Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. júlí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Árangur í málefnum fatlaðs fólks

Grein eftir Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra.
Birtist í Fréttablaðinu 7. júlí 2016

Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks hefur reynst mikilvægt tæki í að vinna að uppfyllingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ályktunin var samþykkt á Alþingi þann 1. júní 2012. Í áætluninni voru tilgreind 43 verkefni á átta málasviðum sem lúta að aðgengi, atvinnu, félagslegri vernd og sjálfstæðu lífi, heilbrigði, ímynd og fræðslu, mannréttindum, menntun og þátttöku í samfélaginu. Framkvæmdaáætlunin átti að gilda 2012 til 2014, en gildistími hennar var framlengdur uns ný áætlun tæki við þar sem fjárveitingar til hennar voru minni en væntingar stóðu til á því tímabili. Úr því var bætt og fjölmörg verkefni hafa orðið að raunveruleika.

Nefna má styrki til úttektar á aðgengi fatlaðs fólks að þeim stöðum sem almenningur hefur aðgang að og styrkur til að gerðar handbókar fyrir ferðaþjónustuaðila um aðgengismál; vitundarvakningu og átaksverkefni til að auka atvinnumöguleika fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði í samstarfi við Vinnumálastofnun; styrki til nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna í velferðarþjónustu til að auka lífsgæði notenda, Hjálpartækjamiðstöð Sjúkratrygginga fékk styrk til fræðslu í meðferð og þróun tjáskiptatækja og haldið var sérstakt málþing um velferðartækni; Barnaverndarstofa fékk styrk til að veita starfsmönnum í barnavernd, félagsþjónustu og hjá Barnahúsi þjálfun í að vinna með fötluðum börnum sem hafa orðið fyrir ofbeldi; og sjónvarpsþættirnir Með okkar augum fengu sérstakan styrk.

Vinna að nýrri framkvæmdaáætlun er hafin og er áhersla lögð á víðtækt samráð og þátttöku við gerð hennar. Nánari upplýsingar eru á vef ráðuneytisins: www.velferdarraduneyti.is/framkvaemdaaaetlun.

Vegna sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur starfshópur á mínum vegum undir forystu Willums Þórs Þórssonar þingmanns lagt fram frumvarpsdrög með veigamiklum breytingum á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og málefni fatlaðs fólks. Drögin hafa verið birt til umsagnar á vef ráðuneytisins. Þá er það von mín að drög að nýrri framkvæmdaáætlun verði birt til umsagnar í byrjun september.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum