Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Alþýðusambands Íslands 2008

Forseti ASÍ, ágætu ársfundarfulltrúar.

Við komum saman á þessum ársfundi ASÍ í skugga fjármálakreppu um heim allan og á örlagaríkustu tímum í sögu íslensku þjóðarinnar frá því lýðveldið var stofnað. Raunar þarf að fara enn lengra aftur til að finna einhverja hliðstæðu.

Stjórnvöld, ríki og sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna róa nú lífróður við að bjarga verðmætum og verja heimili og fyrirtæki og velferðarkerfið fyrir þeim hremmingum sem þjóðin gengur nú í gegnum.

Við finnum öll fyrir óvissunni. Fjöldi landsmanna er sleginn kvíða og fólk óttast um framtíðina. Við verðum að svara þessum réttmætu tilfinningum fólks og vísa veginn fram á við. Verkefnin næstu misserin eru alveg skýr í mínum huga. Að koma á stöðugleika, forða fjöldagjaldþrotum og stórauknu atvinnuleysi og tryggja að heimili fólks verði varin eins og kostur er. Við þurfum að sýna öguð og fumlaus vinnubrögð og gefa landsmönnum trú á að við vinnum okkur út úr þessum erfiðleikum. Það skal okkur takast.

Við þurfum einnig að gera okkur grein fyrir því að mikill sársauki, vantrú og reiði bærist með fólki, ekki síst vegna þeirra fjárhagslegu áfalla sem það hefur orðið fyrir. Fjármálakerfið er rúið trausti.

Það verður mikið og erfitt verkefni að græða sár undangenginna vikna og endurreisa traust fólks á bankakerfinu og yfir höfuð, sparnaði í landinu.

Fólk sem séð hefur sparnað sinn brenna upp nánast á einni nóttu lætur ekki segja sér að nú sé allt breytt, öðruvísi, en að allt breytist í raun. Við þurfum nýjar leikreglur, nýja stjórnendur og nýtt verklag og hugmyndafræði í allri þjónustu fjármálakerfisins gagnvart fólkinu í landinu.

Jóhanna ávarpar ársfund ASÍ 2008Góðir ársfundarfulltrúar.

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu höfum við af kappi reynt að undirbúa okkur vel undir það sem framundan er.

Á sviði vinnumarkaðsmála þurfum við að berjast við atvinnuleysið og koma með markvissar tillögur bæði til varnar og sóknar. Þegar hefur samráðsnefnd félags- og tryggingamálaráðuneytisins og aðilar vinnumarkaðarins mótað athyglisverðar tillögur til að koma til móts við breyttar aðstæður á vinnumarkaði. Þessar tillögur eru í samræmi við þau skilaboð forystu atvinnulífsins um að atvinnurekendur skoði að lækka starfshlutfall starfsmanna sinna fremur en að grípa til uppsagna.

Hugmyndin er að bæta launafólki betur en áður þá launaskerðingu sem það kann að verða fyrir þegar atvinnurekandi óskar eftir breytingum á ráðningakjörum í formi lægra starfshlutfalls. Tillögurnar felast meðal annars í að tímabilið sem tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar fyrir geti lengst hlutfallslega þegar launafólk sækir um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli.

Jafnframt fela þessar tillögur í sér að þær tekjur sem launamaður heldur fyrir hlutastarf sitt kemur ekki til með að skerða atvinnuleysisbæturnar eins og verið hefur.

Tillögurnar geta því haft þau áhrif að starfsmaður í fullu starfi geti minnkað starfshlutfall sitt um allt að 50% vegna samdráttar í fyrirtæki sem hann vinnur hjá og þegið í allt að sex mánuði 50% tekjutengdar atvinnuleysisbætur að hámarki um 110 þúsund krónur án þess að laun hans komi til skerðingar þeirrar fjárhæðar. Gert er ráð fyrir að þessar tillögur, verði þær að lögum, verði endurskoðaðar fyrir 1. maí næstkomandi.

Enn fremur liggja fyrir tillögur um að draga úr þeim áhrifum sem ákvarðanir vinnuveitenda um skerðingu á starfshlutfalli kunni að hafa áhrif á tekjutengdar bætur í velferðarkerfinu, svo sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og Ábyrgðarsjóði launa.

Ég mun kynna þessar hugmyndir á fundi ríkisstjórnar á morgun, en þær eru til þess fallnar að hvetja fyrirtæki sem sjá fram á tímabundinn samdrátt í starfsemi sinni til að hagræða án uppsagna þannig að fólk geti áfram verið virkt á vinnumarkaðnum, þrátt fyrir miklar þrengingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja.

Vinnumálastofnun er einnig með markvissum hætti að vinna að því að treysta stoðir ýmissa vinnumarkaðsaðgerða og kortleggja umfang vandans sem við er að glíma. Í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins er mikilvægt að efla starfsmenntamálin og starfsendurhæfingarúrræði og þar hefur ASÍ haft mikið til málanna að leggja.

Mikilvægt er að tryggja að þær aðstæður sem nú eru uppi leiði ekki til mismununar á vinnumarkaði og að slegin sé skjaldborg utan um þá sem höllustum fæti standa á vinnumarkaðnum og atvinnuleysi getur bitnað harðast á.

Þetta á til dæmis við um eldra fólk, starfsmenn með skerta starfsgetu og erlenda starfsmenn. Í þessum efnum hefur verkalýðshreyfingin svo sannarlega staðið vaktina með stjórnvöldum – og þar þurfum við sannarlega að taka höndum saman.

Í húsnæðismálum hafa þegar verið kynntar margvíslegar aðgerðir, bæði fyrir fólk sem komið er í vanskila- eða nauðungarsöluferli og ýmsar forvarnaraðgerðir fyrir þá sem eru lentir í greiðsluerfiðleikum.

Þar skiptir miklu máli frysting innlendra og erlendra lána og niðurfelling stimpilgjalda af skuldbreytingarlánum. Áfram vinnum við síðan að frekari lausnum til að vernda betur fjölskyldur landsins.

Ég geri mér grein fyrir að margir hafa áhyggjur af verðtryggðu lánunum og hef ég í dag skipað fimm manna sérfræðingahóp sem falið verður að skoða hvort og þá hvaða leiðir eru færar í því efni. Ábyrgðarlaust er að kasta fram einhverjum fullyrðingum um að það sé hægt. Það mál er mjög vandmeðfarið og fyrirfram er ekki hægt að gefa sér hvort við komust niður á raunhæfa lausn í því máli.

Ég get aðeins fullvissað ykkur um eitt – allt verður skoðað. Þegar hefur þó verið innleitt að heimilt er vegna greiðsluerfiðleika að greiða einungis vexti og verðbætur af vöxtum en ekki höfuðstól í tiltekinn tíma. Það getur auðveldað mönnum að komast í gegnum erfiða tíma, þó ekki dragi það úr vexti lánsins til langframa.

Þá er hópur á mínum vegum að kanna hvort mögulegt verði, í samráði við sveitarfélög, að leigja fólki íbúðir sem það kann að missa vegna atvinnuleysis og of hárrar greiðslubyrði. Markmiðið er að koma í veg fyrir að fjölskyldur sem verða fyrir fjárhagslegu áfalli þurfi að yfirgefa heimili sín ef þess er nokkur kostur.

Ýmsar aðrar aðgerðir eru einnig í skoðun, til dæmis að heimildir til að skuldajafna vaxtabótum og barnabótum á móti opinberum gjöldum og meðlagsskuldum verði felldar niður tímabundið. Jafnframt eru aðgerðir í skoðun til að milda innheimtuferli hjá innheimtumönnum ríkissjóðs, auk aðgerða til að bregðast við vanda námsmanna.

Í síðustu viku beindi ríkisstjórnin þeim tilmælum til ríkisbankanna þriggja að heimila frystingar erlendra lána og beita sömu úrræðum og Íbúðalánasjóður vegna þeirra sem eru með bankalán og eiga í greiðsluerfiðleikum.

Ekki verður liðið að stjórnendur bankanna hunsi þessi fyrirmæli ríkisstjórnarinnar eins og fréttir síðustu daga gætu bent til. Viðskiptaráðherra hefur nú þegar áréttað mikilvægi þessa gagnvart stjórnum og stjórnendum bankanna. Í mínum huga er þetta fyrsta prófraun nýju bankanna á breytt viðhorf og breytt vinnubrögð.

Mikilvægt er líka að sem fyrst verði farið í að flytja íbúðarlán bankanna til Íbúðalánasjóðs og hefja undirbúning að nýju framtíðarskipulagi húsnæðismála á Íslandi. Þar þurfum við meðal annars að velta fyrir okkur hvernig aðkomu eða umsýslu nýju bankanna að húsnæðiskerfi landsmanna verði háttað. Þar getur reynsla undanfarinna ára kennt okkur ýmislegt.

 

Góðir ársfundarfulltrúar.

Ég geri mér fulla grein fyrir að lífeyrissjóðirnir eins og aðrir lenda í skakkaföllum vegna þessara hremminga og forsvarsmenn lífeyrissjóðanna reyna nú allt hvað þeir geta til að lágmarka þann skaða sem lífeyrissjóðirnir verða fyrir.

Skellurinn lendir vissulega mismunandi á lífeyrissjóðunum en þrátt fyrir skakkaföllin verður að telja að þeir standi áfram traustir.

Ég vil árétta hér að aldrei eins og nú þurfa lífeyrisþegar á því að halda að samhjálpargildi lífeyrissjóðanna séu virk. Aldrei eins og nú er mikilvægt að við setjum okkur áætlun um uppbyggingu á traustu almannatrygginga- og lífeyriskerfi og komum í veg fyrir ósanngjarnar víxlverkanir milli lífeyrissjóðanna og almannatrygginga.

Það er skylda bæði stjórnvalda og forsvarsmanna lífeyrissjóðanna að lágmarka eins og kostur er þann kvíða og ótta sem nú er hjá lífeyrisþegum.

Ég heiti á okkur öll að finna saman leiðir til að verja eins og kostur er kjör lífeyrisþega, ekki síst þeirra sem höllum fæti standa.

Það er einnig ástæða til að nefna á þessari stundu að það er líka skylda stjórnvalda að svara því kalli þjóðarinnar að ná fram meira jafnræði í lífeyrisgreiðslum landsmanna.

Aldrei eins og nú hefur verið brýnna að afnema þau forréttindi ráðamanna að geta haldið bæði háum lífeyrisgreiðslum á sama tíma og þeir halda fullum launum á kostnað skattgreiðenda.

Það er auðvitað hrein ósvífni við núverandi aðstæður að halda þessu áfram.

 

Góðir ársfundarfulltrúar.

Það er ekki bara nýfrjálshyggjan sem beðið hefur skipbrot, það er ekki bara peningastefnan sem beðið hefur skipbrot, siðferðisvitund alltof margra hefur blindast vegna græðgisvæðingar.

Ákall þjóðarinnar við þessar aðstæður hlýtur að vera á breytt gildismat, endurreisn á grunn- og siðferðisgildum í samfélaginu, nýtt verðmætamat á störfum fólks á vinnumarkaði á auðvitað að vera þáttur í enduruppbyggingu á íslensku samfélagi.

Það er að minnsta kosti von mín að þessi hrikalega dýrkeypta reynsla verði lærdómur um það að hverfa frá því einstaklingshyggjusjónarmiði að hver sé sjálfum sér næstur, að stærra hús, stærri bíll, snekkjur og einkaþotur séu ekki þau verðmæti sem mestu máli skipta.

Með stjarnfræðilegum ofurkjörum slitu menn sig í raun úr siðferðilegu sambandi við þjóðina og með ótrúlegum kaupréttarsamningum fóru stjórnendur bankanna fram í útrásinni af alltof miklum glannaskap, þar sem spilað var djarft með almannafé.

Af þessu verða allir að læra, og þar skiptir máli að hóflega sé farið í kjörum stjórnenda nýju bankanna, þannig að þjóðinni misbjóði ekki. Mín skoðun er sú að of langt hafi verið gengið við ákvörðun um kjör nýrra bankastjóra og ekki síst þegar kjararýrnun er framundan. Ég hefði viljað sjá að þar hefði verið farið varlegar af stað en raun ber vitni nú þegar við þurfum að gæta hófs og vinna okkur saman út úr erfiðleikunum.

Fólk vill breytingar á samfélaginu. Ég spyr því, eiga skilaboðin nú til þjóðarinnar að vera þau að hæstu launagreiðslur í öllu stjórnkerfinu eigi að vera laun bankastjóra?

Nei, auðvitað ekki, þessu verður að breyta.

 

Ágætu ársfundargestir.

Ég óska ykkur velfarnaðar í mikilvægum störfum ykkar á erfiðum tímum og heiti ykkur stuðningi míns ráðuneytis í öllu því sem framundan er til að vinna okkur út úr erfiðleikunum.

Grétar Þorsteinsson lýkur nú tólf ára farsælum ferli sínum sem forseti ASÍ. Ég vil þakka Grétari einstaklega gott samstarf fyrr og síðar. Það hefur verið ánægjulegt að takast á við erfið úrlausnarefni með hann í forystu ASÍ.

 

Í lokin þetta.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi verðum við að vera sterk saman og þá munum við sem þjóð koma sterkari út úr þessum hremmingum.

Við eigum hvorki að láta vonleysi eða doða ná yfirhöndinni. Við verðum að trúa ákveðið á að við getum breytt stöðunni okkur öllum í hag. Og það mun okkur takast.

Við verðum öll sem eitt að tryggja stoðir velferðarkerfisins og atvinnulífsins í því björgunar- og endurreisnarstarfi sem nú er framundan.

Það skuldum við afkomendum okkar og komandi kynslóðum.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum