Hoppa yfir valmynd
02. maí 2018 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Börnin okkar - 8. maí

Ásmundur Einar Daðason - myndVelferðarráðuneytið

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra skrifar:

Í velferðarmálum ræðum við oft um hvernig eigi að bregðast við vanda sem þegar er til staðar. En getur samfélagið gripið fyrr inn með aðstoð? Erum við að leggja nægilega áherslu á forvarnir og snemmtæka íhlutun með sérstakri áherslu á að styrkja fjölskyldur og börn í áhættu?

Eftir talsverða yfirferð hef ég ákveðið að setja af stað vinnu við að endurskoða félagslega umgjörð þegar kemur að málefnum barna með sérstakri áherslu á snemmtæka íhlutun. Ráðherrar málaflokka sem bera ábyrgð á málasviðum sem tengjast börnum og fjölskyldum þeirra, sveitarfélög, grunnskóli, heilbrigðisþjónustan, barnavernd, frjáls félagasamtök o.fl. þurfa að koma að þessari umræðu. Við þurfum að stefna að þverpólitískri nálgun og sátt. Samþætta þarf þjónustu ólíkra aðila og auka samfellu svo hún sé betur sniðin að þörfum barna.

Þessi vinna verður formlega sett af stað með ráðstefnu 8. maí næstkomandi, þar sem hugsunin er að fá sem flesta að borðinu. Yfirskriftin er „Snemmtæk íhlutun í málefnum barna á Íslandi“ eða SIMBI. Þar verður unnt að hlýða bæði á innlenda og erlenda fyrirlesara auk þess sem ætlunin er að öllum gefist færi á að taka þátt í umræðum og koma með ábendingar um forgangsröðun. Skráning, dagskrá og allar nánari upplýsingar eru á www.radstefna.is.

Í framhaldinu verður skipaður stýrihópur sem fer með það hlutverk að halda utan um vinnuna í þverpólitísku samráði og með aðkomu þeirra sem koma að málefnum barna. Í þeirri vinnu þurfum við að leyfa okkur að hugsa „út fyrir rammann“ horfa til breyttrar nálgunar í veitingu þjónustu, mögulegra kerfisbreytinga, sameininga á þjónustutilboðum og leggja enn meiri áherslu á snemmtæka íhlutun og samfellu í þjónustu.

Ég tel mikilvægt, fyrir börnin okkar og samfélagið í heild, að við náum fram breytingum. Í þeirri vinnu skipta öll sjónarmið miklu máli og þess vegna viljum við fá þig að borðinu 8. maí næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira