Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. nóvember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Styrkir til atvinnumála kvenna

Ráðherra afhendir styrki til atvinnumála kvennaGóðir gestir.

Í september síðastliðnum fékk ég tækifæri til að segja nokkur orð þegar opnuð var ný heimasíða um atvinnustyrki kvenna. Eins og ég rifjaði upp þá var upphaflega stofnað til verkefnisins árið 1991 sem var í fyrri ráðherratíð minni í félagsmálaráðuneytinu. Á þeim tíma var atvinnuleysi töluvert meðal kvenna og voru styrkirnir ætlaðir sem mótvægisaðgerðir og tækifæri fyrir konur til að hrinda í framkvæmd viðskiptahugmyndum með því að bæta aðgang þeirra að fjármunum.

Atvinnuleysi hefur ekki verið vandamál hér á landi um alllangt skeið en nú hefur orðið breyting á því. Sem betur fer hefur gott atvinnuástand liðinna ára ekki orðið til þess að draga úr áhuganum á þessu verkefni. Það hefur sýnt sig að konur sjá í þessu tækifæri til að láta viðskiptahugmyndir rætast og ég veit að mörg snjöll verkefni hafa orðið að raunveruleika vegna atvinnustyrkjanna, samfélaginu öllu til góðs. Í ljósi þessa lagði ég mikla áherslu á fé í sjóðinn til atvinnustyrkja kvenna yrði stóraukið á þessu ári. Undanfarin ár hafa verið til ráðstöfunar á ári hverju á bilinu 15–20 milljónir króna en á þessu ári eru veittir styrkir fyrir samtals 50 milljónir króna.

Nú bregður svo við að uppgangstími síðustu ára er að baki. Nánast í einu vetfangi stöndum við frammi fyrir miklu og vaxandi atvinnuleysi við aðstæður sem við sjáum ekki fyrir endann á. Við stöndum á tímamótum og það mun krefjast mikils átaks að byggja upp blómlegt og gott atvinnulíf á nýjan leik. Kannski eigum við eftir að sjá ný tækifæri og aðrar áherslur en verið hafa síðustu ár í atvinnulífinu, með aukinni áherslu á hugvit, nýsköpun og fjölbreytni.

Neyðin kennir naktri konu að spinna hefur oft verið sagt og það er jafnan svo með gömul og góð orðatiltæki að á bak við þau liggur raunhæf speki, byggð á reynslu. Þetta er ég sannfærð um að verði raunin með íslenskt samfélag. Þjóðin er vel menntuð, vel upplýst og hér er mikill fjöldi fólks sem hefur aflað sér reynslu, þekkingar og sambanda á sviði rekstrar, vöruþróunar og margvíslegra viðskipta, bæði hérlendis og erlendis. Við höfum því allt til að bera sem gerir samfélaginu kleift að rétta fljótt úr kútnum ef við spilum vel úr því sem við höfum á hendi.

Ég hef nefnt það áður og vísað til rannsókna í því samhengi að konur eru varfærnari í fjármálum en karlar. Það hefur sýnt sig að konur stofna síður til skulda, þær fara rólegar af stað í upphafi viðskipta, leggja minna upp úr yfirbyggingu í rekstri og sýna oft meiri hagsýni en karlar. Þá hafa niðurstöður rannsókna sýnt að minni líkur eru á að fyrirtæki þar sem konur eru í stjórn lendi í alvarlegum vanskilum og jafnframt að fyrirtæki eru alltaf líklegri til að lenda í vanskilum þar sem engar konur eru í stjórn. Loks nefni ég rannsókn sem unnin var á vegum Finnsku atvinnulífsnefndarinnar og sýndi að fyrirtæki undir stjórn kvenna skila 10% meiri arði en fyrirtæki undir stjórn karla. Rannsóknin náði til 14.000 fyrirtækja sem öll voru með fleiri en 10 starfsmenn. Allt eru þetta mikilvægar upplýsingar sem ég tel vert að vinna með. Þetta sýnir að samfélaginu er mjög mikilvægt að nýta krafta kvenna mun betur í atvinnulífinu en hingað til hefur verið gert.

Góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að vera hér í dag við afhendingu styrkja til atvinnusköpunar kvenna. Tæplega 250 umsóknir bárust um styrki að þessu sinni til fjölbreyttra verkefna og ég veit að ráðgjafarhópnum sem fór yfir umsóknirnar hefur verið vandi á höndum að meta þær, velja og hafna. Ákveðin skilyrði liggja til grundvallar styrkveitingu. Verkefnið þarf að vera hið minnsta að helmingi til í eigu konu eða kvenna. Það þarf að vera nýnæmi að verkefninu og það þarf að vera atvinnuskapandi til framtíðar. Þá má verkefnið ekki vera í beinni samkeppni við annan fyrirtækjarekstur, en við mat á því er meðal annars litið til aðstæðna á því svæði þar sem reksturinn er fyrirhugaður.

Við úthlutun styrkja í ár hljóta tíu verkefni tvær milljónir króna hvert um sig, sem er hæsta styrkveitingin til einstakra verkefna, en alls eru 56 verkefni sem hljóta styrk að þessu sinni. Tæplega helmingur styrkjanna rennur til verkefna á höfuðborgarsvæðinu en rúmur helmingur til verkefna vítt og breitt um landið. Eins og ævinlega er mikil fjölbreytni í þeim verkefnum sem hljóta styrk. Hér er um að ræða verkefni á sviði velferðarþjónustu, matvælaframleiðslu með íslensku menningarívafi, híbýlaprýði, ég nefni íslenskt búháttasafn og fræðslusetur og áfram mætti telja verkefni sem bera umsækjendum vitni um frjóan hug og sýna hvað tækifærin liggja alls staðar, það þarf bara einhver að koma auga á þau.

Ég þakka ráðgjafarnefndinni fyrir hennar störf og sömuleiðis öflugum starfsmanni verkefnisins fyrir hennar framlag, en það er mjög mikilvægt að verkefnið skuli nú vera með starfsmann og geti þannig sinnt ráðgjöf og fræðslu og aðstoðað konur sem eru að stíga sín fyrstu skref inn í viðskiptalífið.

Fyrst og fremst þakka ég öllum þeim konum sem sóttu um styrk að þessu sinni og óska til hamingju þeim konum sem hlutu styrk. Ég vona að ykkur eigi eftir að vegna vel í því að byggja upp traustan rekstur til framtíðar, með hæfilega dirfsku en þó einkum skynsemi og útsjónarsemi að leiðarljósi. Við þurfum aldrei eins og nú á að halda nýjum hugmyndum, hugviti og þekkingu til nýsköpunar og þróunar til að efla atvinnulífið. Þessi verkefni sem hér fá viðurkenningu í dag eru sannarlega veigamikill þáttur í þeirri endurreisn atvinnulífsins sem nú er framundan.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum