Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna velferðarnefndar Alþýðusambands Íslands

Góðir ráðstefnugestir.

Ég vil fyrst af öllu þakka velferðarnefnd ASÍ fyrir að efna til þessarar ráðstefnu um málefni barna og sýna þannig í verki áhuga sinn og vilja til að hafa áhrif og leggja gott til þessara mála.

Þegar rætt er um málefni barna eru strax tiltekin mál sem okkur detta fyrst í hug og tengjast börnum á mjög beinan hátt. Engu að síður eru málefni barna svo margt ef út í það er farið. Skipulagsmál, heilbrigðisþjónusta, atvinnuástand og jafnrétti kynja – þetta eru allt málefni sem snerta hag og velferð barna, ekki síður en fullorðinna. Velferð barna ræðst að svo miklu leyti af almennri velferð í samfélaginu, ríkjandi gildismati, áherslum og viðhorfum. Fjölskyldan í öllum sínum birtingarmyndum er hornsteinn samfélagsins og ef velferð hennar er ógnað með of þungum byrðum eða skeytingarleysi er samfélaginu hætta búin.

Á vorþinginu fyrir rúmu árið síðan lagði ég fyrir Alþingi aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna, í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Áætlunin var samþykkt af þinginu og í framhaldi af því skipaði ég samráðsnefnd sem falið var að vinna að framgangi hennar og stuðla að samræmi aðgerða innan Stjórnarráðsins. Verkefni áætlunarinnar spanna vítt svið og heyra undir ábyrgð félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis sem eiga öll fulltrúa í samráðsnefndinni auk fulltrúa fjármálaráðuneytisins.

 

Ég ætla að rekja hér stuttlega helstu verkefni áætlunarinnar og framgang þeirra, jafnframt því að fjalla á almennari nótum um sýn mína og áherslur í málefnum barna og barnafjölskyldna og fleiri verkefni sem unnið er að um þessar mundir.

Fyrsti kafli áætlunarinnar fjallar um almennar aðgerðir. Hann snýr meðal annars að því að yfirfara tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2003 um framkvæmd barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Samráðsnefndinni var falið að gera tillögur í þessum efnum.

Henni var einnig falið að gera tillögur um viðbrögð við tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2006 til aðildarríkjanna um að móta stefnu til að efla foreldrahæfni og sömuleiðis að gera tillögur um hvernig skuli stuðla að vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi í samræmi við samning Evrópuráðsins um þetta efni. Að þessu öllu er unnið, þótt mál séu mislangt á veg komin.

Í áætluninni er gert ráð fyrir að í samráði ríkis, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna verði mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum skal litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og einnig hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, til dæmis vegna veikinda og fötlunar.

Í öðrum kafla er fjallað um aðgerðir til að bæta afkomu barnafjölskyldna. Þriðji kaflinn snýr að aðgerðum í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðningi í uppeldisstarfi og sá fjórði um almennar forvarnaaðgerðir. Fimmti kaflinn er um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna.

Sjötti kaflinn er um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda. Sjöundi kaflinn snýst um aðgerðir til verndar börnum og ungmennum gegn kynferðisbrotum og áttundi kaflinn um aðgerðir í þágu barna innflytjenda. Mörg verkefni hafa verið unnin eða hrint af stað í samræmi við þetta, þótt vissulega sé sitthvað ógert enn.

Það er jafnan forsenda fyrir framkvæmd verkefna að þeim fylgi fjármunir. Því hef ég lagt mikið upp úr því að tryggja fé til þeirra aðgerða sem í áætluninni eru, ekki síst þeirra sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið.

Til verkefna sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið og varða málefni barna með beinum hætti hefur nú þegar verið ákveðið að verja um 500 milljónum krónum meira en gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar og er raunaukning fjár til málaflokksins tæp 45% frá því að ný ríkisstjórn tók við um mitt ár 2007.

Af auknu fé til einstakra verkefna má nefna aðgerðir til að stytta biðlista hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, aukinn stuðning við langveik börn, fjölbreyttari úrræði fyrir börn og ungmenni með hegðunar- og vímuefnavanda með áherslu á meðferð utan stofnana, auknar greiðslur til foreldra langveikra og alvarlega fatlaðra barna og aukið fé til að sinna vímuvörnum. Rétt er að taka fram að aukin útgjöld vegna hækkunar barnabóta eru ekki reiknuð sem hluti af þeirri 500 milljóna króna aukningu sem ég hef rætt um hér.

Ég ítreka að nú hef ég einungis talað um fjármuni sem ráðstafað er af félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Önnur ráðuneyti hafa einnig sett fé til verkefna sem heyra undir aðgerðaáætlunina, svo sem til mennta- og heilbrigðismála. Nefni ég þar sérstaklega aukið fé til að stytta biðlista hjá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, niðurfellingu komugjalda barna á heilsugæslustöðvum og auknar barnabætur. Það er því óhætt að fullyrða að aldrei hefur meira fé verið varið til málefna barna en nú.

 

Styttur biðtími vegna greiningar barna

Eitt af fyrstu verkum mínum í ráðuneytinu var að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til að stytta biðlista og biðtíma eftir greiningu barna hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins þar sem komið var í óefni. Með samstilltu átaki ráðuneytisins og starfsfólks stöðvarinnar hefur tekist að stytta bið verulega og gengur vinna við verkefnið eftir áætlun.

Greining er nauðsynleg og forsenda þjónustu en þá þarf líka að tryggja framhaldið þannig að nauðsynleg meðferð og önnur úrræði séu til staðar þegar greining liggur fyrir, jafnt í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu og skólakerfinu. Með efldri greiningu hefur skortur á úrræðum komið betur í ljós og ekki síður sá vandi sem stafar af því hve úrræðin eru á margra hendi og ábyrgð og verkaskipting oft óljós.

Að þessum málum þurfa að koma félags- og tryggingamálaráðuneytið, menntamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og síðast en ekki síst sveitarfélögin. Sumar aðgerðir sem grípa þarf til eru á gráu svæði og stundum skapast togstreita milli ráðuneyta eða ríkis og sveitarfélaga þegar tekist er á um hver á að framkvæmda hlutina og hver á að borga fyrir meðferð og úrræði. Á meðan líða börnin og foreldrar þeirra og raunar fagfólkið líka sem horfir upp á brýna þörf fyrir þjónustu en getur ekki aðhafst þar sem kostnaðurinn er orðinn að bitbeini þessara aðila.

Fyrir nokkru skilaði nefnd um þjónustuþörf fyrir langveik börn mjög vandaðri skýrslu með tillögum um bætta þjónustu við þennan hóp. Þar er meðal annars fjallað um mögulegar aðgerðir og skýrð verkaskipting vegna þjónustu við langveik börn þannig að þjónusta við þau sé tryggð þótt margir þurfi að koma að málum.

Ég nefni einnig aðra vel unna skýrslu nefndar um aðgerðir til að mæta þörfum ört vaxandi hóps barna með ofvirkni og hegðunarraskanir eða ADHD eins og það einnig nefnt. Þar er verkefnum skipt upp í fjóra áhersluflokka og gerðar tillögur um hvernig eigi að standa að verkefnum innan hvers þeirra til að bæta þjónustu við þennan hóp. Tilgreint er hvaða aðili skuli bera ábyrgð á framkvæmd einstakra verkefna og hverjir skuli koma að samstarfi vegna þeirra.

Þessar tvær skýrslur gefa skýra mynd af því hvar skórinn kreppir helst vegna óljósrar ábyrgðar og verkaskiptingar ráðuneyta og sveitarfélaga. Í mörgum tilvikum er hægt að bæta þjónustu verulega án umtalsverðs kostnaðar ef menn láta ekki framkvæmdirnar stranda á deilum um ábyrgð og kostnað.

Við vinnum nú hörðum höndum að því að koma skipulagi á þjónustu við þessa hópa í fastar skorður í samræmi við niðurstöður nefndanna og tryggja þannig að deilur um keisarans skegg standi ekki í vegi fyrir þjónustu. Þegar upp er staðið er hér um að ræða nýtingu á fé skattgreiðenda í þágu samfélagsins og því ótækt að láta deilur um það úr hvaða vasa fjármunirnir eru teknir standa þjónustunni fyrir þrifum.

 

Framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum

Ég get ekki látið undir höfuð leggjast að minnast á þingsályktun sem ég lagði fram um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum til næstu sveitarstjórnarkosninga og samþykkt var á Alþingi í maí á þessu ári. Með framlagningu hennar var brotið í blað, því þótt lög kveði á um annað er þetta í fyrsta sinn sem lögð er fram heildstæð framkvæmdaáætlun í þessum mikilvæga málaflokki.

Í áætluninni er kveðið á um fjölmörg verkefni á sviði barnaverndarmála, þau tímasett og kostnaðarmetin. Framkvæmdaáætlunin byggist á ákvæðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Markmið hennar og aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar eru að mörgu leyti þau sömu, þótt framkvæmdaáætlunin taki vissulega til sértækari aðgerða.

 

Endurskoðun barnaverndarlaga

Ég vil einnig geta þess að endurskoðun barnaverndarlaga er hafin hjá starfshópi sem ég skipaði í sumar. Metið verður hvernig lögin hafa reynst frá gildistöku 1. júní 2002, hvaða lagabreytingar kunni að vera nauðsynlegar til að styrkja barnavernd í landinu og einnig hvaða breytingar megi gera á framkvæmd barnaverndarstarfs án lagabreytinga. Þá mun hópurinn skoða sérstaklega ákvæði laganna sem varða vistun barna utan eigin heimilis og framkvæmd þeirra, þ.e. ákvæði um ráðstöfun barns í fóstur eða vistun á heimili eða stofnun.

 

Hlutverk sveitarfélaga á sviði barnaverndar

Hlutverk sveitarfélaga á sviði barnaverndar er stórt og verkefnin viðamikil. Í lögum um barnavernd er kveðið á um að sveitarstjórnir marki sér stefnu og geri framkvæmdaáætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins.

Ég bind miklar vonir við að framkvæmdaáætlun ríkisins í barnaverndarmálum sem ég nefndi áðan verði sveitarstjórnum hvatning og stuðningur við gerð slíkra áætlana og mun jafnframt ganga eftir því að þau uppfylli framangreint skilyrði laganna.

Barnavernd er stór og mikilvægur málaflokkur sem snýst um vandasöm og viðkvæm mál. Mikilvægi þess að vandað sé til verka verður því aldrei ofmetið. Í barnavernd er fjallað um hagsmuni, velferð og framtíð barna og fjölskyldna þeirra. Barnaverndarlög leggja ríkar skyldur á þá sem vinna að barnaverndarmálum og það sem stendur ávallt efst í barnaverndarstarfi er sú fortakslausa krafa að hagsmunir barns séu ávallt hafðir í fyrirrúmi og gilda þar engar undantekningar. Eðli þessara mála er slíkt að þau krefjast mikils af þeim sem að þeim vinna og því er fagleg þekking þeirra, menntun, kunnátta og færni, hornsteinninn að farsælu starfi.

Hlutverk Barnaverndarstofu gagnvart sveitarfélögunum á sviði barnaverndarmála er viðamikið samkvæmt 7. gr. barnaverndarlaga. Ég legg því ríka áherslu á að Barnaverndarstofa og ráðuneytið munu nú og um næstu framtíð beina sjónum sínum að því að innleiða og þróa ný úrræði í barnaverndarmálum, meta árangur úrræða í barnavernd og efla barnavernd á vegum sveitarfélaganna.

 

Fjölþáttameðferð hjá Barnaverndarstofu

Hjá Barnaverndarstofu hefur nú verið komið á fót nýju meðferðarúrræði, svokallaðri fjölþáttameðferð sem er þjónusta við fjölskyldur barna á aldrinum 12–18 ára sem stríða við fjölþættan hegðunarvanda. Með þessu er fjölbreytni meðferðarúrræða aukin og er markmiðið að veita þjónustu á heimavelli eftir því sem unnt er og veita þannig stuðning jafnt barninu sjálfu og fjölskyldu þess.

Barnaverndarstofa hefur ráðið fólk til að sinna þessu verkefni og sett á fót meðferðarteymi sem tekur til starfa í nóvember. Ætla má að þessi þjónusta dragi úr þörf á stofnanavist, en erlendar rannsóknir af árangri fjölþáttameðferðar hafa sýnt umtalsvert betri langtímaárangur en hefðbundin stofnanameðferð. Átta ár eru síðan Norðmenn ákváðu að innleiða þetta meðferðarform á landsvísu og Svíar og Danir hafa siglt í kjölfarið.

 

Barnahús

Kynferðisleg misnotkun á börnum er meðal skelfilegustu meina sem nokkurt samfélag glímir við. Allt of lengi hafa glæpir af þessu tagi legið í þagnargildi. Allt of lengi hafa börn sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun upplifað sig sjálf sem brotamenn og mætt tómlæti, vantrú eða algjörri höfnun þegar þau hafa reynt að segja frá aðstæðum sínum.

Með stofnun Barnahúss opnaðist leið fyrir börn sem sætt hafa kynferðislegri misnotkun til að segja frá og fá viðeigandi stuðning og meðferð hjá fagfólki. Barnahús hefur sannað gildi sitt, enda hafa nágrannaþjóðir okkar tekið sér það til fyrirmyndar í ljósi góðrar reynslu hér á landi af þessu úrræði.

Þegar starfsemi Barnahúss hófst hér á landi lágu fyrir áætlanir um umfang starfseminnar í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um fjölda mála sem vörðuðu kynferðislega misnotkun barna. Fljótlega eftir að Barnahús tók til starfa sýndi það sig að þörfin hafði verið vanmetin, trúlega vegna þess að hér var komið úrræði sem fólk treysti og var reiðubúið að nýta sér auk þess sem stóraukin umræða og fræðslustarf, meðal annars vegna samtaka á borð við Blátt áfram, hafa auðveldað fórnarlömbunum að tjá sig um brotin.

Skýrslutökum í Barnahúsi hefur frá upphafi fjölgað frá ári til árs. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs bárust 145 mál til Barnahúss á móti 115 málum árið áður sem er um 26% aukning. Á þessum fimm mánuðum voru teknar 54 skýrslur fyrir dómi á móti 56 skýrslum allt árið 2007. Barnahús hefur sannað gildi sitt og augljóst að efla þarf starfsemi þess svo það geti rækt hlutverk sitt sem skyldi. Ákvörðun liggur þegar fyrir um að svo verði gert og má vænta þess að fé til starfseminnar verði aukið á næsta ári.

 

Forvarnir gegn vímuefnaneyslu

Óhófleg neysla áfengis og annarra vímuefna helst oft í hendur við önnur félagsleg vandamál, þótt oft sé erfitt að greina hvað er orsök og hvað afleiðing. Afleiðingar vímuefnaneyslu þarf hins vegar ekki að fjölyrða um og því ekki heldur af þeim ávinningi sem samfélagið nýtur af því að fyrirbyggja vanda af því tagi. Meðal verkefna sem unnið er að af hálfu samráðsnefndar um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna er að móta forvarnaáætlun til að sporna gegn vímuefnaneyslu og hafa nokkrir fjármunir verið tryggðir til að sinna verkefnum á þessu sviði.

 

Fátækt

Góðir fundarmenn.

Mér finnst þungbært að ég skuli tilneydd að ræða hér þá staðreynd að á Íslandi skuli töluverður fjöldi fólks búa við fátækt. Árið 2004 bentu niðurstöður samanburðarrannsóknar innan Evrópusambandsins til þess að 27.000 manns 16 ára og eldri hér á landi byggju við fátækt.

Önnur rannsókn hefur sýnt að um 5.000 börn á Íslandi búi við fátækt. Börn sem lifa við fátækt njóta ekki jafnræðis. Þau hafa minni möguleika til tómstunda og íþróttastarfs en önnur börn og einangra sig oft frá jafnöldrum sínum. Þetta er nokkuð sem á ekki að líðast og við verðum að tryggja að laun fólks og lífeyrir og aðstæður barnafjölskylda séu þannig tryggðar að börn þurfi ekki að líða fyrir fátæktar sakir.

Í þessu samhengi vil ég nefna aðstæður forsjárlausra foreldra sem hafa verið töluvert til umræðu síðustu misseri. Undir lok síðasta árs skipaði ég nefnd til að kanna fjárhagslega og félagslega stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra, fara yfir réttarreglur sem varða þessa hópa og gera tillögur um úrbætur á grundvelli löggjafar eða með öðrum aðgerðum. Nefndin skilar tillögum sínum í síðasta lagi í desember næstkomandi.

 

Greiðslur til foreldra langveikra barna

Mikilvægar breytingar voru gerðar á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna árið 2007 til þess að koma betur til móts við þennan hóp foreldra fjárhagslega. Lögð var áhersla á að tryggja sem minnstu röskun á tekjum fjölskyldna meðan þær væru að laga sig að breyttum aðstæðum.

Foreldrum sem höfðu verið á vinnumarkaði áður en barn greindist voru tryggðar tekjutengdar greiðslur í allt að sex mánuði, en svo hafði ekki verið áður. Til viðbótar var tryggt með lögunum að allir foreldrar langveikra eða fatlaðra barna öðluðust rétt til bóta vegna verulegrar umönnunar barna sinna, óháð fyrri atvinnuþátttöku. Þessar greiðslur eru ekki tímabundnar og foreldrar njóta þeirra svo lengi sem börnin þurfa verulega umönnun þeirra.

Síðast en ekki síst var með lagabreytingunni eytt þeirri mismunun sem áður hafði verið þar sem réttur til greiðslna tók mið af því hvenær barn greindist. Samkvæmt fyrri lögum var því iðulega verið að mismuna foreldrum sem voru nánast í sömu erfiðu aðstöðunni.

 

Breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof

Í júní í sumar tóku gildi breytingar sem gerðar voru á lögum um fæðingar- og foreldraorlof til að koma betur til móts við nýbakaða foreldra. Aðalmarkmið breytinganna var að tryggja að viðmiðunartekjur, þ.e. þær tekjur sem liggja til grundvallar orlofsgreiðslum, endurspegli sem best tekjur foreldra við upphaf fæðingarorlofs. Því var viðmiðunartímabilið stytt úr 24 mánuðum í 12 og upphaf viðmiðunartímabilsins hjá launþegum miðað við fæðingu en ekki tekjuár. Í fyrri lögum gat munað verulegum fjárhæðum hvort barn fæddist 31. desember eða 1. janúar, daginn eftir. Þeirri mismunun hefur nú verið eytt hjá launþegum.

Með lagabreytingunni var forsjárlausum foreldrum í fyrsta skipti veittur réttur til fæðingarstyrks. Einnig voru heimildir foreldra til að flytja réttindi til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks sín á milli rýmkaðar frá því sem áður hafði verið. Ljóst er að aðstæður foreldra geta verið mjög mismunandi þegar kemur að töku fæðingarorlofs og því kann að reynast erfitt að setja reglur sem falla vel að aðstæðum allra hverju sinni. Engu að síður er víst að þessi breyting hafi verið til bóta fyrir fjölmarga foreldra.

 

Málefni innflytjenda

Eins og ég sagði áðan er í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og ungmenna gert ráð fyrir ákveðnum aðgerðum í þágu barna innflytjenda. Í maí síðastliðnum var samþykkt þingsályktun sem ég lagði fram í málefnum innflytjenda og í þingsályktunartillögunni sjálfri er gerð grein fyrir fjölbreyttum verkefnum á flestum sviðum þjóðlífsins sem hafa það markmið að taka betur á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og auðvelda því að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína.

Mörg þessara atriða snúa beint eða óbeint að því að styrkja stöðu barna innflytjenda og stuðla að velferð þeirra. Nú er verið að leggja lokahönd á frumvarp til laga um innflytjendur sem verður þá fyrsta löggjöfin um innflytjendur á Íslandi. Frumvarpið verður lagt fyrir á þinginu sem nú er að hefjast.

 

Barnabætur, húsnæðismál, húsaleigubætur

Eins og ég sagði í upphafi ræðst velferð barna af mörgum þáttum og aðstæðum í samfélaginu almennt. Möguleikar fólks til að afla sér húsnæðis vega þungt og eins skiptir miklu hvernig bótakerfið er nýtt til að styðja við bakið á barnafjölskyldum. Meðal mikilvægra aðgerða á þessu sviði til að styrkja stöðu barna og barnafjölskyldna nefni ég hækkun barnabóta á þessu og næsta ári. Hækkun þessa árs nemur að meðaltali um 8% á hverja fjölskyldu miðað við árið 2007.

Húsaleigubætur voru hækkaðar umtalsvert í vor en þær höfðu þá ekki hækkað neitt í sjö ár. Ákvörðun sem tekin var um afnám brunabótaviðmiðs vegna húsnæðislána veit ég að hefur auðveldað ungum barnafjölskyldum að koma sér þaki yfir höfuðið, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu og sama máli gegnir um afnám stimpilgjalda vegna kaupa á fyrstu íbúð. Þá var ákveðið að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 3.000 á fjórum árum en þær íbúðir eru með niðurgreiddum vöxtum sem munar miklu fyrir fólk með litla greiðslugetu.

 

Íslenska feðraorlofið

Fæðingar- og foreldraorlof og fyrirkomulag þess hefur mikil áhrif á aðstæður fjölskyldna og möguleika fólks til að samþætta vinnu og fjölskyldulíf og enn fremur getur það verið mikilvægt tæki til að stuðla að auknu jafnrétti kynja. Sú hefur orðið raunin með okkar löggjöf í þessum efnum frá því að karlar fengu sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs árið 1998 sem hefur lengst smám saman og varð þrír mánuðir árið 2003.

Um 90% karla nýta sér þennan rétt og eru hvergi meðal annarra þjóða dæmi um að karlar taki sér fæðingarorlof í viðlíka mæli. Nefna má Svíþjóð sem dæmi, þar sem fæðingarorlof er 12 mánuðir en samt nýta karlar sér aðeins um 10% af því.

Aðrar þjóðir hafa sýnt íslensku leiðinni mikinn áhuga. Nú í haust mun félags- og tryggingamálaráðuneytið standa fyrir sérfræðingafundi með fulltrúum 15 aðildarríkja Evrópusambandsins að beiðni framkvæmdastjórnar þess þar sem meðal annars verður fjallað um íslensku fæðingarorlofslöggjöfina og þátttöku íslenskra feðra í feðraorlofi.

 

Góðir gestir.

Ég vona að þessi yfirferð mín gefi einhverja mynd af þeim verkefnum sem unnið er að til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Yfirferðin er að sjálfsögðu ekki tæmandi og hefur að mestu snúist að verkefnum á sviði félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Í öðrum ráðuneytum er hins vegar einnig unnið ötullega að markmiðum áætlunarinnar eins og komið hefur fram.

Öll vitum við síðan að verkefnum á þessu sviði lýkur aldrei en það er nauðsynlegt að hafa á hverjum tíma skýr markmið að vinna eftir og reyna stöðugt að gera betur. Þannig er það hjá þeirri ríkisstjórn sem nú starfar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum