Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. maí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný viðbygging Fjöliðjunnar á Akranesi

Ágætu tilheyrendur.

Það er mér sönn ánægja að vera með ykkur hér í dag við kynningu á væntanlegri viðbyggingu við Fjöliðjuna hér á Akranesi. Það eru reyndar ekki nema nokkrir mánuðir síðan ég heimsótti ykkur síðast. Það var nánar tiltekið 9. nóvember 2006, fyrir nánast réttu hálfu ári. Þá þótti mér við hæfi að nota þennan vettvang hér í Fjöliðjunni til þess að kynna ný drög að stefnu í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna. Það var einkar ánægjuleg morgunstund sem ég átti með ykkur þá um það mikilvæga mál.

Í ávarpi mínu í nóvember nefndi ég að á stað eins og þessum verði okkur ljóst hve þátttaka og virkni fatlaðra í samfélaginu getur borið mikinn og ríkulegan ávöxt, ekki einungis fyrir þá sem hér starfa heldur ekki síður fyrir aðra þegna landsins. Þátttaka og virkni fatlaðs fólks í samfélaginu eru einmitt lykilorð í þeirri framtíðarsýn sem hin nýja stefna félagsmálaráðuneytisins felur í sér. Þar er lögð áhersla á að sérhver einstaklingur hafi mikilvægu hlutverki að gegna og að hann eða hún skuli eiga kost á slíku hlutverki. Þátttaka og virkni allra þegna í lífi og starfi samfélagsins styrkir forsendur þess til þess að það geti borið rík einkenni mannúðar, skilnings, virðingar og réttlætis.

Ég vil árétta í þessu sambandi að ný og breytt viðhorf til fötlunar gera sig gildandi í hinni nýju stefnu ráðuneytisins. Þar er um að ræða að fötlun felst ekki einungis í þeirri skerðingu á færni eða sjúkdómi sem einstaklingur kann að búa við. Við verðum einnig að hafa það hugfast að fyrir því eru einnig félagslegar ástæður að fólk með skerta færni eigi þess ekki kost að taka fullan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Ef gerðar væru kröfur um að allir sem stunda atvinnu hefðu fulla og óskerta starfsorku er hætt við að fækka myndi á vinnumarkaðnum. Þá myndu margir sitja heima, verklausir og harla ósáttir við hlutskipti sitt. Og margar dýrmætar vinnustundir myndu fara forgörðum. Þess vegna er það svo mikilvægt að til séu fjölbreytilegir vinnustaðir sem bjóða verkfúsum höndum og huga að njóta sín við hin margvíslegustu verkefni. Það á við um fjölda vinnustaða – ekki einungis þá sem ætlaðir eru fötluðu fólki. Það á einnig við um þá þar sem skilningur ríkir á því að vinnufærni felst ekki einungis í fullu starfsþreki í hefðbundinni merkingu. Vinnufærni og starfsþrek felst einnig í þeim viðhorfum sem fólk hefur til þeirra verka sem því eru falin: Ég nefni sem dæmi áhuga, kapp, ástundun, dugnað og djörfung til þess að tileinka sér ný verkefni. Ég veit að allir þessir eiginleikar eru meðal annars til staðar hér í Fjöliðjunni. Þessi sýn er meðal þess sem ég tel afar mikilvægt að sé til staðar í íslensku þjóðfélagi: Vinnustaðir við hæfi allra þegna landsins, hvernig sem starfsfærni þeirra kann að vera háttað.

Atvinna er meginþáttur í lífi sérhvers manns. Hún er hluti af sjálfsmynd hans og ímynd hans gagnvart öðrum, vettvangur fyrir sköpunar- og athafnaþörf og þátttöku í samfélaginu á borð við aðra. Atvinna felur þannig í sér annað og meira en fjárhagslegan ávinning. Hún er grundvöllur félagslegrar stöðu og sjálfstæðs lífs, eins konar lífæð við samfélagið.

Þessi viðbygging mun sérstaklega auka rými fyrir þá hæfingu sem hér er stunduð og gefa möguleika á því að tengja hana betur við þau almennu vinnuverkefni sem unnið er að hér í Fjöliðjunni. Þeir sem hér eru í hæfingu munu því í auknum mæli fá tækifæri til þess að reyna sig í fjölbreytilegri verkefnum sem væntanlega mun auka við og styrkja almenna vinnufærni þeirra. Jafnframt mun viðbyggingin auka möguleika Fjöliðjunnar til þess að bjóða nýjum starfsmönnum verndaða vinnu.

Tíu til fimmtán geðfatlaðir einstaklingar gætu hugsanlega nýtt aðstöðuna hér til vinnutengdra verkefna af ýmsum toga. Loks verður möguleiki á því að bjóða öryrkjum hér á svæðinu sem ekki hafa haft atvinnu upp á ýmis vinnutengd verkefni. Segja má að þessi viðbygging muni því gjörbreyta þjónustu við þá sem þurfa á hæfingu eða verndaðri vinnu að halda. Viðbyggingin mun verða jafnmikil breyting og varð þegar flutt var í þetta húsnæði á sínum tíma.

Ég vil því óska okkur öllum til hamingju með það skref sem stigið er hér í dag.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum