Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræða félags- og tryggingamálaráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra

Virðulegi forseti, góðir tilheyrendur.

Það eru miklir óvissutímar og verkefnin eru mörg. En verkefnin eru til þess að takast á við og leysa. Við höfum nú nýverið kynnt viðamiklar aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna.

Þær aðgerðir sýna að þrátt fyrir ólíka hagsmuni er hægt að ná þokkalegri sátt um erfið viðfangsefni með uppbyggilegri nálgun fjármálafyrirtækja, eignarleigufyrirtækja, hagsmunasamtaka og ólíkra flokka jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu. Slík vinnubrögð eigum við að ástunda við þessar erfiðu aðstæður.

Með leiðréttingu á skuldabyrði heimilanna tryggjum við að þeir sem höfðu gert raunhæfar áætlanir um fasteignakaup fyrir hrunið geti staðið við skuldbindingar sínar eftir hrunið.

Með leiðréttingunni höfum við líka tekið fyrir það hróplega óréttlæti sem fólst í því að greiðslubyrðin hækkaði og hækkaði, á meðan launin stóðu í stað eða jafnvel lækkuðu. Slíkt misræmi má ekki og mun ekki þjaka heimilin í landinu aftur.

Í leiðréttingunni felast líka úrræði fyrir þá sem eru verulega illa settir og þurfa brýna úrlausn sinna mála ef greiðslugeta stendur ekki undir skuldum.

Ef við getum eitthvað lært af reynslu nágrannaþjóða okkar af efnahagskreppu, þá er það að koma í veg fyrir að hér myndist varanleg undirstétt þeirra sem skulda, þeirra sem eru atvinnulausir og þeirra sem orðið hafa fyrir öðrum áföllum.

Við verðum að gera öllum kleift að vera hluti af samfélaginu með fullri reisn, þeirra vegna og okkar allra vegna, af því að við þurfum á öllu okkar fólki að halda. Enginn á að þurfa að draga á eftir sér hala gjaldþrota um ókomin ár vegna þessarar kreppu.

Virðulegi forseti.

Atvinna og efnahagslegur stöðugleiki er forsenda þess að fólk geti haldið lánum í skilum. Næsta stórverkefni er því að taka á skuldamálum fyrirtækjanna, svo þau geti staðið í skilum og haldið fólki í vinnu.

Á næstu vikum verða hér til umfjöllunar tvo stórmál, sem hvort um sig skiptir miklu um framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi. Það eru fjárlögin og endanleg niðurstaða um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna.

Við fjárlagagerð höfum við þurft að taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð sem snerta alla landsmenn. Ástæðan er einföld: Við höfum eytt um efni fram og okkur vantar eina krónu af hverjum fimm. Engar horfur eru á öðru en áframhaldandi aðhaldi á næstu árum. Við höfum hins vegar lagt höfuðáherslu á að verja hag þeirra sem lakast standa og verja grunnþjónustu á sviði velferðarmála.

En ef við lokum ekki þessu bili milli útgjalda og tekna fljótt – jafnt með niðurskurði útgjalda og hækkun skatta – mun vaxtabyrði þjóðarinnar til langframa verða okkur ofviða og okkar bíða óðaverðbólga og ójafnvægi.  

Allt er þetta starf hins vegar lítils virði ef við náum ekki friði við nágrannaríki okkar um efnahagslega fyrirgreiðslu.

...

Því miður er það ekki svo að við eigum raunverulegt val um að semja ekki um Icesave.

Ef við ljúkum ekki því máli blasir við efnahagsleg einangrun. Greiðslur erlendis frá verða aftur stöðvaðar, rétt eins og við fengum að reyna vikurnar eftir hrun. Krónan hríðfellur og lífskjör versna.

Fram til ársins 2013 falla á gjalddaga rúmlega þúsund milljarðar króna í erlendum skuldum og það eru ekki Icesave skuldir. Afrakstursgeta þjóðarbúsins nú er um hundrað milljarðar á ári.

Sumir tala fyrir því að við eigum að leysa úr þessum vanda ein og sjálf, í ófriði við önnur lönd. Þá blasir við stórfelld veiking krónunnar, verulega skertur kaupmáttur almennings og almenn skömmtun innfluttra neysluvara. Og samt eru ekki miklar líkur á að sjálfsþurftarbúskapurinn dygði til að dæmið gengi upp.

Slík framtíðarsýn er því fortíðarsýn – draumsýn um endurvakið haftasamfélag fortíðarinnar þar sem útvaldir flokksgæðingar geta aftur sest að kjötkötlunum í skjóli hefðbundinna helmingaskipta og einangrunar landsins.

Án samkomulags um Icesave verður hér engin endurreisn, hér verða engar stórframkvæmdir, fyrirtækin fá enga fyrirgreiðslu og fara unnvörpum á hausinn, atvinnuleysi eykst og allar forsendur fyrir friði á vinnumarkaði hverfa. Þetta veit allt sanngjarnt og réttsýnt fólk í öllum flokkum.

Allt það góða fólk verður nú að taka höndum saman – þvert á flokksbönd – til að tryggja efnahagslega endurreisn og lífvænlegt samfélag en ekki fangelsi hafta og lágra launa.

Okkar unga fólk á betra skilið en afturhvarf til úreltra samfélagshátta og einangrunar. Trúir því einhver að okkar kraftmikla unga kynslóð fari með okkur í slíka haftavegferð?

Framtíðin bíður. Brýn verkefni bíða. Engan langar að borga Iceasave, en því lengur sem við tefjum frágang þess höldum við framtíð þjóðarinnar í óvissu.

Eftir heilt ár af óvissu er nóg komið. Nú þurfum við að láta verkin tala.

 

Góðar stundir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum