Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

08. október 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræða Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra á þingi Starfsgreinasambands Íslands

Ágætu þingfulltrúar.

Við lifum mikla óvissutíma. Það hefur reynt mjög á okkur öll síðasta árið. Við höfum þegar upplifað áföll með kaupmáttarrýrnun og atvinnumissi, hækkun skuldabyrði og rýrnun eigna.

Við erum í miðri á og eigum nokkuð eftir áður en vonir standa til að efnahagsástandið glæðist að marki. Tafir á framgangi efnahagsáætlunar okkar valda vonbrigðum og erfiðar spurningar um ábyrgð okkar á glæfraverkum útrásargosa leiða til efasemda um mikilvægi samninga um Icesave og efnahagssamstarfs okkar við AGS.

Efinn er hollur en ráðleysið ekki. Þeir sem mæla gegn efnahagsáætlun okkar eiga ekki skýr svör um hvaða valkostur sé í stöðunni.

Við getum komist af án þessara lána og getum unnið okkur úr þessu sjálf segja þeir sumir – og eiga það helst sammerkt að hafa fæðst með silfurskeið í munni.

Við þurfum ekki á AGS að halda segja þeir líka – en útskýra ekki hvernig þá verður tekist á við stórfelldan vanda við greiðslu erlendra skulda.

Við eigum ekki að skattleggja okkur út úr vandanum segja þeir líka – og vilja þannig reyna að endurvekja þá stjórnarsnilli vegavilltra stjórnvalda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á bóluárunum að lækka skatta á þá sem helst geta greitt þá.

Við eigum ekki að greiða skuldir óreiðumanna segir mesti óreiðumaður allra tíma – sá sem lét okkur í arf byrðar upp á 300 milljarða með stjórnunarafglöpum í Seðlabankanum – hærri fjárhæð en líkur eru á að við munum þurfa að greiða fyrir Icesave þótt allt fari á versta veg.

Slíkir eru spámenn vorra daga. Er nema von að menn spyrji hvort óhamingju Íslands verði allt að vopni?

Ég hef enga slíka snilld að boða. Hér vil ég bara rekja stöðuna eins og hún er.

Atvinna og efnahagslegur stöðugleiki er forsenda þess að fólk geti staðið skil á sínu. Við höfum nú nýverið kynnt bráðaaðgerðir sem tryggja öllum sem voru í skilum fyrir hrun að þeir verði áfram í lagi eftir hrun og bregðast með sanngjörnum hætti við forsendubresti í fasteignaviðskiptum. Áhætta af verðbólgu og gengisfalli verður færð frá fólki til bankanna. Greiðslubyrði mun ráðast af launaþróun en ekki verðlagi. Við höfum líka lagt mikla vinnu í að koma á samræmdu verklagi milli lánastofnana, eignarleigufyrirtækja, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs um meðferð erfiðra skuldamála. Í því ferli verður tekið á þeim skuldamálum sem almennar aðgerðir duga ekki til að leysa og þar verður búinn til einfaldur farvegur til að endurskipuleggja, færa niður og afskrifa skuldir.

Strax í framhaldinu þarf að taka á skuldamálum fyrirtækjanna svo þau geti staðið í skilum og haldið fólki í vinnu.

Næsta stórverkefni er glíman við stórfellt atvinnuleysi. Nú eru 7.200 langtímaatvinnulausir og verða 9.000 í árslok. Spáð er að meðaltalsatvinnuleysi á næsta ári losi 10%. Við þurfum að tileinka okkur algerlega ný vinnubrögð til að takast á við þetta ástand. Við þurfum að tryggja fólki fjárhagslegan ávinning af launavinnu og styðja langtímaatvinnulausa til aukinnar þátttöku í samfélaginu. Til þess þurfum við að kalla til verka alla þá sem hjálpa vilja og búa til fjölbreytt verkefni fyrir atvinnulausa. Við erum nú að vinna tillögur að bættum úrræðum og munum leggja fram frumvarp sem gerir okkur kleift að takast á við þetta mikla verkefni nú á haustþingi. Við höfum átt gott samstarf við verkalýðshreyfinguna í þessum efnum og hlökkum til að eiga það áfram.

Við þurfum líka að leggja traustan grunn fyrir efnahagslegan viðsnúning, með ábyrgum fjárlögum og góðri efnahagsstefnu.

 

Við fjárlagagerð höfum við þurft að taka erfiðar ákvarðanir um niðurskurð, sem snerta alla landsmenn. Þið finnið fyrir því og gagnrýnið réttilega ríkisstjórnina fyrir að verja ekki nægilega vaxtabætur, barnabætur og fjárhæð persónuafsláttar – þessar grunnstoðir almenns launafólks. Ég heyri þær áhyggjur og deili þeim með ykkur – á þessu verðum við að finna sameiginlega lausn í meðferð fjárlagafrumvarpsins.

Við höfum sem þjóð eytt um efni fram og okkur vantar eina krónu af hverjum fimm. Ef við lokum ekki þessu bili milli útgjalda og tekna fljótt, með blandaðri leið niðurskurðar útgjalda og hækkunar skatta, mun vaxtabyrði þjóðarinnar til langframa verða okkur ofviða og okkar bíða óðaverðbólga og ójafnvægi.

Ef við skerum bara niður skerðast lífskjör láglaunafólks mest og fjöldaatvinnuleysi verður óviðráðanlegt vandamál. Við erum engu bættari með 20 þúsund opinbera starfsmenn á atvinnuleysisbótum. En við getum ekki valið að halda opinberri þjónustu óbreyttri og talið okkur trú um að með því að skera bara niður annan kostnað komumst við hjá atvinnuleysi. Sú lausn felur bara í sér að verklegum framkvæmdum ríkisins er frestað og samningum við birgja sagt upp – afleiðingin er atvinnuleysi á almennum markaði.

Ef við hækkum bara skatta drögum við úr eftirspurn í samfélaginu og festum kreppuna í sessi. Reikningur vegna atvinnuleysisbóta verður hærri og við verðum lengur að vinna á atvinnuleysinu. En við getum ekki komist hjá því að hækka skatta.

Við getum auðvitað reynt hina stórsnjöllu vúdúhagfræði formanns Sjálfstæðisflokksins sem virðist felast í að lækka skatta á stóreignafólk. Fólkið sem á 1.800 milljarða á banka og þorir ekki að nota þá. Nei takk. Við höfum prófað þessa miklu snilld áður og þurfum ekki að endurtaka þau ósköp.

Við verðum að fara blandaða lausn – lausn skattahækkana OG niðurskurðar. Við munum öll finna fyrir, en vonandi ekkert okkar með óbærilegum hætti. Þar ætlum við að standa vaktina. Að passa að við komumst öll saman í gegnum þessa kreppu og að enginn þurfi að dragnast með hala gjaldþrota með sér um ókomna tíð. Við þurfum öll að fara í gegnum þetta saman og deila byrðunum.

 

Og fyrst ég er byrjaður á vondum tíðindum ætla ég að halda áfram. Við þurfum líka að ljúka samningunum um Icesave. Við þurfum líka að vinna áfram með AGS, þótt það samstarf sé auðvitað alltaf til stöðugrar endurskoðunar.

Ef við ljúkum ekki Icesave-samningunum blasir við efnahagsleg einangrun. Greiðslur erlendis frá verða aftur stöðvaðar. Krónan hríðfellur og lífskjör versna. Ef við náum ekki samningunum um Icesave munum við ekki varðveita þann árangur sem náðst hefur. Hættan er sú að við færumst aftur til þess ástands sem var hér á landi vikurnar eftir hrun.

Fram til ársins 2013 falla á gjalddaga rúmlega þúsund milljarðar króna í erlendum skuldum og það eru ekki Icesave-skuldir. Afrakstursgeta þjóðarbúsins nú er um hundrað milljarðar á ári.

Spámennirnir snjöllu tala fyrir því að við eigum að leysa úr þessum vanda ein og sjálf, í ófriði við önnur lönd. Þá blasir við stórfelld veiking krónunnar, verulega skertur kaupmáttur almennings og almenn skömmtun innfluttra neysluvara. Og samt eru ekki miklar líkur á að slíkur sjálfsþurftarbúskapur dygði til að dæmið gengi upp.

Án samkomulags um Icesave verður hér engin endurreisn, hér verða engar stórframkvæmdir, engin álver, fyrirtækin fá enga fyrirgreiðslu og fara unnvörpum á hausinn, atvinnuleysi eykst og allar forsendur fyrir friði á vinnumarkaði hverfa.

Einhver kann að spyrja: Hvers vegna stinga þá spámennirnir upp á slíkri hörmungarlausn?

Ástæðan er einföld. Þótt okkur þyki þetta hörmuleg framtíðarsýn eru þeir til sem eiga bágt með að sjá fyrir sér betri framtíð en þessa.

Þeir sem hafa hingað til hagnast á gengisfellingum og auðgast á veikri krónu.

Þeir sem hafa hingað til getað skammtað sér aðgang að fjármagni.

Þeir sem hafa hingað til getað hundelt skuldara og haldið gjaldþrotum vakandi áratugum saman.

Þeir sem hafa lengst af getað passað að réttu aðalverktakarnir fái réttu verkin á réttum kjörum.

Þeir sem hafa ráðið landinu í krafti fákeppni.

Þeir sem rændu Eimskipafélaginu af íslensku launafólki og Vestur-Íslendingum og nýttu það til að brjóta undir sig önnur fyrirtæki í landinu.

Þeir sem horfa með eftirsjá til þess tíma þegar útvaldir flokksgæðingar sátu að kjötkötlunum í skjóli hefðbundinna helmingaskipta og einangrunar landsins.

 

Við stöndum á miklum tímamótum og umræðan um Icesave og AGS litast af þessari hagsmunatogstreitu. Annars vegar eru þeir sem er ósárt um að hér sé skellt í lás því þeir hafa alltaf hagnast á lokuðu landi. Hinum megin erum við sem eigum réttindi okkar og afkomu undir sögulegum ávinningi frjálsra viðskipta og frjálsrar verkalýðshreyfingar, frjálsri samkeppni og samningum við útlönd sem tryggja öllum rétt, – ekki bara auðmönnum.

Við heyrum sönginn: Það var evrópskt regluverk sem brást.

Það er vissulega rétt. En ef sú væri eina skýringin blasir við næsta spurning sem ekki hefur verið svarað.

Hvers vegna er þá ekkert annað land í Evrópu í viðlíka vanda?

Er það af því að þar voru bankar ekki afhentir vildarvinum?

Er það af því að þar voru skattar ekki lækkaðir í góðæri og skattbyrði markvisst flutt frá ríkum til fátækra?

Er það af því að þar var ekki unnið eftir hugmyndafræði nýfrjálshyggju með sama hætti og hér?

Er það kannski af því að það er hvergi jafn vondur gjaldmiðill í nokkru landi og hér – hvergi annað eins tæki fyrir spekúlanta að leika sér með, sjálfum sér til ávinnings og almenningi til tjóns?

Með EES-samningnum hófum við vegferð í átt til betri kjara fyrir almenning, hærri launa og lægra verðlags með aukinni samkeppni og banni við siðspilltu samkrulli. Við vitum að einhæfni samfélags fyrri áratuga lék almennt launafólk grátt og gróf undan siðferði í viðskiptum. Örfá fyrirtæki kolkrabba og framsóknarklíku réðu jafnt kaupi launafólks og verðlagi í verslunum. Gengi var fellt eftir pöntun frá forréttindaklíkum. Íslenska krónan er og var hornsteinn þessarar samfélagsgerðar.

Með krónunni hafa gríðarleg verðmæti verið flutt frá heimilum og verðmætaskapandi fyrirtækjum til fjármagnseigenda. Þessi eignatilfærsla veldur margvíslegri óhagkvæmni í samfélaginu – heimilin þurfa að vinna lengri vinnudag til að greiða fyrir húsnæði og aðrar fjárfestingar og fyrirtækin hafa minna fjármagn úr að spila til launagreiðslna eða rannsókna og þróunarverkefna vegna hárrar vaxtabyrði. Og krónan var höfuðorsök hrunsins og aðalástæða þess að íslenskur almenningur þarf að bera gríðarlegar byrðar af óábyrgum bankamönnum.

 

Það er rangt að leyfa þeim flokkum sem helsta ábyrgð bera á hruninu að endurskrifa söguna með þeim hætti að allt vont komi frá útlöndum. Hrunið má þvert á móti rekja til vitlausra ákvarðana forystumanna þessara flokka á þeim árum þegar leggja hefði átt grunn að sjálfbærum hagvexti.

Lærdómurinn er því ekki sá að alþjóðavæðingin hafi brugðist okkur. Þvert á móti er rétta lexían sú að Ísland er ekki nógu alþjóðavætt. Íslenskur almenningur er berskjaldaðri fyrir gönuhlaupum auðjöfra og vondri hagstjórn en almenningur í nágrannaríkjum okkar. Mikilvægast er því að byggja traustan alþjóðlegan grunn fyrir íslenskt atvinnulíf og skapa almenningi þannig sama ávinning af alþjóðavæðingunni og meðbræður okkar og -systur í Evrópu njóta. Aðild að Evrópusambandinu er sú aðgerð sem íslensk launamannastétt þarf helst á að halda til að losna úr helsi innlendrar forréttindastéttar og öðlast eiginlegan borgararétt í íslensku samfélagi.

Góður maður orðaði þessa hugsun eitthvað á þá leið að betra væri að vera frjálsborinn maður í evrópskum hreppi en að vera hirðfífl smáfursta á Íslandi. Eftir hrunið líður okkur mörgum sem hirðfíflum smáfursta í viðskiptalífi og stjórnmálum. Við þurfum að bindast samtökum um að binda enda á þær aðstæður. Barátta fyrir alþjóðavæddu atvinnulífi og samvinnu við nágrannaríki er hin nýja stéttabarátta vorra tíma – barátta okkar fyrir öruggri lífsafkomu, áhrifum og jafnrétti.

Þessa framtíðarsýn óttast skiljanlega þeir menn sem eiga auð sinn og völd því að þakka að þeir þurftu aldrei að keppa við aðra og þurftu aldrei að reyna sig við aðra sterkari.

 

Við stöndum á tímamótum. Í efnahagslífi okkar í dag erum við að fást við efnahagslegt ójafnvægi sem stafar fyrst og fremst af því að innviðir samfélagsins – og þá sérstaklega gjaldmiðillinn – eru ekki nógu sterkir til að bera alþjóðavæðingu hluta efnahagslífsins. Bankakerfið og viðskiptalífið reyndist of opið og of stórt fyrir þennan litla gjaldmiðil.

Á þessum tímamótum stöndum við frammi fyrir vali um tvenns konar lausnir.

Ætlum við að skella í lás og loka landinu?

Eða ætlum við að bæta úr ágöllunum, styrkja innviðina og sækja fram á ný?

Nú þarf að velja rétt.

Við eigum átakanlega hliðstæðu úr sögu þjóðarinnar þegar við tókum rangan kost. Á fimmtándu öld flutti fólk til sjávarsíðunnar, því sú útgerð sem þá var að slíta barnskónum gat borgað betri laun en hefðbundinn landbúnaður. Ríkjandi valdakerfi landsins sem hafði afkomu sína af landbúnaði bjóst til varnar. Svarið var Píningsdómur árið 1490.

Í Píningsdómi var – að kröfu innlendrar forréttindastéttar þess tíma – lagt bann við vetursetu útlendinga og þjóðinni bannað að nota öflug veiðarfæri. Jafnframt var atvinnufrelsi daglaunafólks afnumið og fátækt fólk hneppt í vistarband. Þannig var staða forréttindastéttanna tryggð – með því að loka landinu og banna fólki að auka tekjur sínar með samkeppni um vinnuafl.

Þetta ástand varði í fjögur hundruð ár. Afleiðingin var fjögur hundruð ára sjálfsköpuð fátækt og óbærileg kúgun þess þriðjungs þjóðarinnar sem sat réttlaus í vistarbandi allan þann tíma. Þjóðin nýtti sér ekki með nokkrum hætti stærstu auðlind sína og naut engra þeirra tækifæra sem fylgdu frjálsri verslun og þátttöku í samfélagi þjóðanna fyrr en á tuttugustu öldinni.

Við höfum sorglega ríka reynslu – fjögur hundruð ára langa reynslu – af því að búa við heimatilbúna fátækt sem stafar af andstöðu gráðugra, gamalla forréttindastétta gegn alþjóðlega viðurkenndum leikreglum sem auðvelda frjálsa samfélagsþróun og skapa almenningi réttindi. Nú er komið nóg. Við verðum að leysa okkur úr vistarbandi vorra tíma og verja íslenskt launafólk gegn endurnýjaðri árás forréttindastétta fortíðarinnar.

Eins og einu sinni var sagt: Við höfum engu að tapa – nema hlekkjunum.

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum