Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skref til framfara í að uppræta einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra á morgunverðarfundi Vinnueftirlitsins og velferðarráðuneytisins gegn einelti, 17. maí 2016.

Góðan dag góðir fundarmenn og liðsmenn mikilvægrar vinnu við að uppræta einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Þessi fundur er haldinn undir undir yfirskriftinni; „skref til framfara í að uppræta einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.“  Við höfum stigið skref í þessum efnum, - fleiri en eitt og fleiri en tvö og okkur miðar áfram. Ég held að við verðum samt að viðurkenna að þetta er ganga sem aldrei tekur enda. Baráttan gegn einelti, hvort sem er á vinnustöðum eða annars staðar í samfélaginu er og viðvarandi verkefni sem við megum aldrei vanrækja. Við þurfum jöfnum höndum að sinna aðgerðum til að fyrirbyggja einelti, og að efla faglega getu og þekkingu til að bregðast við eineltismálum þegar þau koma upp.

Árið 2004 var reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustöðum birt hér á landi þar sem markmiðið var meðal annars að stuðla að forvörnum. Mörg fyrirtæki og stofnanir hafa í samræmi við reglugerðina gert áhættumat og aðgerðaáætlanir og tekið á þessum málum af fullri alvöru. Skilningur fyrir mikilvægi þessa er sem betur fer að aukast og vonandi kemur að því fyrr en síðar að virkar eineltisáætlanir á vinnustöðum verða jafn sjálfsagðar og öryggisskór, heyrnarhlífar og hávaðamælingar.

Vinnueftirlitið tekur á móti kvörtunum um einelti frá þeim sem telja sig hafa orðið fyrir einelti eða annarri ótilhlýðilegri háttsemi á sínum vinnustað og telja sig ekki hafa fengið lausn sinna mála. Á árunum 2004-2015 bárust Vinnueftirlitinu yfir 200 slíkar kvartanar. Við getum ekki gert ráð fyrir að fjöldi kvartana gefi okkur raunhæfa mynd af umfangi vandans á vinnumarkaði, en etv gefur vaxandi fjöldi kvartana á milli áranna 2004 og 2015 til kynna að þekking á málaflokknum hefur aukist og að starfsfólk geri í auknum mæli kröfur um að úr slíkum vanda sé leyst. Þetta vísar einnig til þess að einelti eða önnur skyld háttsemi er ekki liðin í nútíma vinnuumhverfi. Þannig getum við leyft okkur að tala um að setning reglugerðarinnar hafi verið skref fram á við.  

Vellíðan í vinnu er mikilvæg, bæði fyrir starfsfólk sem og atvinnulífið í heild. Starfsfólki sem líður vel í vinnu er líklegra til að njóta almennt betri lífsgæða, vera skapandi og afkastameira. Það er með öllu óásættanlegt að einstaklingar skaðist vegna vinnu sinnar. Einelti, áreitni og ofbeldi í vinnu getur verið þeim sem fyrir því verður mjög skaðleg. Rannsóknir, bæði innlendar og erlendar, hafa sýnt fram á verri líðan og heilsubrest þolanda slíkrar hegðunar. Þannig getur einelti, áreitni eða annað ofbeldi leitt til lakari geðheilsu og verri líkamlegrar heilsu. Það sýnir sig einnig að þolendur geta hlotið þann skaða af að þeir verði óvinnufærir með öllu ýmist tímabundið eða til langs tíma. Aukin fíkniefna- og áfengisneysla meðal þolanda eineltis er einnig þekkt og enn skuggalegri hlið er sú að sjálfsvígshætta eykst. Það er því mjög brýnt að þessum málaflokki sé sinnt.

Tíðni eineltis hér á landi hefur verið mælt meðal nokkurra starfshópa og þær gefa til kynna að um 8-20% starfsmanna í völdum starfsgreinum telja sig hafa upplifað einelti á sínum starfsferli. Í könnun meðal opinberra starfsmanna frá árinu 2008 kom fram að 10% töldu sig hafa upplifað einelti á sl. 12 mánuðum og um fjórðungur starfsfólks sagðist hafði orðið vitni að einelti. Um þriðjungur þeirra sem sögðust hafa upplifað einelti sögðu að eineltið hefði varað í 2 ár eða lengur. Einungis 12% þeirra sem töldu sig hafa upplifað einelti lagði fram formlega kvörtun, og þá töldu þeir einstaklingar sem lögðu fram kvörtun að í langflestum tilfellum hefði kvörtunum þeirra ekki verið fylgt eftir með viðeigandi hætti. Algengustu áhrif eineltis á líðan þeirra sem telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum lýsa sér í kvíða fyrir því að koma til vinnu, skertu sjálfstrausti, minnkuðu starfsframlagi og svefnröskunum.

Sú mynd sem hér er dregin upp er ekki viðunandi. Hún sýnir með afgerandi hætti að enn er þörf á frekara starfi. Einn liður í að bæta úr þessum þáttum var endurskoðun á reglugerðinni frá árinu 2004 og var ný reglugerð birt í tengslum við dag gegn einelti á síðasta ári þar sem meðal annars er að finna ítarlegri ákvæði um skyldur atvinnurekanda en áður var samkvæmt eldri reglugerðinni, eins og Ásta Snorradóttir, fagstjóri Vinnueftirlitsins fer nánar yfir hér á eftir.

Það er engin spurning að með endurskoðun eineltisreglugerðarinnar hafa verið tekin fleiri skref sem til framfara horfa og eru líkleg til að bæta vinnuaðstæður og vinnuumhverfi fólks í því sem snýr að samskiptum og vellíðan fólks á vinnustað.

Góðir fundarmenn.

Laga- og reglugerðasetning er mikilvæg leið til þess að setja fram skýra stefnu, skapa mikilvægum málefnum umgjörð og kveða á um réttindi og skyldur þeirra sem hlut eiga að máli. Orð á blaði duga þó aldrei ein og sér, það þarf að fylgja málum eftir. Með þetta í huga ákvað ég á þessu ári að veita 10 milljónum króna til Vinnueftirlitsins vegna verkefna sem tengjast félagslegum þáttum í vinnuumhverfi fólks. Helmingur fjárins verður nýttur til að auka fræðslu á þeim sviðum sem eineltisreglugerðin tekur til. Stefnt er að útgáfu fræðslu- og kynningarefnis fyrir starfsfólk og stjórnendur og einnig verður unnið að rannsókn og haldnir verða fleiri fræðslufundir sem þessi.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég nota tækifærið og segja frá því að fyrir skömmu var lokið við þá vinnu í velferðarráðuneytinu að endurskoða stefnu og áætlun ráðuneytisins gegn einelti í samræmi við nýju reglugerðina. Sú stefna og áætlun hefur verið birt á vef ráðuneytisins þar sem áhugasamir geta kynnt sér hana og jafnvel haft af henni eitthvert gagn.

Ég vil að lokum þakka Vinnueftirlitinu fyrir undirbúning að fundinum hér í dag. Þetta er mikilvægt málefni sem hér er til umfjöllunar.  Við skulum feta veginn fram á við með það að markmiði að vinnustaðir verði góðir og öruggir staðir þar sem fólki líður vel og starfkraftar þess og hæfileikar fá notið sín til fulls við bestu aðstæður.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum