Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing verkefnisstjórnar 50+ á Akureyri

Góðir málþingsgestir.

Mér finnst stutt síðan ég flutti ávarp á einum þriggja afar fróðlegra morgunfunda verkefnisstjórnar 50+ sem haldnir voru í fyrra. Þetta var í október svo síðan eru liðnir ellefu mánuðir. Víst er þetta ekki langur tími. Samt höfum við á þessum mánuðum fengið að sjá hvað aðstæður í atvinnulífinu geta breyst hratt með afdrifaríkum afleiðingum á aðstæður fólks og fyrirtækja.

Ég man að á fundinum í fyrra bar ég fram þá spurningu til umhugsunar hvort þörf væri á verkefni eins 50+ þegar fyrir lægi að atvinnuþátttaka miðaldra og eldra fólks á Íslandi væri svo mikil að um algjöra sérstöðu væri að ræða í vestrænum samanburði, og eins væri hér mikil þensla á vinnumarkaði og eftirspurn eftir vinnuafli.

Ég svaraði þessu raunar fyrir mitt leyti og lagði áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld sýndu ábyrgð með því að horfa til framtíðar og sinna stefnumótunarstarfi í stað þess að stunda fyrst og fremst slökkvistarf og aðhafast því ekki fyrr en eldur væri kviknaður.

Það sýnir sig nú hve miklu skiptir að vera vakandi og horfa fram fyrir sig. Að greina aðstæður á hverjum tíma og reyna að hafa áhrif á framvindu mála í stað þess að bregðast við þegar í óefni er komið.

Árið 2007 var atvinnuþátttaka hér á landi um 73% meðal fólks á aldrinum 50–74 ára. Ef aðeins var horft á aldurshópinn 67–74 ára var atvinnuþátttakan rúm 24%. Við vitum að atvinnuleysi meðal miðaldra og eldra fólks hér á landi er ekki meira en annarra aldurshópa og þeir virðast síður missa vinnuna en þeir sem yngri eru.

Það er hins vegar einkennandi að missi þeir sem eldri eru vinnuna á annað borð gengur þeim verr en öðrum að fá vinnu aftur og á það sérstaklega við um þá sem eru 60 ára og eldri.

Þetta er mikið áhyggjuefni, ekki síst nú þegar harðnað hefur á dalnum í atvinnulífinu. Við þurfum því að leita allra ráða til að vinna gegn langtímaatvinnuleysi og beina sjónum okkar sérstaklega að þeim sem eru komnir yfir miðjan aldur.

Öll mismunun fólks er óheimil og það er því alveg ljóst að ekki má mismuna fólki á vinnumarkaði eftir aldri, kyni eða öðrum þáttum. Þetta er þó ekki einungis mannréttindamál. Það er einnig bráðnauðsynlegt fyrir framtíð atvinnulífsins og samfélagsins að glata ekki reynslu og verkþekkingu þeirra sem eldri eru.

Of mikil einsleitni er líka óæskileg. Rétt eins og það hefur sýnt sig að aukin þátttaka kvenna í stjórnum fyrirtækja styrkir stöðu þeirra tel ég ástæðu til að ætla að breið aldurssamsetning starfsfólks á vinnustöðum sé yfirleitt miklu fremur til þess fallin að styrkja þau en veikja. Það var mér mikið gleðiefni að heyra í vikunni að í þessum efnum virðist nýr formaður Samtaka atvinnulífsins, Þór Sigfússon, vera mér sammála.

Þegar horft er til framtíðar verðum við einnig að hafa breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar í huga. Hlutfallslega mun fólki á vinnualdri fækka eins og annars staðar í hinum vestræna heimi og þá er ein af forsendum velferðar okkar að allir sem geta og vilja fái nýtt krafta sína á vinnumarkaði, því þeirra verður örugglega þörf. Í raun er þetta eitt af mikilvægustu verkefnum vestrænna hagkerfa um þessar mundir.

Við höfum hins vegar vísbendingar um að hátt hlutfall atvinnuþátttöku Íslendinga muni minnka verði ekkert að gert, ekki aðeins vegna breyttrar aldurssamsetningar heldur einnig vegna aukinnar velmegunar, aukinna lífeyrisréttinda fólks, jafnt í almennum lífeyrissjóðum og í séreignarlífeyrissparnaði. Þessi þróun hefur þegar átt sér stað víðast hvar í löndunum í kringum okkur.

Enn sem komið er hafa Íslendingar þó sérstöðu í þessum efnum. Margar þjóðir hafa rennt öfundaraugum til Íslendinga vegna þess hve atvinnuþátttaka hér er mikil og hve fólk er lengi virkt á vinnumarkaði, en þátttaka eldri starfsmanna á vinnumarkaði er hvergi meiri í heiminum.

Á sjöunda áratugnum tóku mörg ríki að leyfa snemmtöku lífeyris til að mæta miklu atvinnuleysi. Eftirlaunaaldur hefur farið stöðugt lækkandi í Evrópu á síðustu áratugum sem bendir til þess að eftirlaun séu sífellt að hækka og að eldri starfsmönnum sé ýtt í ríkara mæli út af vinnumarkaðinum en áður.

Þetta er mjög alvarleg þróun, en ástæðurnar að baki henni eru eflaust margþættar. Afleiðingarnar eru þekktar. Eftir því sem fjölgar í hópi þeirra sem fara snemma á eftirlaun minnka skattstofnar ríkisins, þungi á lífeyriskerfin eykst og framleiðni minnkar. Okkur Íslendingum ber að skoða dæmin sem hræða, læra af þeim og gera hvað við getum til að halda í þá sérstöðu sem við höfum haft í þessum efnum.

Viðhorfskönnun meðal fólks á aldrinum 65–71 árs sem gerð var í fyrra af Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst sýndi að 53,4% eftirlaunaþega sem ekki eru í vinnu hefðu áhuga á atvinnuþátttöku ef það myndi ekki skerða lífeyri þeirra. Fleiri kannanir hafa leitt það sama í ljós og mér finnst sjálfsagt að taka slíkt alvarlega.

Við höfum tekið þetta alvarlega. Í sumar var frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega hækkað í 100.000 krónur á mánuði. Þetta var markviss aðgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að stuðla að atvinnuþátttöku þeirra sem komnir eru á lífeyrisaldur en vilja gjarna halda áfram þátttöku á vinnumarkaði.

Góðir ráðstefnugestir.

Vinnumarkaðurinn krefst sífellt meiri þekkingar. Tækniþróun er enn hröð og kröfur til endur- og símenntunar eru því miklar til að viðhalda færni á vinnumarkaði. Kannanir hafa aftur á móti sýnt að upp úr fimmtugu dregur mjög úr þátttöku fólks í sí- og endurmenntun, þótt einhverjar vísbendingar séu um að þetta sé að breytast.

Allt þetta krefst frekari skoðunar. Er það svo að fólk sækist síður eftir tækifærum til sí- og endurmenntunar þegar komið er yfir miðjan aldur, eða liggur skýringin í því að því stendur það síður til boða en því sem yngri er?

Við þurfum einnig skýringar á því hvers vegna þeim eldri gengur verr en þeim yngri að fá nýja vinnu eftir atvinnumissi. Liggur skýringin helst í viðhorfum atvinnurekenda sem sækjast fremur eftir yngra fólki eða er skýringin að einhverju leyti sú að fólk sé af einhverjum ástæðum ekki nægilega virkt í atvinnuleit sinni?

Við þurfum einnig að spyrja hvort aðstæður á vinnumarkaði séu á einhvern hátt andsnúnar þeim sem eldri eru, jafnt viðhorf og vinnustaðamenning, vinnuálag og starfskröfur. Getur verið að þjóðarsálin sé svo nýjungagjörn að mikilvæg reynsla og þekking sem eldri starfsmenn hafa aflað sér á vinnumarkaði sé ekki metin að verðleikum? Gleymum því ekki að þótt menntun sé mikilvæg kemur hún ekki í staðinn fyrir reynslu fólks.

Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar hérlendis sem erlendis sem veita svör við þessum spurningum að einhverju leyti og geta nýst við mótun stefnu og aðgerða til að styrkja stöðu eldra fólks á vinnumarkaði.

Verkefnisstjórn 50+ veit ég að hefur í störfum sínum í fyrra og á þessu ári einbeitt sér helst að aðstæðum þeirra sem eru að ljúka starfsævinni og hvaða aðgerðir séu líklegar til að bæta stöðu þess hóps.

Áhersla hefur verið lögð á sveigjanleika eins og möguleika fólks til að lækka starfshlutfall sitt fremur en að fara alveg af vinnumarkaði og að breyta um starf á vinnustað til að draga úr ábyrgð og álagi.

Vinnan er mjög stór hluti af lífi okkar flestra. Framan af aldri ver fólk tíma sínum og kröftum í að afla sér menntunar, kunnáttu og færni til að búa sig undir starfsævina og tryggja sér aðgang að starfi í samræmi við það sem hugur þess stendur til. Þegar á vinnumarkaðinn kemur verður það keppikefli flestra að takast á við æ stærri verkefni og aukna ábyrgð.

Vinnustaðurinn sjálfur skiptir fólk jafnan miklu máli, ekki aðeins starfsins vegna heldur líka félagslega. Það er þekkt að starfið sem fólk gegnir er stór hluti af sjálfsmynd hvers og eins. Með allt þetta í huga segir það sig sjálft hve mikið reiðarslag það er að missa starf, ekki síst þegar fólk hefur gegnt því lengi og afleiðingarnar fyrir einstaklinginn geta verið mjög þungbærar.

Það er allra hluta vegna mikilvægt að styrkja stöðu eldra fólks á vinnumarkaði. Því tel ég ótvírætt að mikil þörf sé fyrir verkefnið 50+ og legg áherslu á að verkefnisstjórnin starfi af krafti áfram líkt og hingað til.

Eitt stórra mála sem eru til skoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er að komið verði á fót sérstakri velferðarstofnun þar sem sameinuð yrðu á einum stað verkefni Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins. Mörg verkefni þessara stofnana eru nátengd og hafa áhrif hvert á annað. Ég nefni sem dæmi áhrif tekna á ýmsar bætur almannatrygginga.

Þegar hefur verið ráðist í aðgerðir á þessu sviði eins og afnám skerðinga bóta vegna tekna maka og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna lífeyrisþega og fjármagnstekna.

Það er ótækt að uppbygging almannatryggingakerfisins og samspil þess við atvinnutekjur fólks geti leitt til þess að fæla af vinnumarkaði fólk sem vill og getur unnið.

Örorkumat og skipulag starfsendurhæfingar er annað mál sem varðar verksvið þessara tveggja stofnana. Ég tel æskilegt og eðlilegt að velferðarþjónusta á sviði vinnumála og tryggingamála sé skoðuð og mótuð í samhengi með það að leiðarljósi að flétta saman alla þræði sem eflt geta einstaklinga og tryggt framlag þeirra til samfélagsins.

Við þurfum að nálgast þessi mál á jákvæðan og uppbyggilegan hátt þannig að geta hvers og eins sé útgangspunkturinn sem unnið er með og þá horft til þess hvernig við getum eflt hana. Þetta á við um aldraða ekki síður en aðra.

Vinnumálastofnun og Tryggingastofnun ríkisins eru þjónustustofnanir sem sinna öllum landsmönnum. Mikilvægt er að þjónustan sem þær veita sé aðgengileg, að forsendur þjónustunnar séu skiljanlegar og að markmiðin með veittri þjónustu séu uppbyggileg.

Ég sé fyrir mér eina öfluga velferðarstofnun sem veitir þjónustu sem næst íbúunum með öflugum þjónustuverum um land allt. Með þessu móti tel ég unnt að auka og bæta þjónustu, tryggja betri yfirsýn, efla faglega framkvæmd og ráðgjöf við almenning.

 

Góðir gestir.

Ég þakka verkefnisstjórn 50+ fyrir störf hennar til þessa og vona að þau verði áfram farsæl. Við þurfum á eldra fólki að halda á vinnumarkaði. Ég er viss um að eldra starfsfólk geti eimmitt verið lykillinn að velferð vinnustaða ef rétt er á málum haldið, og ég er sannfærð um að þátttaka eldra fólks á vinnumarkaði sé og verði áfram lykillinn að velferð samfélagsins.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum