Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Námsstefna um vinnumarkaðsúrræði

Góðir gestir, jafnt þið sem hér eruð mætt í eigin persónu og þið sem fylgist með útsendingu á Netinu.

Við höfum þörf fyrir sköpunargleði, frumkvæði, nýjar hugmyndir og bjartsýni. Með þessi vopn í hendi náum við árangri þegar við berjumst gegn atvinnuleysi og neikvæðum afleiðingum þess. Hlutverk stjórnvalda er að mynda jarðveg sem auðveldar nýjum hugmyndum að skjóta rótum, vaxa og dafna.

Námsstefnan sem hér er að hefjast mun sýna okkur að víða er að finna fólk með góðar hugmyndir og getu og vilja til að hrinda þeim í framkvæmd. Þá er ánægjulegt að Christer Gustafsson skuli vera með okkur í dag til að kynna Hallander-verkefnið svokallaða frá Svíþjóð sem hlotið hefur mikla athygli og var tilnefnt af Sameinuðu þjóðunum sem eitt af hundrað fyrirmyndarverkefnum árið 2002. Það verður fróðlegt að heyra Christer segja frá uppbyggingu og skipulagi verkefnisins og hvort í því liggi möguleikar sem við getum ef til vill nýtt okkur.

Í desember síðastliðnum var skipaður starfshópur á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins til að móta tillögur um aðgerðir á vinnumarkaði til að sporna við vaxandi atvinnuleysi og leita úrræða til að stuðla að virkni þeirra sem misst hafa atvinnu.

Í hópinn voru skipaðir fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Bandalags háskólamanna, Samtaka atvinnulífsins, fjármálaráðuneytis og félags- og tryggingamálaráðuneytis. Verkefni starfshópsins byggðu að hluta til á ákvæðum reglugerðar sem félags- og tryggingamálaráðherra setti um þetta leyti og hafði það meginmarkmið að sporna við atvinnuleysi, auðvelda fólki í atvinnuleit að halda virkni sinni, stuðla að tengslum þess við atvinnulífið og skapa fólki leiðir til að bæta atvinnuþátttöku sína á nýjan leik.

Starfshópnum var meðal annars falið að kanna möguleika Íbúðalánasjóðs til að lána til mannaflsfrekra verkefna í byggingariðnaði, að kynna möguleika til átaksverkefna, frumkvöðlastarfs og fleiri vinnumarkaðsaðgerða, að virkja sveitarfélög til átaksverkefna, að hvetja félagasamtök til atvinnuskapandi verkefna og að samræma tillögur vinnumarkaðsráða um aðgerðir um land allt.

Starfshópurinn hefur unnið vel og lagt fram tillögur um aðgerðir til að sporna við atvinnuleysi sem sumum hverjum hefur þegar verið hrundið í framkvæmd. Ég ætla ekki að rekja tillögur hópsins hér en nefni sem dæmi að í samræmi við tillögu hans var ákveðið að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatt úr 60% í 100% til að efla viðhaldsframkvæmdir í byggingariðnaði.

Efnt var til námsstefnunnar hér í dag að frumkvæði starfshópsins en hún er haldin á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar í samvinnu við þá sem aðild eiga að starfshópnum. Ég tel þetta góða leið til að kynna góð verkefni sem unnið er að, kveikja nýjar hugmyndir og ýta undir útbreiðslu verkefna sem vel hafa tekist.

Það var álitið mikilvægt að gera sem flestum kleift að fylgjast með því sem hér fer fram, hvar á landinu sem þeir eru staddir, og því var ákveðið að vera með útsendingu frá námsstefnunni á Netinu og getur fólk fylgst með á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytisins.

Vinnumálastofnun gegnir mikilvægu hlutverki á sviði vinnumála og eins og Gissur Pétursson forstjóri hennar mun eflaust gera grein fyrir hér á eftir. Hún annast meðal annars skipulag vinnumarkaðsúrræða, svo sem námskeiða, náms- og starfsúrræða og atvinnutengdrar endurhæfingar, auk þess að sinna ráðgjöf á þessu sviði.

Þegar atvinnuleysi er jafn mikið og við stöndum frammi fyrir verður að tryggja fjölbreytt tækifæri fyrir þá sem eru án atvinnu til að taka þátt í uppbyggilegum verkefnum. Fólk verður að halda virkni sinni og best er ef fólki gefst kostur á að efla getu sína, kunnáttu og færni þannig að það komi öflugt til leiks á ný þegar atvinnuástandið batnar.

Við fáum eflaust að heyra af góðum hugmyndum þegar einstök verkefni verða kynnt hér á eftir. Það er margt í deiglunni og mikilvægt að miðla þekkingu og reynslu þannig að hún nýtist sem flestum. Það er tilgangur námsstefnunnar hér í dag og ég óska þess að hún verði okkur öllum hvatning til dáða.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum