Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra á málþingi félagsráðgjafarnema

Komið þið sæl öll og bestu þakkir til ykkar - félagsráðgjafarnemar - fyrir að standa að þessu málþingi um áhrif efnahagsþrenginga á fjölskyldur með börn. Það er brýn þörf fyrir skynsamlegar, gagnrýnar og uppbyggilegar umræður um þetta efni. Við þurfum glögga mynd af aðstæðum til að átta okkur á þeim hættum sem helst steðja að, ákveða viðbrögð og sinna fyrirbyggjandi aðgerðum.

Efnahagsástandið er mjög alvarlegt og við vitum að aðstæður margra einstaklinga og fjölskyldna, hafa breyst til verri vegar á skömmum tíma. Atvinnuleysi, þungar fjárhagsáhyggjur og óvissa hafa ekki einungis áhrif á efnisleg gæði heldur einnig almenn lífsgæði fólks, andlega líðan og heilsufar. Að einhverju leyti sjáum við afleiðingarnar strax en það getur tekið mörg ár áður en þær koma fram að fullu. Ef ekki er brugðist við í tíma geta langtímaafleiðingarnar orðið mjög alvarlegar, jafnt fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið sem heild. Sláandi dæmi um þetta höfum við frá Finnlandi. Þar kom fram stórfelld aukning örorku vegna þunglyndis á árunum 2000-2007 meðal fólks undir þrítugu og er hún rakin til kreppunnar sem brast þar á árið 1991. Ýmis önnur dæmi frá Finnlandi mætti nefna um alvarlegar langtímaafleiðingar kreppunnar á velferð barna og fjölskyldna. Ég rek þau ekki hér en tel alveg ljóst að við getum dregið margvíslegan lærdóm af reynslu Finna.

UNICEF sendi frá sér ályktun árið 2007 sem efnislega er á þennan veg: „Hin rétta mæling á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum – heilsu þeirra og öryggi, efnislegum þörfum þeirra, menntun þeirra og félagsmótun og tilfinningu þeirra fyrir að vera elskuð, virt og hluti af þeirri fjölskyldu og samfélagi sem þau fæðast til.“ Þetta tel ég að íslensk stjórnvöld eigi að hafa hugfast við forgangsröðun verkefna framundan.

Áhrif efnahagsþrenginga hafa ekki eingöngu áhrif á þá sem eldri eru. Börnin skipta hér miklu máli. Því miður hefur fjöldi barna sem eiga atvinnulausa foreldra aukist mikist. Í lok október áttu tæplega þrjú þúsund börn atvinnulausa foreldra en í lok síðasta mánaðar voru þau orðin rúmlega átta þúsund. Þar af eiga um fjögur þúsund og fjögur hundruð börn atvinnulausan föður en tæplega fjögur þúsund börn eiga atvinnulausa móður.

Þegar litið er til þess hóps sem var án atvinnu í lok janúar voru 39% með börn á framfæri sínu samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar. 75% kvenna úr þessum hópi á aldrinum 30–49 ára voru með börn á framfæri og 56% karla.

Við vitum að efnahagsþrengingar koma hvað verst niður á fjölskyldum sem búa við fátækt, veikindi eða félagsleg vandamál. Kvíði og áhyggjur geta valdið togstreitu og spennu sem dregur úr hæfni foreldra til að sinna börnum sínum. Rannsóknir hafa sýnt að bein tengsl eru milli fjárhagslegrar afkomu foreldra og andlegrar líðan barna. Vitað er að búi börn við fátækt eru þau margfalt líklegri en ella til að sýna mikil einkenni depurðar, þau fóta sig verr í skólakerfinu og þeim gengur verr í námi. Heilsufar þeirra er verra en annarra barna samkvæmt þeirra eigin upplifun, þeim hættir frekar við offitu, þau hreyfa sig minna og svona mætti áfram telja. Við vitum líka að upplausn í fjölskyldum og flókin fjölskyldutengsl vekja vanlíðan hjá börnum.

Það er því margs að gæta og þess vegna mikilvægt að byggja á því sem vel hefur verið gert annars staðar en varast vítin. Við sjálf höfum einnig mikla reynslu og þekkingu hér heima fyrir sem okkur ber skylda til að nýta. Rannsóknarsetur í barna og fjölskylduvernd er víðtækur vettvangur rannsókna á sviði félagsráðgjafar, einkum því sem lýtur að stefnumörkun, þróun og þjónustu í barna- og fjölskylduvernd. Umfangsmiklar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á högum barna og fjölskyldna. Nefni ég sérstaklega framlag Sigrúnar Júlíusdóttur á þessu sviði og Guðnýjar Bjarkar Eydal, dósents í félagsráðgjöf, en auk þeirra hafa margir fleiri lagt mikið af mörkum til rannsókna á þessu sviði sem er ómetanlegt.

Fyrir síðustu Alþingiskosningar lagði Samfylkingin hvað mesta áherslu á aðgerðir í þágu barna og barnafjölskyldna. Kynnt var ýtarleg aðgerðaáætlun undir heitinu Unga Ísland og það er ánægjulegt að segja frá því að fjölmargar tillögur um aðgerðir sem þar voru birtar byggðust að verulegu leyti á rannsóknum kennara við Háskóla Íslands, meðal annars kennurum í félagsráðgjöf. Það var augljóst að áherslur Samfylkingarinnar í þessum efnum höfðuðu til fólks því kosningarannsókn sem gerð var leiddi í ljós að kjósendur mátu aðgerðaáætlunina mest allra stefnumála flokksins.

Samfylkingin fylgdi fast eftir áherslum sínum í málefnum barna og fjölskyldna við myndun ríkisstjórnarinnar eftir síðustu kosningar. Strax á fyrstu starfsdögum sínum lagði forveri minn í félags- og tryggingamálaráðuneytinu fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Í fyrra stóð hún einnig fyrir gerð þingsályktunar um framkvæmdaáætlun ríkisins í barnaverndarmálum til næstu sveitarstjórnarkosninga. Það yrði of langt mál að telja þau verkefni sem komust til framkvæmda en nefna má styttingu biðlista eftir þjónustu Barna og unglingageðdeildar Landspítalans, mikilvægar breytingar á lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna og einnig á lögum um fæðingar- og foreldraorlof til hagsbóta fyrir nýbakaða foreldra og forsjárlausra foreldra.

Ég nefni einnig nefnd sem skipuð var í árslok 2007 og var falið að kanna fjárhagslega og félagslega stöðu einstæðra og forsjárlausra foreldra og stjúpforeldra. Nefndin starfar undir forystu Ágústs Ólafs Ágústssonar og mér er sagt að að tillögur hennar muni liggja fyrir á næstu vikum. Ég vænti mikils af starfi nefndarinnar og er viss um að tillögur hennar muni nýtast í því erfiða uppbygginarstarfi sem framundan er.

Nýlega setti ég á laggirnar sérstaka velferðarvakt, sem hefur það hlutverk að afla upplýsinga um félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar bankahrunsins á einstaklinga og fjölskyldur, afla upplýsinga um reynslu annarra þjóða af efnahagsþrengingum, kortleggja hvaða leiðir ríki, sveitarfélög og félagasamtök hafa til að bregðast við vandanum og efna til samráðs með fulltrúum opinberra stofnana, félagasamtaka og öðrum sem lagt geta af mörkum vegna þekkingar sinnar og reynslu. Hópurinn mun síðan leggja fram tillögur um aðgerðir í þágu heimilanna og samhæfa þær.

Þegar ég tala um aðgerðir í þágu heimilanna á ég ekki síst við aðgerðir í þágu íslenskra barna. Afar brýnt er að komið verði til móts við þarfir þessa hóps þannig að hagur þeirra verði ekki fyrir borð borinn vegna núverandi aðstæðna. Ég hef jafnframt í dag óskað eftir því að Rannsóknarseetur í barna og fjölskylduvernd sem starfrækt er hér við félagsráðgjafarskor, komi með tillögur til mín og velferðarvaktarinnar um það hvernig við getum staðið vörð um hagsmuni barnanna í landinu, hvaða rannsóknir séu nú nauðsynlegar og hvaða atriðum þurfi sérstaklega að huga að í þessum efnum.

Sérstökum stýrihópi er ætlað að halda utan um velferðarvaktina og þar eiga sæti fulltrúar fjölmargra aðila.

Það er vandasamt verk að ala upp börn og samfélaginu ber skylda til að veita fjölskyldum sem búa við erfiðar aðstæður sem mestan stuðning til að draga úr hættu á félagslegum vandamálum til skemmri og lengri tíma. Á þetta legg ég ríka áherslu.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, enda margir áhugaverðir fyrirlestrar framundan. Ég ítreka þakkir mínar til ykkar sem stóðuð að málþinginu og vonast til að það verði fræðandi og lærdómsríkt.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum