Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. desember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Málþing um menntun og valdeflingu kvenna í Afganistan

Ávarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra

Ágætu fundarmenn.

Til hamingju með daginn – alþjóðlegan mannréttindadag Sameinuðu þjóðanna.

Tilgangur þessa málþings er að efla vitundarvakningu um stöðu stúlkna í Afganistan. Málþingið er hluti verkefnis sem hefur það tvíþætta markmið að efla stöðu kvenna í Afganistan og stuðla að vitundarvakningu um mikilvægi menntunar fyrir valdeflingu kvenna og stúlkna. Undirbúningur verkefnisins fór fram í þremur ráðuneytum og hlaut það níu milljóna króna styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála í janúar á þessu ári. Styrkurinn rennur til UNICEF í Afganistan og verður nýttur til að auðvelda stúlkum skólagöngu og auka öryggi þeirra.   

En hvers vegna er mikilvægt að íslensk stjórnvöld leggi eitthvað af mörkum til að styrkja stöðu stúlkna og kvenna í hinu fjarlæga Afganistan?  Landi, sem er þannig staðsett á heimskortinu að það hefur um aldir haft afar veika stöðu í átökum öflugra ríkja og íbúar þess búið við harðræði og grimmd mismunandi átaka, en síðustu 35 ár hafa einkennst af stöðugum stríðsátökum með tilheyrandi eyðileggingu, miklu mannfalli óbreyttra borgara og flótta stórs hluta þjóðarinnar ýmist innanlands eða utan – auk þess sem náttúruhamfarir eru tíðar í landinu.

Við slíkar aðstæður hrynja innviðir samfélagsins eins og heilbrigðis- og menntakerfi – en þrátt fyrir að miklar framfarir hafi orðið á síðustu árum og aðgangur að heilsugæslu hafi batnað er mæðra- og barnadauði enn mjög mikill og landið eitt það hættulegasta í öllum heiminum fyrir konur.

Eftir langan tíma með sífelldum stríðsrekstri þurfa raddir kvenna að heyrast við uppbyggingu landsins og það á ekki síst við á æðstu stöðum. Það skiptir máli að konur komi að friðarferlum og að reynsla þeirra nýtist til að byggja nærsamfélagið upp aftur. Til þess að slíkt sé mögulegt er mikilvægt að konur hafi nauðsynleg verkfæri til að takast á við svo risavaxin verkefni. Þar skiptir læsi og önnur menntun miklu máli því öll menntun eykur til muna aðgang að völdum og áhrifum í samfélaginu.  

Nokkur árangur hefur náðst frá innrásinni í Afganistan árið 2001 og nú stunda mun fleiri stúlkur nám en þá gerðu – konur standa þó enn mjög höllum fæti en tæplega áttatíu prósent fullorðinna kvenna getur hvorki lesið né skrifað á meðan hlutfallið er ríflega fimmtíu prósent meðal karla.  Góðu fréttirnar eru á hinn bóginn þær að á allra síðustu árum hefur læsi aukist meðal ungs fólks og í dag er talið að um helmingur þess hafi náð þeim áfanga að geta bæði lesið og skrifað. Enn eru drengir þó mun líklegri til að ganga í skóla en stúlkur. Ef eingöngu er horft til ungmenna á aldrinum 15–24 ára er talið að tæplega helmingur þeirra sæki skóla, um 30% ungra kvenna og 60% ungra karla.  

Veik staða kvenna í afgönsku samfélagi birtist ekki síst í tækifærum þeirra til menntunar.  Atvinnuþátttaka kvenna er tæp fimmtíu prósent en mikill meirihluti vinnur störf sem tengjast landbúnaði, þótt konur eigi eingöngu um tvö prósent alls lands. Afganskar konur eiga að meðaltali fimm til sex börn og um níutíu prósent þeirra segjast hafa upplifað kynbundið ofbeldi, verið neyddar í hjónabönd eða giftar á barnsaldri. Tíðni kynbundins ofbeldis er hærri í dreifbýli en í þéttbýli sem stafar af því að menntunarstigið í borgum og bæjum er hærra og líkurnar á því að konur séu beittar ofbeldi minnkar þegar hjón eru bæði læs.  Minnstar eru líkurnar á ofbeldi þegar bæði hafa reglulegar tekjur.

Auk alls þessa búa konur í Afganistan við hefðbundna og jafnvel hatramma andstöðu við þátttöku í opinberu lífi. Konur búa einfaldlega ekki við öryggi og hótanir og ofbeldi halda þeim frá þátttöku á hinum opinbera vettvangi. Tregða við að hleypa konum í stjórnmálin er mikil og enn eru karlar um sjötíu prósent þingmanna og rúmlega áttíu prósent ráðherra þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins kveði á um kynjakvóta í stjórnmálum.  Enda hefur landið, líkt og önnur lönd, skuldbundið sig til að jafna hlutfjöll kynjanna, en ekki einungis að fjölga konum í stjórnmálum eins og framkvæmdaáætlunin frá Peking kveður á um.

Afganistan er mjög gott dæmi um að ekki er nóg að fá kynjakvóta í þingsali – þeir eru þegar verst lætur einungis til málamynda. Of margar þingkonur eru leiksoppar karlanna og þótt trúarleiðtogar segist styðja þátttöku þeirra er vali þeirra stýrt af körlum sem hafa sterkari valdastöðu í samfélaginu en þær. Þá tekur tíma að byggja upp traust og samstöðu kvenna þvert á flokka, en slík samstaða getur lyft grettistaki. Við þekkjum það vel úr okkar eigin stjórnmálasögu að virk kvennahreyfing er nauðsynlegt afl til að koma hreyfingu á þau málefni sem varða konur mestu. Með því að efla menntun afganskra stúlkna og kvenna, batna lífsgæði þeirra og möguleikar á að afla sér lífsviðurværis sem aftur ýtir undir sjálfstæði þeirra, seinkar hjónaböndum  og gerir þeim kleift að taka þátt í félagsmálum, eins og störfum kvennahreyfinga, vera frumkvöðlar og skapa sín eigin störf. Þannig styðjum við einnig við hið borgaralega samfélag sem er afar veikt en mikilvægt fyrir alla lýðræðisþróun í landinu.

Í lokin langar mig að nefna að íslensk stjórnvöld hafa tekist á hendur skuldbindingar varðandi ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, friður og öryggi frá árinu 2000 og bera þar af leiðandi ábyrgð við framkvæmd hennar á alþjóðavettvangi. Hún undirstrikar mikilvægt hlutverk kvenna við að finna friðsamlega lausn í stríðsátökum og friðaruppbyggingu og leggur áherslu á jafna þátttöku þeirra og aðild að öllum aðgerðum sem ætlað er að viðhalda og stuðla að friði og öryggi. Ályktun 1325 ítrekar enn fremur nauðsyn þess að framkvæma að fullu alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög sem vernda réttindi kvenna og stúlkna í átökum og í kjölfar átaka.  Nú fimmtán árum síðar er þátttaka kvenna í friðarumleitunum og –uppbyggingu enn alltof lítil en á árunum 1992–2011 voru konur eingöngu fjögur prósent þeirra sem tóku þátt í friðarviðræðum á alþjóðavettvangi.

Í lok nóvember var stofnað í Ósló norrænt net kvenna í friðarumleitunum. Hugmyndin að netinu, sem tengir konur með reynslu af samningaumleitunum og störfum á átakasvæðum, er að hvetja til þess að konur komi í auknum mæli að friðarumleitunum á alþjóðavettvangi. Reynslan sýnir að friðarsamningar sem konur koma að leiða oftar til niðurstöðu en þar sem þær taka ekki þátt, ekki síst vegna hlutverks þeirra þegar kemur að því að innleiða friðarsamningana.

Gréta Gunnarsdóttir sendiherra, ein þeirra sem sitja fyrir Íslands hönd í ráðgjafahópi netsins, sagði við stofnun netverksins að við eigum ekki að þurfa að útskýra hvers vegna konur eiga erindi að samningaborðinu, ekki frekar en hvers vegna karlar sitja þar. Ætlunin er að netið tengist öðrum alþjóðlegum hópum kvenna í samningaumleitunum, í aðdraganda friðarsamninga, samningunum sjálfum og við að framfylgja þeim.

Fyrir skömmu bárust okkur þær fréttir að Ísland skipi nú, sjöunda árið í röð, efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins á sviði kynjajafnréttis. Hin Norðurlöndin skipa sér í efstu sæti listans næst á eftir Íslandi sem staðfestir þann góða árangur sem náðst hefur á norrænum vettvangi jafnréttismála. Þótt enn sé nokkuð í land að jafnri stöðu og jöfnum áhrifum kvenna og karla hafi verið náð í íslensku samfélagi þá ber að halda því til haga sem vel er gert og hefur borið góðan árangur. Okkur ber skylda til að miðla þekkingu okkar og árangri á sviði jafnréttismála út á alþjóðavettvang – einn liður í því starfi er að stuðla að aukinni menntun og valdeflingu kvenna í öðrum heimshlutum og okkur ber að styðja verkefni UN WOMEN og UNICEF sem meðal annars hafa aukin réttindi kvenna stúlkna að meginmarkmiði.

Framundan er spennandi dagskrá og ég hlakka til að læra af þeim sem hér munu taka til máls.

Takk fyrir.

 

 

 

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum