Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. október 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um fjölskyldumál á Íslandi

Góðir fundarmenn.

Höfum við hagsmuni barna að leiðarljósi er spurning þessa málþings. Svörin eru trúlega á ýmsa vegu því aðstæður barna og fjölskyldna þeirra eru margvíslegar og ólíkar. Um það verður líka fjallað í dag. En við getum öll verið sammála um að nú sem aldrei fyrr verðum við að gæta vel að hagsmunum barna.

Við lifum á vályndum tímum. Í einu vetfangi höfum við misst fótanna meðal þeirra þjóða sem best eru settar í veröldinni. Ein ríkasta þjóð í heimi berst nú í bökkum og hvert einasta mannsbarn á Íslandi lifir í óvissu um hvað framtíðin muni bera í skauti sér.

Raunveruleikinn blasir auðvitað ekki eins við öllum og staða fólks er misjafnlega erfið. En það þarf ekki að ganga að því gruflandi að ekki síst barnafjölskyldur eiga nú margar um sárt að binda þar sem fyrirvinnur hafa tapað atvinnunni og fjárhagsskuldbindingar vaxa fólki yfir höfuð.

Börn eru jafnan næm á umhverfi sitt og skynja áhyggjur annarra og erfiðleika jafnvel betur en fullorðið fólk. Þau hafa hins vegar hvorki þroska né forsendur til að skilja eðli vandamála eða mögulegar afleiðingar þeirra. Hættan er sú að þau upplifi öryggisleysi og kvíða vegna aðstæðna sem þau óttast en skilja ekki.

Áttunda október síðastliðinn sendu ráðuneyti félags- og tryggingamála, menntamála og heilbrigðismála út yfirlýsingu undir yfirskriftinni Hugum að velferð barna vegna þeirra erfiðu tíma sem nú eru. Að yfirlýsingunni stóðu einnig Barnaverndarstofa, Landlæknir, Lýðheilsustöð, Umboðsmaður barna, Barna- og unglingageðdeild Landspítala og Vinnueftirlitið.

Ég nota tækifærið hér til að rifja upp meginefni þessarar yfirlýsingar. Áhersla er lögð á jákvæðar samverustundir barna með fjölskyldunni, að viðhalda venjum og festu í daglegu lífi fjölskyldunnar, að veita börnum jákvæða athygli og hlýju, skýra fyrir þeim að erfiðleikarnir séu tímabundnir og að þeirra nánustu séu ekki í hættu. Þetta skiptir mjög miklu máli og mikilvægt er að taka þessar ábendingar alvarlega.

Góðir fundarmenn.

Samsetning fjölskyldna og fjölskylduform hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Við þekkjum fráskilda foreldra með sameiginlega eða skipta forsjá barna sinna, flókið fjölskyldumynstur þar sem hjón með börn eiga bæði annað hjónaband að baki og börn frá fyrra hjónabandi, stjúpforeldra, einstæða foreldra, forsjárlausa foreldra og áfram má telja.

Áherslur þessa málþings beinast að aðstæðum barna eftir mismunandi fjölskyldugerðum, út frá félagslegri, fjárhagslegri og lagalegri stöðu. Í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og ungmenna skipaði ég nefnd til að fjalla um stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og réttarstöðu barna þeirra. Nefndin var skipuð á þeim forsendum að skoða þyrfti hvort löggjöf og stofnanir samfélagsins hefðu ekki tekið breytingum sem skyldi í samræmi við fjölbreyttara fjölskylduform en áður.

Í samfélaginu togast á viljinn til að jafna stöðu foreldra í uppeldishlutverkinu og sú staðreynd að foreldrar búa í æ ríkari mæli hvorir í sínu lagi. Því þarf að skoða hvort næg áhersla sé lögð á hagsmuni barnsins samhliða áherslu á jafnrétti foreldranna við þessar breyttu aðstæður. Skoða þarf hvort ákvæði barnalaga um lausn ágreiningsmála og um forsjá og umgengni mæti þörfum og hagsmunum barna og foreldra. Við þurfum að vita hvaða áhrif sameiginleg forsjá foreldra hefur á líðan barna og stöðu þeirra að öðru leyti. Þetta eru stórar spurningar sem við verðum að leitast við að svara þannig að lögin byggi á þeim veruleika sem við búum við.

Ágúst Ólafur Ágústsson er formaður nefndar um einstæða og forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra og réttarstöðu þeirra og mun fjalla um störf hennar hér á eftir. Þar hefur hann stýrt góðu starfi. Nefndin mun halda áfram á sömu braut og ég býst við vönduðum tillögum nefndarinnar til úrbóta. Svo kann að fara að vegna efnahagsástandsins verði þungt fyrir fæti að hrinda þeim öllum í framkvæmd eins fljótt og við helst myndum vilja. Ég undirstrika samt að áfram verður unnið og eins má ætla að ýmsar úrbætur sé hægt að gera án þess að kosta þurfi til miklu fé.

Málefni fjölskyldunnar og málefni barna voru sett í öndvegi við upphaf samstarfs ríkisstjórnarflokkanna. Alþingi samþykkti þá aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Verkefnin spanna vítt svið og heyra undir ábyrgð félags- og tryggingamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis sem vinna að þeim í sameiningu.

Vegna verkefna sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneytið nemur raunaukning fjár til málaflokksins um 45% frá því að ríkisstjórnin tók við, sem svarar um 500 milljónum króna. Þá hafa barnabætur verið hækkaðar en aukin útgjöld vegna þess eru utan við þessa fjárhæð.

Í þingsályktun frá síðastliðnu vori um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum er kveðið á um fjölmörg verkefni á sviði barnaverndarmála, þau tímasett og kostnaðarmetin. Að öllum þessum verkefnum er unnið. Meðal mikilvægra verkefna nefni ég endurskoðun barnaverndarlaga en starfshópur sem ég skipaði í vor vinnur nú að og á að skila tillögum sínum í lok þessa árs. Hópnum er ætlað að meta reynslu gildandi laga, fjalla um hverju þurfi að breyta í barnaverndarstarfi án lagabreytinga og eins hvaða breytingar þurfi að gera á gildandi barnaverndarlögum. Hópurinn hefur til sérstakrar skoðunar hvernig staðið er að vistun barna utan heimilis og hvort þar þurfi einhverju að breyta.

Góðir fundarmenn.

Óhófleg neysla áfengis og annarra vímuefna helst iðulega í hendur við önnur félagsleg vandamál, þótt erfitt geti verið að greina hvað er orsök og hvað afleiðing. Samráðsnefnd um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna var falið að móta forvarnaáætlun til að sporna gegn vímuefnaneyslu og í fjárlögum hefur verið gert ráð fyrir allnokkru fé til slíkra verkefna.

Ég tel nauðsynlegt að staldra sérstaklega við þetta efni í ljósi gjörbreyttra aðstæðna í samfélaginu sem nú blasa við. Ótti, vanmáttur og öryggisleysi býður hættunni heim. Jafnframt því að tryggja eins og kostur er meðferðarúrræði fyrir börn og fjölskyldur í vanda er mikilvægara en nokkru sinni að sinna markvissum forvörnum til að sporna við misnotkun áfengis og annarra vímuefna.

Það má ekki gleymast í yfirstandandi þrengingum að fjölskyldan í sínum fjölbreyttu myndum er ein helsta grundvallarstoð samfélagsins. Stjórnvöldum er skylt að huga að velferð hennar og ég mun gera mitt til að halda þeirri áherslu á lofti.

Mikilvægar breytingar voru gerðar í sumar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Aðalmarkmið breytinganna var að tryggja að tekjur sem liggja til grundvallar orlofsgreiðslum endurspegli sem best tekjur foreldra við upphaf fæðingarorlofs og eyða þeirri mismunun sem fólst í eldri lögum þar sem verulega gat munað á fjárhæðum greiðslna til foreldra eftir því hvort barn þeirra fæddist 31. desember eða 1. janúar. Þá var forsjárlausum foreldrum í fyrsta skipti veittur réttur til fæðingarstyrks. Einnig voru heimildir foreldra til að flytja réttindi til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks sín á milli rýmkaðar.

Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega barna tóku mikilvægum breytingum í fyrra til að koma betur til móts við þennan hóp fjárhagslega. Foreldrum sem höfðu verið á vinnumarkaði áður en barn greindist voru tryggðar tekjutengdar greiðslur í allt að sex mánuði, en svo hafði ekki verið áður. Þá var tryggt að allir foreldrar langveikra eða fatlaðra barna öðluðust rétt til bóta vegna verulegrar umönnunar barna sinna, óháð fyrri atvinnuþátttöku. Síðast en ekki síst var eytt þeirri mismunun sem áður hafði verið þar sem réttur til greiðslna tók mið af því hvenær barn greindist.

Möguleikar fólks til að afla sér húsnæðis vega þungt og eins skiptir miklu hvernig bótakerfið er nýtt til að styðja við bakið á barnafjölskyldum. Með þetta í huga voru barnabætur hækkaðar og nemur hækkunin á þessu ári að meðaltali um 8% á hverja fjölskyldu miðað við árið 2007.

Húsaleigubætur voru hækkaðar umtalsvert í vor en þær höfðu þá ekki hækkað neitt í sjö ár. Þessi hækkun, ásamt hækkun sérstakra húsaleigubóta og aðkomu ríkisins að þeim, var sérstaklega hugsuð til að bæta stöðu lágtekjufólks á leigumarkaði. Vitað er að einstæðir foreldrar eru fjölmennir í þeim hópi.

Ákvörðun um afnám brunabótaviðmiðs vegna húsnæðislána var ætluð til að auðvelda ungum barnafjölskyldum að koma sér þaki yfir höfuðið, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Sama máli gegnir um afnám stimpilgjalda við kaup á fyrstu íbúð. Þá var ákveðið að fjölga félagslegum leiguíbúðum um 3.000 á fjórum árum en þær íbúðir eru með niðurgreiddum vöxtum sem munar miklu fyrir fólk með litla greiðslugetu.

Góðir gestir.

Á liðnu ári hefur verið hrint í framkvæmd margvíslegum aðgerðum til að bæta stöðu barna og barnafjölskyldna og ýmsar ákvarðanir hafa verið teknar um frekari úrbætur sem ekki eru komnar til framkvæmda.

Á síðustu misserum hefur verið sótt fram af krafti til að efla og bæta velferðarkerfið og styrkja stöðu þeirra sem verst hafa verið settir. Gjörbreyttar aðstæður vegna efnahagshrunsins neyða okkur úr sókn í vörn. Verkefnin framundan munu snúast um að standa vörð um þær úrbætur sem hafa náðst, jafnframt því að grípa til sérstakra úrræða til að verja heimilin og fjölskyldurnar í landinu, líkt og ég kynnti á þingi Alþýðusambands Íslands fyrir helgi.

Ýmis gildi sem hafa verið í hávegum höfð í samfélaginu síðustu ár þurfa endurskoðunar við. Við þurfum öll að skoða hug okkar og velta því alvarlega fyrir okkur hvaða gildi eru okkur og samfélaginu mikilvægust til framtíðar. Þar tel ég óumdeilanlegt að samhjálp, velferð fjölskyldna og hagsmunir barna skuli vega þungt.

Góðir fundarmenn.

Sjaldan er jafnbrýnt og nú að foreldrar standi saman að velferð barna sinna. Hver svo sem fjölskyldugerðin er þá er það þekkt staðreynd að gott samkomulag foreldra er eitt af aðalatriðum þess að barni líði vel og búi við þroskavænleg uppeldisskilyrði. Það er rík skylda foreldra og uppalenda að láta ekki deilur og ósamkomulag bitna á börnum. Því er mikilsvert að skapa aðstæður og lagalegt umhverfi sem setur hagsmuni barna ávallt í forgang þótt breytingar verði á fjölskylduhögum, til dæmis vegna skilnaðar foreldra eða af öðrum ástæðum.

Ég þakka að lokum skipuleggjendum málþingsins fyrir sína vinnu og er fullviss um að það verði til gagns. Við skulum halda ótrauð áfram vinnu að velferðarmálum og sjá til þess að ekki verði stöðnun í málaflokkum eins og þeim sem hér er til umræðu. Staða fjölskyldunnar í öllum sínum fjölbreyttu myndum varðar mikilvæga hagsmuni þar sem við verðum að gæta réttlætis og jafnræðis fjölskyldna, börnum og fjölskyldum þeirra til handa.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum