Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Höfum vökul augu með velferðinni

Höfum vökul augu með velferðinni

Aðstæður í samfélaginu hafa breyst ótrúlega hratt á síðustu mánuðum. Fyrirtæki sem voru ágætlega stödd berjast í bökkum, atvinnuleysi sem var nánast óþekkt er nú mikið og vaxandi og æ fleiri einstaklingar og fjölskyldur eiga við greiðsluerfiðleika að stríða. Ég held að fáa hafi órað fyrir að áhrifa bankahrunsins myndi gæta jafn hratt og raun ber vitni, þótt strax væri vitað að afleiðingarnar yrðu þungbærar. Nú erum við reynslunni ríkari. Við þessar aðstæður er mikilvægara en nokkru sinni að virkja velferðarkerfið eins vel og mögulegt er. Við þurfum að horfa fram á veginn, reyna að sjá fyrir aðstæður sem upp kunna að koma og takast á við verkefni áður en þau vaxa okkur yfir höfuð.

Víðtæk samvinna um velferðarvakt

Stjórnvöld þurfa í senn að sinna björgunaraðgerðum, uppbyggingu og forvarnastarfi. Ég ætla að gera forvarnastarfið að umtalsefni hér og segja frá velferðarvaktinni sem ég er nú að setja á fót í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Hlutverk velferðarvaktarinnar er að fylgjast með félagslegum og fjárhagslegum afleiðingum bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur, reyna að sjá fyrir þá erfiðleika sem líklegir eru til að mæta okkur, greina hvaða hópum fólks í samfélaginu er mest hætta búin og gera tillögur um viðbrögð og fyrirbyggjandi aðgerðir. Velferðarvaktin er í raun stýrihópur um samfélagsvöktun sem skipaður er með það í huga að ná sem víðtækastri sýn yfir samfélagið. Í hópnum munu sitja fulltrúar úr fjármálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, viðskiptaráðuneyti og fulltrúi félags- og tryggingamálaráðuneytisins sem leiðir starfið. Einnig fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bandalagi háskólamanna, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Biskupsstofu og Rauða krossi Íslands.

Varnir gegn félagslegum afleiðingum kreppunnar

Fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins ógna aðstæðum þeirra sem verst verða úti og geta haft mikil áhrif á daglegt líf foreldra og barna. Það er mikilvægt að fylgjast með þessu og skoða hvaða aðgerðir nýtast best heimilum í fjárhagsvanda. Þetta er meðal verkefna velferðarvaktarinnar en ekki síður að fylgjast með og vinna gegn félagslegum vandamálum sem geta verið mjög dulin en haft afdrifaríkar afleiðingar ef ekkert er að gert. Sem dæmi um þetta má nefna andlega vanlíðan, félagslega einangrun, misnotkun vímugjafa og ýmis heilsufarsvandamál. Þá hafa erlendar rannsóknir á afleiðingum efnahagsþrenginga sýnt hættu á auknu heimilisofbeldi og vanrækslu á börnum. Hlutverk velferðarvaktarinnar er meðal annars að gæta að framangreindum þáttum, gera tillögur um aðgerðir og samhæfa framkvæmd þeirra. Þá er henni ætlað að greina hvaða hópum í samfélaginu er sérstök hætta búin en þar á meðal eru börn og unglingar, fólk án atvinnu, fátækir, aldraðir, fatlaðir og einstæðingar. Þá þarf sérstaklega að huga að ungum fjölskyldum með börn og fjölskyldum af erlendum uppruna. Í starfi velferðarvaktarinnar verður lögð áhersla á samráð við opinberar stofnanir, félagasamtök og aðra sem hafa fjölbreytta þekkingu og innsýn í aðstæður einstaklinga og fjölskyldna. Velferðarvaktin mun gera mér reglulega grein fyrir störfum sínum og leggja fram áfangaskýrslu um miðjan mars með mati á stöðu mála.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 14. febrúar 2009



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum