Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2018 Félagsmálaráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Auðveldum ungu fólki að kaupa fyrstu fasteign

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra skrifar:

Húsnæðismál eru velferðarmál. Eitt af meginhlutverkum hins opinbera er að halda uppi öflugu velferðarkerfi þar sem öllum landsmönnum, óháð búsetu, er tryggð örugg framfærsla, heilbrigðis- og félagsþjónusta, menntun og raunhæfur kostur á að eignast eða leigja sér öruggt húsnæði. Þess vegna verða stjórnvöld og samfélagið sem heild að líta á og nálgast húsnæðismál með sama hætti og önnur brýn velferðarmál.

Staðan á íslenskum húsnæðismarkaði er þannig í dag að skortur er á íbúðum fyrir ungt fólk og tekjulága á viðráðanlegu verði. Samkvæmt nýjustu könnun Íbúðalánasjóðs telja 57% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi samanborið við 94% þeirra sem búa í eigin húsnæði. Einungis 8% leigjenda eru á leigumarkaði vegna þess að þeir vilja vera þar en 64% leigjenda segjast vera á leigumarkaðnum af nauðsyn. Þetta er ekki ásættanlegt. Fasteignaverð hefur stórhækkað og kaupendur að fyrstu íbúð þurfa annað hvort að eiga nokkrar milljónir króna í sparifé eða fá hjálp frá aðstandendum til að geta keypt íbúð. Margir eru í þeirri stöðu að þessir kostur eru einfaldlega ekki í boði. „Að eignast þak yfir höfuðið“ fyrir unga og tekjulága einstaklinga er við núverandi aðstæður risavaxið verkefni svo ekki sé dýpra í árina tekið. Við þessu þarf að bregðast.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þess.“

Í samræmi við þetta höfum við verið að kortleggja þau úrræði sem stjórnvöld í nágrannalöndum okkar bjóða upp á fyrir tekjulága á íbúðamarkaði. Þar hefur einkum verið litið til Noregs og Sviss. Í Sviss er heimilt að nýta uppsafnaðan lífeyrissparnað til að afla eiginfjárframlags vegna íbúðakaupa. Ýmist er hægt að fá sparnaðinn fyrirframgreiddan eða veðsetja hann. Almennur lífeyrissparnaður má vera allt að 90% kaupverðs en viðbótarlífeyrissparnaður allt að 100%.

Husbanken, sem er systurstofnun Íbúðalánasjóðs í Noregi, býður upp á sérstakan húsnæðisstuðning, svokölluð Startlán, til að aðstoða afmarkaðan hóp tekjulágra við að kaupa sér íbúð. Startlán eru íbúðalán með lægri vöxtum og lægri eiginfjárkröfu en tíðkast á markaði. Þau eru aðeins veitt þeim sem geta ekki aflað sér fjármögnunar fyrir íbúð með hefðbundnum hætti. Stærsti hópur lántaka eru fjölskyldur sem búa við slæma fjárhagslega stöðu en startlán hafa einnig verið veitt m.a. til fyrstu kaupenda, flóttamanna, fólks með fötlun og fólks sem býr við félagsleg vandamál.

Nýlega lagði ég fram tillögu í ríkisstjórn um að farið væri í að útfæra fyrrgreindar lausnir hér á landi. Ég bind miklar vonir við að úrbætur til handa fyrstu kaupendum verði til þess að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn.

Grein ráðherra birtist í Morgunblaðinu 29. nóvember 2018.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira