Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir til bjargar heimilunum

Í grein undir fyrirsögninni Atvinnulífið og heimilin sem birtist í Morgunblaðinu sl. mánudag segir höfundurinn, Jón Baldvin Hannibalsson, að 80 daga ríkisstjórn veki væntingar og nýja von en bendir jafnframt á þá staðreynd að hún geti ekki gert kraftaverk: „Við förum hins vegar fram á það að hún segi okkur umbúðalausan sannleikann...“ skrifar hann og segir enn fremur að almenningur í landinu vænti þess að nýr félags- og tryggingamálaráðherra eyði hið fyrsta allri óvissu um það hvort ríkisstjórnin ætli að ráðast í almennar aðgerðir til bjargar heimilunum og þá hvernig. Óvissan sé verst.

Ég tek undir með Jóni að óvissa er vond og að sannleikurinn er sagna bestur. Ný ríkisstjórn hefur því lagt metnað sinn í að veita sem bestar upplýsingar um áform sín, ákvarðanir og aðgerðir til að bregðast við efnahagsvandanum og mun halda því áfram.

Hann vísar í orð Göran Perssons, fv. forsætisráðherra Svía sem kom hingað fyrir nokkrum vikum. Hann sagði þá meðal annars að Íslendingar skyldu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Launalækkun og hlutastarf væri betra en uppsögn og atvinnuleysi og hjálpa ætti þeim sem missa vinnu að setjast á skólabekk. Þetta er svo sannarlega rétt og aðgerðir stjórnvalda hafa tekið mið af þessu. Af heildarfjölda þeirra sem skráðir eru á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun eru nú um 20% í hlutastörfum en fá greiddar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli. Þá er nú unnið að því að endurskoða lánareglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að auðvelda fólki sem misst hefur atvinnuna að stunda nám.

Ný ríkisstjórn hefur nú þegar kynnt margvíslegar leiðir til að bregðast við fjárhagslegum vanda heimilanna í landinu á markvissan hátt þar sem meðal annars er leitast við að tryggja einstaklingum sem eiga í greiðsluerfiðleikum virkari úrræði til að gera þeim kleift að endurskipuleggja fjármál sín eins og frekast er unnt. Ég nefni hér frumvörp sem lögð hafa verið fram á Alþingi, svo sem frumvarp um frestun nauðungarsölu íbúðarhúsnæðis og lengingu aðfararfrests og frumvarp um greiðsluaðlögun.  Þá liggur fyrir Alþingi frumvarp um útborgun á allt að einni milljón króna af séreignarsparnaði einstaklinga sem þess óska. 

Ríkisstjórnin hefur óskað eftir því við fjármálafyrirtæki að þau framlengi frystingu húsnæðislána sem tekin hafa verið í erlendri mynt þar til fyrir liggur lausn til frambúðar á þeim vanda sem hækkun þessara lána hefur valdið heimilum í landinu. Í viðskiptaráðuneytinu er unnið að útfærslu á mögulegum lausnum, hvort sem það verður greiðslujöfnun eða einhver önnur fær leið sem léttir verulega á greiðsluvanda fólks meðan gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er eins óhagstætt og raun ber vitni.

Ég ítreka að ríkisstjórnin sem nú starfar leggur mikla áherslu á að veita fólki upplýsingar um áform sín og aðgerðir til að eyða óvissu eins og nokkur kostur er. Annað sem ríkisstjórnin leggur líka áherslu á er að gefa ekki innistæðulaus loforð um lausnir á vanda heimila eða fyrirtækja í landinu. Það væri glannaskapur að skapa með fólki væntingar um stórfellda niðurfellingu skulda heimila og fyrirtækja eða tafarlaust afnám verðtryggingar nema fyrir liggi að slíkt sé raunhæft og framkvæmanlegt og kalli ekki á önnur og enn erfiðari vandamál en við glímum þegar við. Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu verður áfram unnið af kappi að aðgerðum til bjargar heimilunum í landinu. Ég mun leggja áherslu á að upplýsa um allar aðgerðir ráðuneytisins í þessum efnum. Málin eru flókin. Því mun ég gæta þess að spara stóru orðin og ætla ekki að lofa öðru en því sem raunhæft.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum