Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tíu ára afmæli Barnahúss

Góðir gestir.

Það er ánægjuleg stund milli stríða að vera boðið í afmæli og það hjá svo myndarlegu afmælisbarni sem hér um ræðir.

Barnahús er tíu ára í dag og ég verð að segja að það hefur þroskast ótrúlega vel á svo skömmum tíma.

Húsið var stofnað að frumkvæði Barnaverndarstofu í því skyni að tryggja barnvænlegt umhverfi við rannsókn kynferðisbrota gegn börnum, tryggja börnunum fjölþætta og sérhæfða meðferð og foreldrum þeirra viðeigandi stuðning. Fyrirmyndin að Barnahúsi var sótt til Bandaríkjanna en starfsemin byggist á þverfaglegu samstarfi þeirra sem koma að málum af þessu tagi með hagsmuni barna að leiðarljósi. Og þannig var lagt upp með stofnun Barnahúss fyrir tíu árum með aðkomu embættis ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra, Landspítala, Lögreglunnar í Reykjavík, Barnaverndar Reykjavíkur, Samtaka félagsmálastjóra á Íslandi auk Barnaverndarstofu.

Það eru alvarleg mál sem koma til kasta Barnahúss, einhver þau alvarlegustu sem um ræðir á sviði barnaverndar. Mikið er í húfi þegar grunur vaknar um að kynferðisbrot hafi verið framið gegn barni að vel sé staðið að rannsókn þess og að álag á barnið sem slíkri rannsókn fylgir sé takmarkað eins og nokkur kostur er. Þetta eru meginmarkmiðin með starfsemi Barnahúss og því fylgir að byggja upp sérfræðiþekkingu og skilning á meðferð þessara mála. Rannsókn kynferðisbrota gegn börnum er erfið fyrir margra hluta sakir. Minnstu hnökrar á framkvæmd hennar geta skaðað mál verulega og orðið til þess að hið sanna kemur aldrei í ljós. Ég ætla ekki að fjölyrða um afleiðingarnar. Allir hér vita hve mikið er í húfi og hve mikils virði það er þess vegna að allir sem koma að þessum málum hafi til að bera haldgóða þekkingu og færni.

Eins og vænta má með starfsemi sem krefst samstarfs ólíkra kerfa eins og um ræðir í Barnahúsi hefur ekki verið komist hjá deilum eða öllu heldur ákveðinni togstreitu og á ég þar við fyrirkomulag við skýrslutökur fyrir dómi. Ég ligg ekki á þeirri skoðun minni að skýrslutökur af börnum eiga að fara fram í Barnahúsi, ekki í dómshúsi. Þar eru fyrir hendi allar bestu aðstæður og sérfræðiþekking til að leysa skýrslutöku vel af hendi og uppfylla jafnframt öll skilyrði dómsathafnar að öðru leyti.

  

Góðir gestir.

Barnahús hefur svo sannarlega sannað gildi sitt á þeim tíu árum sem það hefur starfað. Ég tel ótvírætt að verulegur árangur hafi náðst við rannsókn og meðferð þessara alvarlegu mála. Fagleg umræða hefur aukist og faglegar kröfur sömuleiðis. Starfsemi Barnahúss hefur átt ríkan þátt í því að draga umræðu um þessi alvarlegu mál upp á yfirborðið. Eins er hafið yfir vafa að með þessu úrræði hafa fleiri þolendur og aðstandendur þolenda séð leið til þess að stíga út úr myrkrinu og leita sér aðstoðar en ella hefðu gert.

Starfsemi Barnahúss á Íslandi vakti fljótt athygli út fyrir landsteinana og hróður þess barst víða. Um það vitna ýmsar viðurkenningar sem Barnahúsi hafa hlotnast erlendis, fjöldi erlendra gesta sem þar hefur komið til að kynna sér starfsemina og síðast en ekki síst stofnun Barnahúsa í Svíþjóð og Noregi með íslenska Barnahúsið að beinni fyrirmynd.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, var óþreytandi á sínum tíma í baráttu sinni fyrir stofnun Barnahúss. Hann var sannfærður um að með því yrði stigið stórt framfaraskref í barnavernd á Íslandi og ég er viss um að flestir sem til þekkja deili þeirri skoðun með honum í dag. Um leið og ég þakka honum fyrir þrautseigjuna vil ég líka þakka fyrir góð störf Vigdísi Erlendsdóttur sem var forstöðumaður Barnahúss í níu ár, allt frá upphafi þar til í fyrra og stýrði þannig þróun og uppbyggingu starfseminnar í samvinnu við annað fagfólk og starfsfólk hússins. Forstöðumaður nú er Ólöf Ásta Farestveit sem réðist fyrst sem sérfræðingur til hússins á sínum tíma. Hún þekkti því vel til starfseminnar þegar hún tók við starfi forstöðumanns sem hún gegnir með sóma.

Einn mikilvægra þátta í starfsemi Barnahúss eru læknisskoðanir sem þar fara fram í sérútbúinni aðstöðu sem þar er fyrir hendi, því öll umgjörð hússins miðast við að hægt sé að leysa á einum stað þau verkefni sem vinna þarf við meðferð mála til að draga eins og kostur er úr álagi þolendanna. Jón R. Kristinsson, barnalæknir á Landspítala, hefur sinnt læknisskoðunum við húsið frá upphafi til þessa dags og eins hefur Kristín Einarsdóttir hjúkrunarfræðingur starfað við skoðanir frá upphafi. Það er ómetanlegt fyrir starfsemina að hafa notið sérfræðiþekkingar þeirra tveggja svo lengi. Þá er ekki síður mikilvægur sá áhugi og sú velvild sem þau hafa sýnt velgengni hússins og sama máli gegnir um fleira gott fólk Landspítala, lækna og hjúkrunarfræðinga, sem komið hefur að starfinu til lengri eða skemmri tíma.

 

Góðir gestir.

Afmæli eru hátíðir og tilefni til að fagna tímamótum. Við skulum því njóta þess í dag að vera stolt af Barnahúsi og starfsemi þess. Starfsfólk Barnahúss og aðrir sérfræðingar sem hér eru og koma að þessum málum vona ég að njóti stundarinnar í dag alveg sérstaklega og gleymi amstri dagsins stutta stund. Það segir sig sjálft að því hlýtur að fylgja gífurlega mikið andlegt álag að helga sig starfi þar sem fengist er við jafn vandasöm og átakanleg mál og hér um ræðir.

Ég óska starfsmönnum Barnahúss og öllum sem með þeim starfa að vandasömum verkefnum Barnahúss til hamingju með daginn og óska þeim og starfseminni velfarnaðar.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum