Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. september 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræða Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar, 26. september 2009.

Góðir félagar

Við tókum að okkur verk í vor – og það voru verk í fleirtölu. Þau brýnu verk eru mörg.

Að baki er áætlun í ríkisfjármálum, sem tekst á við það vandasama verkefni að færa útgjöld okkar að því sem við öflum. Við þurfum að spara og hækka skatta, því við höfum sem þjóð lifað um efni fram. Okkur vantar eina krónu af hverjum fimm. Afleiðingin verður óhjákvæmilega lengri biðlistar og skert þjónusta í velferðarkerfinu, þótt við gerum allt til að verja grunnþjónustuna.

Að baki er líka aðildarumsókn sem leggur grunn að stöðugu hagkerfi og gefur okkur von um að losna við krónuna – það tæki sem best hefur dugað til að flytja verðmæti frá íslensku launafólki til fjármagnseigenda og spekúlanta. Icesave er að baki – og sá draugur innistæðulausra útþensludrauma óábyrgra bankamanna má ekki ganga aftur. Lækkun stýrivaxta, fjármögnun stórframkvæmda, sköpun nýrra atvinnutækifæra – allt hangir þetta á lánafyrirgreiðslu frá okkar nánustu nágrannalöndum.  

En okkar næsta stóra verkefni er endurskipulagning skulda. Hrunið breytti skuldsetningu þjóðarinnar – sem var þó nógu glæfraleg fyrir – og gerði hana að ókleifum hamri í einni svipan. Eftir stöndum við með skuldir umfram eignir og greiðslugetu heimila og fyrirtækja.

Skuldavandi heimilanna er í senn flókið efnahagslegt verkefni og gríðarlega brýnt félagslegt úrlausnarefni. Engum stendur það nær en okkur jafnaðarmönnum að tryggja að við lausn þess vanda verði gætt til hins ítrasta sjónarmiða jafnræðis og réttlætis. 

Jafnræði verður að  tryggja. Við verðum að tryggja að öllum þeim sem standa frammi fyrir sambærilegum vanda standi til boða sambærileg úrræði, en það sé ekki undir geðþótta einstakra fjármálastofnana eða einstaka bankastjórnenda komið hverjir fá úrlausn sinna mála og hvernig.

Og réttlæti verður að ráða för. Þeir sem þurfa á aðstoð að halda eiga rétt á aðstoð. Það eru þúsundir fjölskyldna sem gerðu ekki annað en að reyna að tryggja sér þak yfir höfuðið, en horfa nú fram á auknar byrðar vegna aðstæðna sem enginn sá fyrir. 

Þetta fólk eigum við að aðstoða og þetta fólk ætlum við að aðstoða.

....... 

Við eigum hins vegar ekki að bjarga þeim úr snörunni sem fóru út í glórulaust fjárfestingabrask, veðjuðu á skyndigróða á þenslutímum en vilja nú að almenningur í landinu borgi kostnaði við ævintýramennskuna.

Við eigum heldur ekki að refsa þeim sem sýndu ráðdeild, sparsemi og hagsýni. Við megum heldur ekki gleyma því, að þenslan og fjárfestingarnar fóru ekki fram alls staðar á landinu með sama hætti. Það var engin húsnæðisbóla á Snæfellsnesi, í Skagafirði eða Skaftafellssýslum. Það fjölgaði ekki til muna Range Roverum á Flateyri eða Fáskrúðsfirði. 

Við þurfum að nálgast þetta verkefni með samfélagslega sanngirni að leiðarljósi.

Þess vegna eigum við að aðstoða þá sem þurfa á því að halda. Það er fólkið okkar, vinnandi fólk í landinu.  

....

Að þessu verkefni hefur ríkisstjórnin unnið síðustu vikur og mánuði og haft um það samráð og átt um það samtöl við alla sem nöfnum tjáir að nefna, fjármálastofnanir, Seðlabankann, aðila vinnumarkaðarins, hagsmunasamtök, stjórnarandstöðuna og marga fleiri. Við höfum farið yfir ótal tillögur og ótal útfærslur, og reiknað fram og til baka, en alltaf með sama meginmarkmið í huga, að gæta jafnræðis og sanngirni. 

Eðli málsins samkvæmt hefur mest reynt á samstarfið við fjármálastofnanir og ég dreg enga dul á það, að mér hefur á stundum þótt bankarnir ekki sýna því nægilegan skilning, að þeir eru hluti af samfélagi í gríðarlegum vanda og að þeim ber samfélagsleg skylda til að leggja sitt af mörkum til að gera fjölskyldum í landinu kleift að standa við skuldbindingar sínar.

Ég fer heldur ekki í grafgötur með þá skoðun mína, að sem mest af húsnæðislánum heimilanna eigi að vera á ábyrgð hins opinbera. Höfuðvandinn í útlánabólunni allt frá 2004 var sú staðreynd að bankar með stórveldisdrauma buðu lægri vaxtakjör en þeir höfðu forsendur til, í því skyni að ginna til sín viðskiptavini. Þess vegna varð ofþensla á markaðnum.  

Verstu mistök okkar voru að snúa bakinu við því sjálfbæra fjármögnunarkerfi íbúðalána sem Jóhanna Sigurðardóttir kom á með húsbréfakerfinu árið 1989. Húsnæðisöryggi fólks er of mikilvægt verkefni til að láta lánaframboð ráðast af dyntum og stundarhagsmunum gírugra bankamanna. Húsbréfakerfið var sniðið að danskri fyrirmynd þar sem enn er við lýði sjálfbært, traust og stöðugt íbúðalánakerfi, sem hefur verið lítt breytt í 140 ár. Joseph Stieglitz bendir nú á það kerfi sem fyrirmynd fyrir endurbyggingu bandarísks fasteignalánamarkaðar. Brýnasta verkefni okkar á sviði húsnæðismála er að koma á ný á þeim stöðugleika sem einkennir slík kerfi og tryggja stöðugt framboð íbúðalána.

... 

Nú – eftir margra mánaða samráð – nú hillir undir víðtækt samkomulag um samræmda lausn á vanda þeirra sem þurfa á aðstoð að halda.

Þessar tillögur verða kynntar á allra næstu dögum, en ég get sagt ykkur hér að með þeim verður tryggð verulega lækkuð greiðslubyrði á bæði verðtryggðum og gengistryggðum lánum. Jafnframt verður tryggt að slík breyting leiði ekki til þess að lánstími lengist úr hófi á móti. 

Í þessum tillögum felst því, að ef laun hækka ekki og ef atvinnustig verður áfram lágt – ef gengi krónunnar lagast ekkert, þá helst greiðslubyrði lána í samræmi við það. Ef hins vegar almennar launahækkarnir verða í landinu og hér eykst atvinna – sem við erum auðvitað fullviss um – ef greiðslugeta okkar allra eykst, þá eykst greiðslubyrði á ný í samræmi við batnandi hag.

Með þessu er komið í veg fyrir það hróplega óréttlæti sem felst í misgengi á milli launaþróunar og lánskjara, þ.e.a.s. að á meðan launin hækka ekki eða jafnvel lækka, þá hækkar greiðslubyrðin af lánunum 

Við ætlum ekki að endurtaka misgengishörmungarnar frá því 1983 og 1984.

Almenn lækkun greiðslubyrði gefur fyrirheit um að fjölskyldur geti leyst sig úr fjötrum og fengið annað tækifæri til að skipuleggja fjármálin vel og óttalaust. Það er engum greiði gerður með því að lengja skuldahalann, að lengja í snörunni, heldur verðum við að sýna fólki fram á að það borgi sig að standa við skuldbindingar sínar – og það vill fólk líka gera.  Með þessum víðtæku almennu aðgerðum viljum við tryggja að langflestar fjölskyldur í landinu geti haldið sínu striki og byggt áætlanir sínar á forsendum sem eru ekki alltof ólíkar því sem var áður en þessar hörmungar dundu yfir. En eins og ég hef oft sagt er það ekki í mannlegu valdi að gera okkur jafnsett eins og ef hrunið hefði aldrei orðið. Við sitjum uppi með afleiðingar þess og verðum að vinna úr þeim eins best við getum. 

Ég vildi gjarna lýsa þessum tillögum betur hér, en að fenginni reynslu tel ég skynsamlegt að ganga frá endanlegu samkomulagi og hnýta alla lausa enda áður en þær eru kynntar í smáatriðum. 

Ég get þó fullvissað ykkur um, að tillögur ríkisstjórnarinnar verða fyrst og fremst miðaðar við hagsmuni fólks og fjölskyldna, ekki eingöngu fjármálastofnana og kröfueigenda eins og hingað til hefur verið lenska.

...

Gleymum því samt ekki, að margir verða eftir þótt gripið verði til almennra aðgerða til að létta greiðslubyrði. Áhrif efnahagshrunsins eru slík að líkur eru á þúsundir manna þurfi á sértækum úrræðum að halda. Því höfum við leitt saman fjármálastofnanir og eignaleigufyrirtæki til að móta samræmt verklag til að mæta fólki í þessari stöðu, svo að unnt verði að endurskipuleggja skuldir og koma þeim í viðráðanlegt horf og fella niður það sem ekki getur innheimst. Þetta þarf að gera með samræmdum og gagnsæjum hætti og án milligöngu dómstóla.  

Við munum jafnframt sníða agnúa af greiðsluaðlögunarferlinu og koma aukinni festu í beitingu þess úrræðis. Greiðsluaðlögun er mikilvæg til að þeir sem eru í mjög erfiðum vanda geti komið lagi á skuldamál sín, axlað ábyrgð af því sem unnt er að greiða og byrjað að nýju með hreint borð. Miklu skiptir að hlutverk umsjónarmanns með endurskipulagningu skulda sé unnið með vönduðum og samræmdum hætti. Ég er því þeirrar skoðunar að því hlutverki verði best fyrir komið hjá opinberri stofnun sem þrói verklag og veiti fólki í alvarlegum greiðsluerfiðleikum boðlega þjónustu.

... 

Við stöndum frammi fyrir ærnum verkefnum. Hætturnar eru augljósar. Skuldavandinn hverfur ekki á einni nóttu. Atvinnuleysið verður næsta stórverkefnið. Í árslok verða 9000 manns langtímaatvinnulausir. Erlendar rannsóknir sýna að mikil hætta er á að þetta fólk komi aldrei aftur á vinnumarkaðinn. Við megum ekki við því. Hvert og eitt okkar er of dýrmætt til að þessi mikli mannauður fari í súginn.

Ég fékk að opna framhaldsskóla í Mosfellsbæ um daginn. Einhver spurði: „Er ekki glapræði að stofna skóla þegar ekkert fé er til?“ Þá fór ég að hugsa til afreka okkar undanfarin ár. Ef við hefðum ekki sest í ríkisstjórn 2007 og hafist handa við úrbætur í velferðarmálum væri staðan hörmuleg í dag. Á mestu velgengisárum í íslenskri sögu undir stjórn íhalds og Framsóknar gerðu stjórnvöld ekkert til að koma kjörum aldraðra og öryrkja í eðlilegt horf. Biðlistar eftir hjúkrunarrýmum hrönnuðust upp. Ekkert var gert til að vinna gegn brottfalli úr skólum og lítilli skólagöngu ungs fólks. Og svona mætti lengi telja.  

Af þessu má draga einfalda ályktun: Peningar eru ekki trygging fyrir góðu velferðarkerfi. Eigum við þá ekki leita nýrra leiða til að gera vel? Getum við kannski – ef við leggjumst öll á eitt – gert betur en áður fyrir minna fé? Er það ekki verðugt verkefni? 

Góðir félagar

Við tókum að okkur verk í vor. Það var ekki tilviljun að okkur voru falin þessi verkefni. Íslenskur almenningur sýndi að hann treystir félagshyggjufólki best til að þess að leiða til lykta alvarleg viðfangsefni þar sem hagur vinnandi fólks er í húfi. 

Okkur er treyst til þess að leysa mál með samábyrgð, en ekki sérhyggju, að leiðarljósi.

Okkur er treyst til þess að gæta hagsmuna fjöldans, ekki hinna fáu. 

Okkur er treyst til þess að varða leið sem byggir á samvinnu og sanngirni.

Við jafnaðarmenn fögnum því að fá tækifæri til að móta nýtt samfélag á grunni raunverulegs frelsis og jafnréttis. 

Það höfum við gert áður.

Það ætlum við líka að gera núna. 

Þakka ykkur fyrir.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum