Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jafnrétti á erindi við börn

Einn mikilvægasti mannréttindasáttmáli allra tíma, samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám mismununar gegn konum, var samþykktur fyrir þrjátíu árum. Þó margt hafi áunnist í jafnréttis­baráttunni er ljóst að jafnrétti er ekki að fullu náð. Ef raunverulegt jafnrétti kynjanna á að nást þurfum við hugarfarsbreytingu og henni náum við ekki án þess að styrkja grunninn til framtíðar með því að fræða börnin okkar um mikilvægi jafnréttis.

Leikskólar og grunnskólar eru mikilvægar fræðslu- og menntastofnanir. Þeir gegna veigamiklu hlutverki í uppeldi barna og félagsmótun. Höfuðmáli skiptir því að áhersla sé lögð á fræðslu og umræðu um jafnrétti og mannréttindi í öllu skólastarfi því þannig er stutt við málaflokkinn til framtíðar.

Jafnréttisfræðsla á öllum skólastigum

Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál. Skal lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, bæði í fjölskyldu- og atvinnulífi.

Stórt skref í þessa átt var stigið í fyrra þegar farið var af stað með þróunarverkefnið jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum en það miðar að því að auka og efla jafnréttis- og kynjasjónarmið í leikskólum og grunnskólum. Að verkefninu standa félags- og tryggingamálaráðuneytið, Jafnréttisstofa og fimm sveitarfélög: Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Mosfellsbær og Akureyrarkaupstaður. Menntamálaráðuneytið styður verkefnið og leggur framkvæmd þess lið ásamt Jafnréttisráði og fjölmörgum styrktaraðilum. Jafnréttisfræðsla þessi miðar að því að efla umræðu um jafnréttismál og að samþætta kynjasjónarmið í kennslu. Auk þess er markmið verkefnisins að auka samvinnu innan og milli sveitarfélaga um jafnréttismál, auka upplýsingar um jafnréttisfræðslu og búa til vettvang þar sem reynslunni af verkefninu er miðlað.

Þróunarverkefni á sviði jafnréttismála

Fimm leikskólar og fimm grunnskólar hafa í vetur unnið tilraunaverkefni á sviði jafnréttismála. Námsstefna þar sem þeir kynna verkefnin verður haldin 26. maí 2009. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsetrinu www.jafnrettiiskolum.is. Þar er aðgengilegt fjölbreytt efni sem hentar vel til notkunar við jafnréttisfræðslu í skólastarfi. Á þessu ári er Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og er jafnréttisfræðsla í skólum eitt af fimm meginjafnréttisþemum ársins. Norræn ráðstefna um jafnréttisfræðslu í skólum verður haldin hér á landi, 21. og 22. september 2009. Fyrirmyndarverkefni Norðurlandanna verða kynnt þar.

Tólf ára börn fengu jafnréttisdagatal

Þegar samningur Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gegn konum var gerður fyrir þrjátíu árum bjuggu margar konur við misrétti. Enn þann dag í dag er hann mikilvægt tæki í jafnréttisbaráttunni. Félags- og tryggingamálaráðuneytið útbjó dagatal í samstarfi við Jafnréttisstofu, Kópavogsbæ og Fljótsdalshérað til að marka þau tímamót þegar samningurinn var gerður. Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars síðastliðinn færði undirrituð öllum bekkjardeildum tólf ára nemenda í grunnskólum landsins dagatalið til að hengja í skólastofur sem daglega áminningu um mikilvægi jafnréttis kvenna og karla.

Með því að fræða börnin okkar um jafnrétti og mannréttindi gerum við þau meðvituð um mikilvægi þessara réttinda. Með aukinni jafnréttisfræðslu eflum við einnig skilning barna okkar á því að réttindi þessi eru ekki sjálfgefin heldur afrakstur langrar baráttu sem enn á langt í land víða um heim.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum