvík. Félagsmálaráðuneytið mun styrkja slík verkefni en þau eru byggð á tillögum Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og sveitarfélaganna Fjarðabyggðar og Bolungarvíkur. Gert er ráð fyrir að verkefnin verði unnin í náinni samvinnu við Fjölmenningarsetrið. Þau byggjast á þeirri meginforsendu að sérstakur verkefnisstjóri á hverjum stað nálgist innflytjendur, myndi við þá tengsl og upplýsi um margvíslega starfsemi og þjónustu af hálfu hins opinbera. Með því sköpum við samfélag sem býður nýja þegna sína velkomna.

Starfsemi Fjölmenningarseturs og Alþjóðahúss efld

Ég tel jafnframt afar mikilvægt að styrkja starfsemi Alþjóðahúss. Ég hef því ákveðið að styrkja sérstaklega ráðgjafarþjónustu á vegum Alþjóðahúss sem ég vænti að geti meðal annars nýst í lögfræðiþjónustunni sem er veitt á landsvísu.

Einnig vil ég nota tækifærið hér til að upplýsa að ég hef ákveðið að efla enn frekar starfsemi Fjölmenningarsetursins með því að þangað verði ráðinn sérstakur upplýsingafulltrúi. Sú staða verður auglýst innan skamms og ég vænti þess að upplýsingafulltrúinn geti hafið störf eigi síðar en um mitt þetta ár. Upplýsingamálin eru grundvallarþáttur í nútímasamfélagi og þau verðum við að efla.

Þróunarsjóður stofnaður

Ég hef jafnframt ákveðið að árlega verði veittar 10 milljónir króna úr sérstökum þróunarsjóði á sviði innflytjendamála. Gert er ráð fyrir að Innflytjendaráð úthluti árlega úr honum á grundvelli sérstakra reglna og umsókna frá landinu öllu. Háskólasetur Vestfjarða hefur góðfúslega fallist á að annast umsýslu hans. Margir vinna þegar gott verk á þessum vettvangi, en segja má að þetta sé frumkvöðlastarf hér á landi og það vil ég styrkja. Við eigum að byggja á því sem vel hefur verið gert og því hugviti sem skapast hefur.

Ágætu ráðstefnugestir. Ég hef þessi inngangsorð mín ekki fleiri að sinni. Nú skulum við hefja umræður um þessi mál.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum