Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. apríl 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir veittir úr starfsmenntasjóði

Það er ljóst að sí- og endurmenntun gegna lykilhlutverki bæði hvað varðar möguleika fyrirtækja og einstaklinga á vinnumarkaðnum til framþróunar.

Í dag kynnum við úthlutun úr starfsmenntasjóði. Sjóðurinn á sér fimmtán ára sögu en er jafnmikilvægur í dag og þegar hann var stofnaður með lagasetningu á Alþingi vorið 1992 um starfsmenntun í atvinnulífinu. Setning laganna átti sér nokkurn aðdraganda. Á árunum 1984 og 1985 var starfandi nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem hafði það hlutverk að gera úttekt á áhrifum nýrrar tækni á atvinnulífið. Nefndin skilaði af sér áliti um það hvernig skyldi bregðast við tæknibreytingum og lagði megináherslu á að fjölga kostum til endurmenntunar og endurþjálfunar.

Starfsmenntaráð

Með lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu var stofnað starfsmenntaráð skipað sjö fulltrúum, þremur fulltrúum samtaka atvinnurekanda og þremur fulltrúum samtaka launafólks. Félagsmálaráðherra skipar sjöunda fulltrúann. Aðilar skiptast á að gegna formennsku þannig að eitt árið gegnir fulltrúi félagsmálaráðherra formennsku, næsta fulltrúi atvinnurekenda og þriðja árið fulltrúi launafólks. Þetta er gert til að undirstrika að um sameiginlegt viðfangsefni þessara þriggja aðila sé að ræða.

Markmið laganna er fyrst og fremst að hvetja til aukinnar starfsmenntunar í atvinnulífinu, meðal annars í þeim tilgangi að auka framleiðni, greiða fyrir tækninýjungum, bæta verkkunnáttu og auka hæfni starfsmanna til að mæta nýjum kröfum og breyttum aðstæðum. Með lögunum var farin nokkuð önnur leið en flest nágrannalönd okkar höfðu farið. Í stað þess að leggja áherslu á miðstýrðar starfsmenntunar- og starfsþjálfunarmiðstöðvar var mörkuð sú stefna að hvetja samtök atvinnurekenda og launafólks til að taka þessi mál í sínar hendur.

Á þeim rúma áratug sem liðinn er frá því lögin um starfsmenntun í atvinnulífinu voru sett hafa miklar breytingar orðið á því umhverfi sem starfsmenntaráð starfar í. Þróun atvinnulífsins hefur einkennst af stórstígum tækniframförum, breytingum á skipulagi starfsemi fyrirtækja og stofnana og þeim störfum sem þar eru unnin. Sama gildir um starfsumhverfið sem einkennist í ríkari mæli af alþjóðlegum samanburði, samstarfi og samkeppni.

Samhliða hefur einnig orðið mikil breyting á uppbyggingu og framboði á starfsmenntun hér á landi. Fræðslustofnanir atvinnulífsins hafa eflst mjög á síðustu árum og gegna stöðugt mikilvægara hlutverki á sviði sí- og endurmenntunar. Árið 2000 gerðu Samtök atvinnulífsins samninga við Flóabandalagið, Starfsgreinasambandið og verslunarmannafélögin um stofnun sérstakra fræðslusjóða á almennum vinnumarkaði til að sinna starfsfræðsluþörfum ófaglærðs starfsfólks á vinnumarkaði. Áður höfðu verið gerðir sambærilegir samningar við iðnaðarmannafélögin. Árið 2002 gerðu Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna samkomulag við Sjómannasamband Íslands um stofnun fræðslusjóðs sjómanna.

Því má segja að lögin hafi þjónað vel því markmiði sem þeim var sett.

Styrkir til starfsmenntunar

Starfsmenntaráð auglýsti í febrúar síðastliðnum eftir umsóknum um styrki til starfsmenntunar í atvinnulífinu. Að þessu sinni var lögð áhersla á þrjá málaflokka:

1. Starfsþróun á vinnustað og nýliðaþjálfun

Störf breytast í samræmi við nýjar hugmyndir um verklag. Lögð var áhersla á starfsþjálfun á vinnustöðum sem auðveldar fólki að tileinka sér nýjungar. Sérstaklega var litið til nýrra leiða fyrir starfsmenn sem hafa litla skólagöngu.

2. Kennslu í íslensku fyrir útlendinga í vinnustaðatengdu námi

Fólk af erlendum uppruna sem vill læra íslensku á oft erfitt með að finna tíma til að sinna námi utan vinnudags. Lögð var áhersla á verkefni sem auka tækifæri og hvetja til vinnustaðatengds íslenskunáms í þeim tilgangi að auka færni einstaklinga á vinnumarkaði.

3. Kennslu í verslunar- og ferðaþjónustugeiranum

Ferðaþjónusta hefur vaxið hratt og útlit er fyrir að svo verði áfram. Mikil starfsmannavelta hefur einkennt verslun síðastliðin ár. Lögð var áhersla á verkefni sem fólu í sér gæði þjónustu, fagmennsku og öryggi.

Að venju var ráðið jafnframt reiðubúið að meta umsóknir um mikilvæg verkefni sem féllu utan áherslna ráðsins og gátu umsækjendur sótt um í opinn flokk.

Samtals bárust 109 umsóknir frá 57 aðilum. Samtals var sótt um styrki fyrir meira en 180 milljónir króna.

Að tillögu Starfsmenntaráðs var ákveðið að styrkja 45 verkefni frá 25 aðilum. Að þessu sinni var úthlutað rúmlega 48 milljónum króna úr starfsmenntasjóði.

Ég vil sérstaklega nefna styrk til Eflingar – stéttarfélags þar sem verkefnið er að þróa og undirbúa námsframboð fyrir öryggisverði.

Veittur er styrkur til Menntasviðs Reykjavíkurborgar sem býður stuðningsfulltrúum og skólaliðum í grunnskólum upp á dreifnámsfyrirkomulag þannig að fólk geti stundað það nám samhliða starfi.

Einnig ber að nefna styrki til ferðaþjónustuaðila. Ef vel tekst til getur þetta verkefni skapað störf, ekki síst í dreifbýlinu og stutt við uppbyggingu ferðaþjónustu. Loks má nefna að nokkur verkefni sem hafa innflytjendur sem markhóp fá stuðning við þessa úthlutun.

Okkur fannst vel við hæfi að tilnefna að þessu sinni verkefni Rauða kross Íslands „Mentor er málið! – félagsvinakerfi“ sem áhugavert sýnishorn þeirra verkefna sem borist hafa Starfsmenntaráði þetta árið. Markmið verkefnisins er að stofna net mentora, stuðningsnet íslenskra kvenna og kvenna af erlendum uppruna, þar sem sambandið byggist á gagnkvæmri virðingu og jafningjagrundvelli. Markmiðið er að styrkja konur af erlendum uppruna sem eru þegar á íslenskum vinnumarkaði, efla þær og rjúfa félagslega einangrun. Styrkurinn nemur 2,5 milljónum króna.

Fulltrúum þessara aðila sem hér eru vil ég óska innilega til hamingju.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum