Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breyta þarf greiðslufyrirkomulagi á öldrunarstofnunum

Um langt skeið hefur tíðkast fyrirkomulag á greiðslum daggjalda til öldrunarstofnana sem íbúar dvalar- og hjúkrunarheimila og margir aðrir hafa talið óheppilegt, illskiljanlegt og að ýmsu leyti ósanngjarnt.

Í stuttu máli er fyrirkomulagið eftirfarandi: Ríkið ákveður daggjöld til öldrunarstofnana. Daggjöld vegna dvalarrýma er það sama á öllum stofnunum en daggjöld vegna hjúkrunarrýma er mishátt þar sem það tekur mið af því hve mikla hjúkrun og umönnun aldraðir á viðkomandi heimili þurfa á að halda. Daggjöldum er ætlað að standa undir rekstrarkostnaði öldrunarheimila.

Ríkið greiðir daggjöldin að hluta eða öllu leyti vegna aldraðra í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Bætur almannatrygginga falla niður við dvöl á stofnun en greiðsluþátttaka hvers og eins ræðst af tekjum hans. Frá 1. janúar 2009 tekur aldraður þátt í daggjaldi hafi hann tekjur umfram 65.000 krónur á mánuði eftir skatt. Aldraður á öldrunarheimili með litlar sem engar tekjur á rétt á svokölluðum vasapeningum sem eru tekjutengdir. Óskertir vasapeningar eru um 42.000 krónur á mánuði.

Réttmæt gagnrýni

Nýlega skrifaði Margrét Margeirsdóttir, fyrrverandi formaður Félags eldri borgara í Reykjavík, grein í Morgunblaðið þar sem hún gagnrýnir fyrirkomulag greiðslna á öldrunarstofnunum. Hún segir óljós fyrir hvað vistmenn séu krafðir um greiðslu þar sem greiðsluþátttakan miðist eingöngu við tekjur en ekki hvernig aðbúnað, umönnun og þjónustu viðkomandi fær. Þá skipti engu máli hvort fólk býr í einbýli með snyrtingu og eigin innanstokksmunum eða deili herbergi með öðrum.

Í greininni segir að ekki séu þjónustusamningar milli ríkisins og öldrunarstofnana um aðbúnað og þjónustu sem þeim ber að veita. Ríkisendurskoðun fjallaði um þetta í stjórnsýsluúttekt árið 2005. Þar segir að stjórnvöld hafi ekki sett lágmarkskröfur um magn og gæði þjónustu og aðbúnað íbúa á öldrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum ef undan er skilinn samningur um byggingu og rekstur Sóltúns í Reykjavík.

Ég tek að mörgu leyti undir gagnrýnina og tel nauðsynlegt að endurskoða þessi mál frá grunni. Heildarábyrgð á málefnum aldraðra fluttist frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis 1. janúar 2008. Síðan þá hefur verið unnið að því í ráðuneyti mínu að færa skipulag öldrunarþjónustu til betri vegar og verður að segjast að verkefnin eru ærin.

Vilji minn stendur til að afnema það stofnanalega yfirbragð sem er á rekstri öldrunarheimila, jafnt varðandi daggjaldafyrirkomulagið og innra og ytra skipulag þeirra. Fjölbýlum verður að útrýma þannig að enginn deili herbergi með öðrum nema hann vilji það sjálfur. Íbúar öldrunarheimila þurfa að njóta sjálfstæðis og sjálfræðis eins og geta þeirra mögulega leyfir með aðstoð og stuðningi.

Tryggja þarf fjárhagslegt sjálfstæði

Fjárhagslegt sjálfstæði aldraðra þarf að vera tryggt og virt að fullu. Til að svo megi verða þarf að breyta daggjaldafyrirkomulaginu. Ég tel óeðlilegt að aðrar reglur gildi um fjárhag og fjármál fólks á öldrunarheimilum en almennt í samfélaginu og mun vinna að breytingum í samræmi við það.

Öldrunarheimili í landinu eru mörg og ólík. Sum eru komin til ára sinna og bera þess merki hvað varðar húsakost og skipulag. Önnur eru nýleg, svara betur kröfum nútímans og taka mið af breyttri hugmyndafræði um daglegt líf og aðbúnað á öldrunarheimilum. Þegar hefur verið ráðist í miklar framkvæmdir til að færa eldra húsnæði í betra horf. Mikið verk er þó framundan eins og fram kemur í áætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins um fjölgun hjúkrunarrýma og fækkun fjölbýla sem kynnt var á liðnu ári.

Í desember sl. setti forveri minn í starfi, Jóhanna Sigurðardóttir, viðmið um skipulag hjúkrunarheimila með áherslu á að aðstæður líkist sem mest venjulegum einkaheimilum fólks en mæti engu að síður þörfum þeirra sem hafa skerta getu til athafna daglegs lífs. Þar koma fram helstu kröfur til húsnæðis og skipulags. Þetta er skref í rétta átt en ég vil einnig að skýrar kröfur verði settar um aðbúnað og þjónustu og að þeim verði framfylgt með nauðsynlegu eftirliti.

Málefni aldraðra til sveitarfélaga

Þótt skammur tími sé liðinn frá því að ábyrgð á málefnum aldraðra fluttist til félags- og tryggingamálaráðuneytisins hefur margt verið gert til að bæta stöðu aldraðra á öldrunarheimilum. Til framtíðar tel ég að þjónusta við aldraða verði best af hendi leyst hjá sveitarfélögunum eins og ég tel almennt gilda um alla nærþjónustu. Nýlega undirritaði ég ásamt fleiri ráðherrum viljayfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um flutning málefna fatlaðra til sveitarfélaganna árið 2011 og er stefnt að því að ljúka samkomulagi um framkvæmdina á þessu ári. Ég vil að gert verði sambærilegt samkomulag um fluting málefna aldraðra til sveitarfélaganna. Þegar er að baki töluvert undirbúningsvinna sem miðar að þessu marki og þeirri vinnu verður haldið áfram.

Grein Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra um öldrunarmál sem birtist í Morgunblaðinu 28. mars 2009.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum