Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jafnrétti er mikilvægur hluti loftslagslausna

Norðurlöndin eru virk á alþjóðavettvangi. Árið 2008 samþykktu jafnréttisráðherrar Norðurlandanna að gera gangskör að því að koma jafnrétti á dagskrá alþjóðlegrar loftslagsumræðu. Þessi samþykkt var byggð á grunni hnattvæðingarstarfs Norðurlandanna og pallborðsumræðum í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna.

Í febrúar á þessu ári funduðu sérfræðingar frá norrænum samtökum og fyrirtækjum um þessi málefni í Kaupmannahöfn. Niðurstaðan er yfirlýsing með 15 tillögum um hvernig bæta má loftslagsaðgerðir með því að taka tillit til jafnréttismálefna í loftslagsstarfinu.

Tillögurnar fjalla um ólík málefni eins og loftslagsaðlögun, nýsköpun, fjármögnun og takmörkun á losun koltvísýrings. Fjallað var um þær á norrænum viðburði í tengslum við fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna nú í mars. Við sama tækifæri var þátttakendum einnig kynnt ný skýrsla og stuttmynd um konur, karla og loftslagsbreytingar.

Loftslagsbreytingar hafa mismunandi áhrif á konur og karla

En af hverju eiga jafnrétti og loftslag saman? Loftslagsbreytingar hafa mismunandi áhrif á konur og karla. Ofsaveður og flóð vegna loftslagsbreytinga koma verst við fátæk lönd og konur. Dánartíðni kvenna vegna náttúruhamfara er mun hærri en karla, meðal annars vegna þess að þær kunna oft ekki að synda. Þar að auki eru það oftast kvennagreinar í fátækum ríkjum, eins og til dæmis landbúnaður, sem verða fyrir mestum áhrifum ef loftslagið breytist. Þetta hefur í för með sér að konur í fátækum löndum tapa mestu. Karlar verða einnig fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og geta til dæmis misst störf sín ef þau verða fyrir áhrifum loftslagstengdra náttúruhamfara.

Konur og karlar hafa mismunandi áhrif á loftslagið

Konur og karlar verða ekki eingöngu fyrir mismunandi áhrifum heldur hafa þau einnig mismunandi áhrif á umhverfið. Ólík neyslu- og hegðunarmynstur hafa í för með sér að konur og karlar skilja eftir sig ólík kolefnisspor (það er að segja heildarlosun hvers einstaklings á gróðurhúsalofttegundum).
Sem dæmi má nefna samgöngumálin, sem valda stórum hluta koltvísýringslosunar. Karlar nota til dæmis meira bíla en konur, og konur nota oftar almenningssamgöngur en karlar. Til dæmis er talið að karlar beri ábyrgð á 75 prósentum allrar bílnotkunar í Svíþjóð. Annað dæmi er mismunur á kjötneyslu. Í Danmörku neyta karlar að meðaltali 139 gramma af kjöti á dag, en konur aðeins 81 gramms.

Að auki er kynjaskiptingin í samgöngumálunum afar ójöfn. Til dæmis er hlutfall kvenna í samgöngunefndum innan aðildarlanda ESB frá 0-30 prósent. Til að hegðunarmynstur karla og kvenna geti breyst verða bæði kynin að taka þátt í breytingunum.

Ójöfn kynjaskipting í ákvarðanaferlinu

Þrátt fyrir að mismunur sé á kynjunum eiga konur fáa fulltrúa bæði staðbundið og á heimsvísu þegar kemur að því að taka ákvarðanir um loftslagsaðgerðir. Til dæmis er hlutfall þeirra kvenna sem eru formenn sendinefnda og taka þátt í alþjóðlegum loftslagsumræðum hjá Sameinuðu þjóðunum milli 15 og 20 prósent. Konur og karlar bera jafna ábyrgð á framtíð jarðar. Það er jafn mikilvægt að ákvarðanir taki mið af reynslu og þekkingu kvenna líkt og karla. Þess vegna verða bæði kyn að eiga fulltrúa þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar.

Við, jafnréttisráðherrar Norðurlandanna, teljum að tekið skuli tillit til jafnréttissjónarmiða við ákvarðanatöku sem tengist loftslagsaðlögun. Gera verður kröfu til ríkisstjórna, samtaka og fyrirtækja að bæði konur og karlar taki virkan þátt í þróun stefnu til að leysa loftslagsvandann.

Þegar bæði karlar og konur taka ákvarðanir sem byggðar eru á eigin veruleika, þörfum og reynslu, eru meiri líkur á að lausnirnar taki tillit til hagsmuna breiðari hóps íbúanna. Ekki síst þýðir það umhverfisvænni hegðun og hún kemur okkur öllum til góða, þar á meðal heilsu jarðar.

Jafnréttisráðherrar Norðurlandanna: Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir Íslandi, Karen Jespersen Danmörku, Stefan Wallin Finnlandi, Anniken Huitfeldt Noregi, Nyamko Sabuni Svíþjóð.

Sameiginleg grein norrænu jafnréttisráðherranna birtist í Morgunblaðinu 20. mars 2009



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum