Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

05. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frjálslyndar tölur og staðreyndir

Auglýsing Frjálslynda flokksins gegn erlendu launafólki á ekki að koma neinum á óvart. Þingmenn flokksins gáfu tóninn svo eftir var tekið í haust og þeir eru enn við sama heygarðshornið.

Málflutningur þeirra kyndir undir fordómum, ýtir undir ótta og spillir fyrir velferð innflytjenda og flóttafólks hér á landi. En kjósendur vita þó að minnsta kosti fyrir hvað Frjálslyndi flokkurinn stendur.

Í auglýsingunni er með stríðsletri spurt hvort við „viljum sitja uppi með sömu vandamál og aðrar þjóðir sem hafa leyft óhindraðan innflutning vinnuafls“. Spurningin er út í bláinn því Íslendingar leyfa ekki óhindraðan innflutning vinnuafls. Árið 2004 býsnaðist Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, mest yfir því á þingi að ríkisstjórnin hindraði innflutning um of. En nú kveður við nýjan og heldur ógæfulegan tón.

Frjálslyndi flokkurinn vill beita neyðarúrræði EES-samningsins til að undanþiggja Ísland frjálsri för launafólks. Engin slík skilyrði eru fyrir hendi. Íslandi yrði tafarlaust refsað fyrir einhliða aðgerð af þessu tagi sem ekki byggist á neyðarrétti. Mótvægisaðgerðir annarra aðildarríkja myndu beinast að öllum stoðum fjórfrelsisins, þ.e. frjálsum flutningi fólks, fjármagns, vöru og þjónustu. Við gætum eins sagt upp samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og gengið til sjálfsþurftarbúskapar að nýju. Það yrði afleiðing stefnu þessara manna.

Auðvitað hefur erlendum starfsmönnum hér á landi fjölgað verulega undanfarin misseri. Atvinnulífið hefur þurft á því að halda. Erlendar ráðningar hafa breytt þenslu í hagvöxt. Innflytjendur hér á landi eru ekki atvinnulausir. Þeir eru ekki byrði á íslensku velferðarkerfi. Þvert á móti. Erlendir ríkisborgarar greiddu samtals 6.253 milljónir króna í skatta og útsvar hér á landi í fyrra og langflestir þiggja lítið frá samfélaginu á móti.

Í auglýsingu Frjálslynda flokksins segir réttilega að um 11 þúsund erlendir starfsmenn hafi komið til landsins árið 2006. Þetta er tekið úr skýrslu frá Vinnumálastofnun. En frjálslyndir setja punkt þar sem Vinnumálastofnun setur kommu. Ábendingu um að ekki séu „svo margir starfandi á hverjum tímapunkti“ er sleppt.

Stjórnarflokkarnir hafa nú þegar brugðist við ágöllum sem Frjálslyndi flokkurinn auglýsir að séu enn vandamál. Í sömu andrá og hann varar ranglega við kollsteypu velferðarkerfisins vegna innflytjenda bendir hann á að þrettán hundruð manns búi í óíbúðarhæfu atvinnuhúsnæði. Í fyrsta lagi eru þetta ekki allt útlendingar. Í öðru lagi er húsnæðið engan veginn allt óíbúðarhæft þótt það sé ósamþykkt. Í þriðja lagi voru sett lög á síðasta degi þingsins til að bæta úr þessum vanda.

Enn fremur hefur verið brugðist við vísbendingum um að erlent launafólk njóti ekki réttinda samkvæmt kjarasamningum og lögum. Félagsmálaráðuneytið hefur haft forgöngu um lög um starfsmannaleigur, atvinnuréttindi útlendinga og útsenda starfsmenn. Eftirlit hefur verið hert með að þeir hafi viðunandi búsetu og kjarasamningar séu virtir í hvívetna.

Íslenskri þjóð stendur ekki ógn af innflytjendum. Þeir sem bera hag af því að halda öðru fram eru á atkvæðaveiðum í gruggugu vatni.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum