Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. janúar 2007 Félagsmálaráðuneytið

Ávarp um vinnuvernd á ráðstefnu Vinnueftirlits ríkisins

Ágætu ráðstefnugestir.

Fréttir af alvarlegum vinnuslysum síðustu misserin valda áhyggjum. Samkvæmt tölum Vinnueftirlitsins hafði þróunin verið í rétta átt. Alvarlegum vinnuslysum, það er dauðaslysum, fór fækkandi. Á fimm ára tímabilinu frá 2001 til 2005 urðu að meðaltali tvö dauðaslys á ári við vinnu. Við vorum þar með komin í hóp þeirra þjóða sem best standa sig í vinnuverndarstarfinu. Á síðasta ári bregður hins vegar svo við að dauðaslysin voru orðin sjö. Ekki er vafi í mínum huga að þessi tala gefur tilefni til þess að allir aðilar haldi vöku sinni. Þess vegna skiptir svo miklu máli að vinnuverndarmálin séu til umræðu, það sé rætt um forvarnir gegn slysum og starfsmenn hafi vakandi auga með hugsanlegum slysagildrum, efnum og aðstæðum á vinnustaðnum sem geta haft heilsuspillandi áhrif.

Það er því sérstaklega þakkarvert þegar Vinnueftirlit ríkisins á frumkvæði að því að stofna til ráðstefnu eins og þeirrar sem er að hefjast hér í dag. Það er bæði rétt og skylt að taka fram að Vinnueftirlitið hefur á umliðnum árum haldið fjölmargar ráðstefnur og kynningarfundi um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum svo að vísað sé til heitis laganna sem í daglegu tali eru nefnd vinnuverndarlögin. Þeir sem til þekkja vita að Vinnueftirlitið hefur haldið út öflugu fræðslu- og kynningarstarfi sem mér finnst ástæða til að halda á lofti.

Viðfangsefni þessarar ráðstefnu er að kynna nýja reglugerð, nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs. Reglugerðin styðst við róttækar breytingar sem voru gerðar á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Með þeim voru tiltekin ákvæði laganna samræmd ákvæðum í tilskipun Evrópusambandsins um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum.

Kjarni breytinganna á vinnuverndarlögunum og jafnframt efni nýju reglugerðarinnar felst í því að ábyrgð atvinnurekanda er aukin á vinnuvernd sem taki til alls vinnustaðarins. Það er með öðrum orðum verið að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi á vinnustöðum sem hefur að meginmarkmiði að greina áhættuþætti þannig að koma megi í veg fyrir slys og vinnutengda sjúkdóma.

Mikilvægasta tækið í þessu sambandi er skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Þessa áætlun skal semja í samráði við öryggisverði eða öryggistrúnaðarmenn eða aðra fulltrúa starfsmanna. Með henni verður markvisst unnið að stöðugum umbótum á vinnustaðnum undir stjórn og á ábyrgð atvinnurekandans. Hugsunin er sú að vinnuverndin verði eðlilegur þáttur í starfi fyrirtækisins sem hafi að leiðarljósi að starfsmenn geti verið í þjónustu þess árum saman, jafnvel alla starfsævina, án þess að andlegt eða líkamlegt atgervi verði fyrir skaða.

Síðasta áratuginn hafa orðið miklar umbætur á vinnuverndarstarfinu á Íslandi og hafa verið gerðar nokkrar breytingar á stjórnsýslunni. Það sem skiptir hins vegar miklu er að rannsóknir hafa leitt í ljós að það eru mun fleiri þættir en menn gerðu sér grein fyrir sem hafa mikil áhrif á það hvernig fólki líður í vinnunni. Vinnueftirlitið hefur verið mjög vakandi fyrir framvindunni. Nefna má sem dæmi fræðslu og aðrar fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Það er gaman að geta þess að það var fyrir frumkvæði Svía og Íslendinga að ákvæði um einelti var á sínum tíma tekið upp í fyrsta skipti í alþjóðasamning á sviði vinnuverndar. Það gerðist við endurskoðun á félagsmálasáttmála Evrópu fyrir rúmum áratug síðan. Vinnueftirlitið hefur einnig reynt að vekja stjórnendur og starfsmenn til umhugsunar um streituvaldandi þætti í vinnuumhverfinu. Síðast en ekki síst má nefna í þessu samhengi sýnatöku úr starfsmönnum þar sem vegast á persónuvernd og vinnuvernd. Þegar að er gáð eru fjölmörg atriði sem koma til athugunar og álita þegar vinnuverndin er annars vegar.

Það er ljóst að á síðustu árum hefur íslensk löggjöf og reglugerðir á sviði vinnuverndar tekið mið af skuldbindingum okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þær raddir hafa heyrst sem hafa gagnrýnt reglugerðaflóðið frá Brussel á þessu sviði sem og öðrum. Ég tel hins vegar vert að benda á ýmis svið þar sem segja má að þróunin hafi orðið til góðs. Takmörkun á vinnutíma lengir þann tíma sem fjölskyldan getur verið saman. Þreyttur starfsmaður getur verið mjög hættulegur samstarfsmönnum og samferðamönnum, til dæmis ef um er að ræða vansvefta bifreiðastjóra. Takmörkun á vinnu barna er spurning um að þau ofgeri sér ekki við vinnu sem meðal annars getur komið niður á námi sem síðar takmarkar kosti varðandi val á starfi. Vinnuslys og atvinnusjúkdómar geta orðið þungur baggi á samfélaginu ef slælega er staðið að vinnuverndarmálum. Þannig má benda á fjölmörg atriði sem öll hníga í sömu átt. Vinnuverndin á að vera forgangsmál í atvinnulífinu. Allar rannsóknir sýna að öruggir vinnustaðir og ánægt starfsfólk er forsenda þess að fyrirtæki nái árangri. Fjárfesting í vinnuvernd er þannig góð fjárfesting.

Þótt Evrópusambandið hafi látið vinnuverndarmálin mjög til sín taka eru fleiri aðilar mikilvægir á þessu sviði. Í nóvember var lögð fyrir Alþingi skýrsla félagsmálaráðherra um 93. og 94. þing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Alþjóðavinnumálaþingið. Í skýrslunni er birt einhver viðamesta vinnuverndarsamþykkt sem vinnumálaþingið hefur afgreitt til þessa. Þetta er ný alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna. Í skýrslu um 95. Alþjóðavinnumálaþingið sem haldið var í sumar og verður lögð fyrir Alþingi í febrúar er birt  rammasamþykkt sem hefur að geyma leiðbeinandi reglur um skipan vinnuverndarmála. Á komandi Alþjóðavinnumálaþingi sem verður haldið í júní í sumar er gert ráð fyrir afgreiðslu alþjóðasamþykktar um vinnuskilyrði fiskimanna. Með afgreiðslu hennar hefur Alþjóðavinnumálastofnunin lokið endurskoðun á öllum eldri alþjóðasamþykktum um vinnuaðstæður farmanna og fiskimanna og fært þær til nútímahorfs.

Ágætu ráðstefnugestir.

Ég vil ljúka máli mínu með því að leggja áherslu á að þótt lög og reglugerðir séu mikilvægur grunnur skiptir framkvæmdin höfuðmáli. Það hefur takmarkaða þýðingu að setja lög og gefa út reglugerðir ef skilningurinn á þörfinni er takmarkaður. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að vinnuverndarmálin séu sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda, atvinnurekenda og launafólks. Upplýsingar, fræðsla og greið skoðanaskipti eru lykilatriði. Þess vegna er ráðstefna eins og sú sem er að hefjast hér í dag svo mikilvæg.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira