Hoppa yfir valmynd
29. júní 2019 Félagsmálaráðuneytið

Samstaða um raunverulegar breytingar fyrir börn og fjölskyldur

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, skrifar:

Umfangsmikil vinna stendur nú yfir við heildarendurskoðun barnaverndarlaga og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi. Leiðarstefið í allri þeirri vinnu er samvinna. Samvinna þeirra ráðherra ríkisstjórnarinnar og ráðuneyta sem fara með málefni barna. Samvinna þingmanna úr öllum flokkum sem nú sitja á þingi. Samvinna og samtal fagfólks og sérfræðinga af ólíkum sviðum og samvinna og samtal við notendur kerfisins eins og það er í dag – ekki síst við börn og ungt fólk.  

Í  bréfi sem var sent út í febrúar til ríflega 600 viðtakenda sem hafa með málefni barna að gera var biðlað til allra þeirra sem hefðu getu og vilja til að leggja sitt af mörkum að taka þátt í vinnunni fram undan. Þar var þeim boðið að sækja fundi hliðarhópa þar sem ýmsar áskoranir og sértæk verkefni yrðu rædd. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og hafa á annað hundrað þátttakendur verið virkir í hliðarhópum sem hafa verið starfræktir í vetur og deilt þar dýrmætri þekkingu og reynslu. Þar hefur til dæmis verið fjallað um forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir, samtal þjónustukerfa, skipulag og skilvirkni úrræða, nýtt barnaverndarkerfi og börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Samtakamáttur

20. júní síðastliðinn boðaði ég, Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra til vinnufundar þingmannanefndar í málefnum barna þar sem þátttakendur hliðarhópanna komu saman. Má segja að þar hafi farið fram eins konar uppskeruhátíð þar sem vinna vetrarins var gerð upp og framhaldið kortlagt.

Fundurinn var ekki bara merkilegur í ljósi þverpólitískrar samvinnu og aðkomu aðila úr ólíkum kerfum heldur var það ekki síður sá andi sem sveif yfir vötnum sem vakti lukku. Trúin á að þetta sé hægt. Að saman getum við breytt kerfinu þannig að það vinni eins og við viljum og styðji betur við börn og fjölskyldur þeirra.

Kerfisbreytinga þörf

Verkefnið er hins vegar ekki auðvelt og mögulega er róttækra breytinga þörf. Meðal þess sem kem­ur fram í niður­stöðum hliðar­hóp­anna er að ein­falda þurfi kerfið eins og það snýr að börnum. Mik­il­vægt sé að skoða upp­stokk­un þess og sam­ein­ing­ar stofn­ana eða breytingar á þeim. Þá þurfi í hvívetna að skima fyrir vísbendingum um vanda hjá börnum eða fjölskyldum og meta þörf fyrir stuðning tímanlega. Tryggja þarf að hægt sé að kalla fram heildarsýn þegar kemur að málefnum barna og að börn þurfi ekki að búa við erfiðleika, stóra sem smáa, til lengri tíma.

Það þarf að finna ábyrgð á því að grípa fjölskyldu eða barn stað í nýju og breyttu kerfi og skilgreina hver á að fylgja málum eftir. Þá þurfa að vera skýrir verkferlar um hvert hlutverk hvers og eins þjónustuaðila sé og hvernig þeir tala saman. Má þar nefna skóla, félagsþjónustu, heilsugæslu og lögreglu. Eins þarf að gæta þess að börn og fjölskyldur fái ekki ófullnægjandi þjónustu vegna þess að ekki er skýrt hver á að borga fyrir hana. Þess utan voru kynntar hug­mynd­ir um að leggja niður barna­vernd­ar­nefnd­ir sveit­ar­fé­laga í núverandi mynd og setja á lagg­irn­ar mun færri fagskipuð, þverfag­leg svæðisráð.

Vel nestuð til aðgerða

Það er af ýmsu að taka en eftir vinnuna í vetur og þennan afkastamikla vinnufund erum við vel nestuð til undirbúnings raunverulegra aðgerða. Þær munu krefjast breytinga og lausna þvert á kerfi og samstarfs ráðherra. Næsta skref er að undirbúa aðgerðaráætlun þvert á ráðuneyti um hverju þurfi að breyta þegar kemur að lögum og reglugerðum og hvaða skref þurfi að stíga þegar kemur að hinum ýmsu kerfisbreytingum.

Við þurfum öll að leggja okkar af mörkum í þessari vinnu. Hún er í þágu barna og fjölskyldna og við erum við á réttri leið. Framtíðin býr í börnunum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júní 2019

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira