Hoppa yfir valmynd

Sögulegt efni

Úr sögu félagsmálaráðuneytisins

Þegar Ísland fékk heimastjórn árið 1904 tók stjórnarráð til starfa í Reykjavík og tók yfir þau störf sem íslenska ráðuneytið í Kaupmannahöfn hafði haft til meðferðar, ásamt stærstum hluta þeirra starfa sem landshöfðingi, amtmenn, stiftsyfirvöld og amtsráð höfðu sinnt (Agnar Kl. Jónsson, Stjórnarráð Íslands 1904–1964, Reykjavík; Sögufélagið, 1969). Í fyrstu var stjórnarráðinu skipt í þrjár skrifstofur – einnig oft nefndar deildir – og var einn skrifstofustjóri yfir hverri skrifstofu en þær voru: I. skrifstofa (kennslumála- og dómsmáladeild), II. skrifstofa (atvinnu- og samgöngumáladeild) og III. skrifstofa (fjármála- og endurskoðunardeild). Ráðherra var einungis einn í fyrstu og hafði hann landritara sér til aðstoðar en hann var nokkurs konar yfirskrifstofustjóri stjórnarráðsins, gekk næstur ráðherra og var staðgengill hans.

Árið 1917 urðu þær breytingar að stjórnarráðið hætti að vera ein heildarstofnun með því að ráðherrarnir urðu þrír og fékk hver ráðherra sitt afmarkað verksvið eða „deild“. Sama ár var embætti landritara lagt niður og urðu skrifstofustjórar hvers ráðuneytis þá næstir ráðherra. Árið 1922 var heiti deildanna formlega breytt í „ráðuneyti“ og hefur það heiti haldist síðan.

Þessi skipan hélst formlega í nær 50 ár. Á þeim tíma áttu sér stað miklar breytingar á stjórnarráðinu við sundurgreiningu hinna gömlu ráðuneyta og stofnun og útþenslu nýrra.

Undirbúningur löggjafar fyrir stjórnarráðið stóð í rúman áratug og lauk með samþykkt laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 73/1969, en þau tóku gildi þann 1. janúar 1970. Upphaflega voru ráðuneytin þrettán, þ.e. forsætisráðuneyti, dóms- og kirkjumálaráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, Hagstofa Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti, utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti. Eitt ráðuneyti bættist við árið 1990 þegar samþykkt voru lög um sérstakt umhverfisráðuneyti. Jafnframt var lögfest ákvæði um að hvorki mætti stofna nýtt ráðuneyti né leggja niður nema með lögum og að ekki megi skipta verkefnum ráðuneytis á milli ráðherra.

Félagsmálaráðuneytið varð til sem sérstakt og sjálfstætt ráðuneyti í september 1946. Áður eða frá 1939 er það var raunverulega stofnað hafði það skrifstofur og starfslið sameiginlegt með atvinnu- og samgönguráðuneytinu. Með gildistöku laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands hurfu almannatryggingar og aðrar tryggingar, sem áður höfðu heyrt undir félagsmálaráðuneytið, til hins nýstofnaða heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Í reglugerð um Stjórnarráð Íslands nr. 96/1969 er kveðið á um verkefni félagsmálaráðuneytisins og þar kemur fram að ráðuneytið skuli fara með mál er varði stjórn sveitarfélaga og sýslna, íbúðarhúsnæðis og vinnu.

Frá árinu 1970 hafa nokkrar breytingar orðið á verkefnum félagsmálaráðuneytisins. Helstar eru eftirfarandi:

Með lögum nr. 64/1985 var sett á fót Byggðastofnun. Eitt af hlutverkum stofnunarinnar er að láta gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að treysta búsetu og atvinnu í byggðum landsins. Þar með yfirtók stofnunin hlutverk svokallaðs Atvinnujöfnunarsjóðs.

Deild sem fer með málefni fatlaðra var sett á fót samkvæmt 3. gr. laga um þroskahefta nr. 17/1979 en þau lög tóku gildi 1. janúar 1980. Deildin starfaði síðan samkvæmt lögum nr. 41/1979 en þau lög tóku gildi 1. janúar 1980. Deildin starfaði síðan samkvæmt lögum nr. 41/1983 um málefni fatlaðra sem öðluðust gildi 1. janúar 1984 en samkvæmt 3. gr. þeirra laga skal félagsmálaráðuneytið annast málefni fatlaðra. Umfang þessara mála hefur farið sívaxandi, sérstaklega eftir gildistöku laga nr. 41/1983. Ráðuneytið annast daglegan rekstur framkvæmdasjóðs fatlaðra.

Vinnumálaskrifstofan var sett á fót samkvæmt 53. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979 og þann 1. júlí 1997 var Vinnumálaskrifstofunni breytt í Vinnumálastofnun samkvæmt lögum nr. 13/1997 um vinnumarkaðsaðgerðir. Starfsemi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var efld verulega árið 1990 í tengslum við róttækar breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Við flutning grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga 1996 varð enn mikil aukning á starfsemi sjóðsins.

Árið 1990 var stofnað sérstakt umhverfisráðuneyti. Áður hafði félagsmálaráðuneytið sinnt að hluta til umhverfismálum en ekki voru skýr lagafyrirmæli um hvar umhverfismál ættu heima. Síðar á sama ári var ákveðið að flytja einnig byggingar og skipulagsmál frá félagsmálaráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins.

Næst urðu breytingar á verkefnum félagsmálaráðuneytisins á árinu 1993. Þann 1. janúar það ár tóku gildi ný lög um vernd barna og ungmenna nr. 58/1992 og fluttist sá málaflokkur þá frá menntamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Einnig urðu þær breytingar þetta ár að atvinnuleysistryggingar fluttust frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Árið 1997 var ákveðið að brunamál flyttust frá félagsmálaráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins vegna náinna tengsla þeirra mála og byggingarmála.

Starfsemi ráðuneytisins var frá árinu 2002 skipt í fjórar skrifstofur, þ.e. almenna skrifstofu, skrifstofu fjölskyldumála, skrifstofu jafnréttis- og vinnumála og skrifstofu sveitarstjórnarmála.

Verulegar breytingar urðu á verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins 1. janúar 2008 samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Með breytingunum fluttist yfirstjórn málefna aldraðra og almannatrygginga frá heilbrigðisráðuneyti til félags- og tryggingamálaráðuneytis en ábyrgð á sveitarstjórnarmálum fluttist frá félags- og tryggingamálaráðuneytisins til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Úr sögu velferðarráðuneytisins

Þann 9. september 2010 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969, þar sem kveðið var á um sameiningu ráðuneyta og fækkun þeirra úr tólf í níu. Samkvæmt lögunum varð til nýtt velferðarráðuneyti við sameiningu heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Velferðarráðuneytið tók til starfa 1. janúar 2011.

Helstu rök fyrir same

iningu ráðuneytanna tveggja snúa að því að móta heildstæða stefnu á sviði velferðarþjónustu á öllum stigum, frá félagslegum stuðningi til heilbrigðisþjónustu. Í greinargerð með lagafrumvarpinu um sameininguna er bent á að óskýr verkaskipting milli þessara ráðuneyta standi í ýmsum tilvikum þjónustu fyrir þrifum og bitni á þeim sem þurfi á velferðarþjónustu að halda. Með sameiningunni er stefnt því að koma á sveigjanlegri og samþættri þjónustu um allt land, bæta nýtingu fjármuna, efla eftirlit með velferðarþjónustu á öllum stigum, samþætta velferðarúrræði, til dæmis heimahjúkrun og heimaþjónustu og einnig að einfalda samstarf og samskipti við sveitarstjórnarstigið.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum