Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. apríl 2007 Félagsmálaráðuneytið

Mótum bjarta framtíð

ÁTTATÍU og ein þjóð auk Evrópusambandsins undirritaði alþjóðasamning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra á föstudag. Aldrei fyrr hafa svo margar þjóðir sameinast um einn sáttmála á aðeins einum degi.

Fjölmenni á ráðstefnu félagsmálaráðuneytisins og fleiri aðila um strauma og stefnur í félagslegri þjónustu, sem haldin var á Nordica hóteli, fylgdist með beinni sjónvarpsútsendingu frá New York þegar Harald Aspelund, varafastafulltrúi Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum, undirritaði samninginn og viðbótarbókun hans fyrir Íslands hönd. Betri endi á vel heppnaðri og óvenjulega fjölsóttri ráðstefnu er ekki hægt að hugsa sér.

Verndar réttindi milljóna

Samningurinn er afrakstur fimm ára viðræðna með virkri þátttöku hagsmunasamtaka fatlaðra og geðfatlaðra. Honum er ætlað að tryggja og vernda réttindi um 650 milljóna fatlaðra einstaklinga um heim allan. Með undirritun Íslands tekur íslenska þjóðin þátt í að breiða út þann boðskap að fatlaðir og aðrir skuli standa jöfnum fótum. Manngildi þeirra sé hið sama. Óheimilt sé að mismuna fötluðum og geðfötluðum. Eyða skuli fordómum og líta til færni fatlaðra einstaklinga og möguleika þeirra til þátttöku á öllum sviðum þjóðlífsins, svo sem hvað snertir atvinnu, menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngur og aðgang að réttaraðstoð.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, óttast að 90% fatlaðra barna í þróunarlöndunum njóti ekki skólagöngu. Alþjóða þróunarstofnunin í Bretlandi telur að barnadauði meðal fatlaðra sé í sumum löndum ferfalt meiri en annarra en það gæti bent til útburðar. Fæstar þjóðir búa við löggjöf eins og Íslendingar sem tryggir réttindi fatlaðra. Innan við 50 þjóðþing hafa sett slík lög. Þess vegna markar samningurinn svo sannarlega tímamót. Hann er bindandi fyrir þær þjóðir sem samþykkja hann.  

Til viðbótar samningnum undirrituðum við ásamt 43 öðrum þjóðum valfrjálsan viðauka sem veitir málskotsrétt til sérfræðinefndar á sviði réttinda fatlaðra þegar önnur úrræði í viðkomandi landi hafa verið tæmd.  

Undirritun Íslands á föstudaginn staðfestir að við höldum áfram á þeirri braut sem við höfum markað okkur og ætlumst til að mannréttindi fatlaðra um heim allan séu virt.  

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Framundan er umfangsmikið samvinnuverki ríkis og sveitarfélaga þar sem fjallað er um flutning málefna fatlaðra og málefna aldraðra til sveitarfélaga. Ítrekað hefur verið fjallað um mikilvægi þess að nærþjónusta verði flutt til sveitarfélaganna. Kannanir sýna að fyrir því er almennur stuðningur. Skýr afstaða kemur jafnframt fram í skorinorðri ályktun frá landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Ríkt hefur ánægja með verkefni sem byggjast á samþættingu félagslegrar þjónustu á þessum sviðum og heilbrigðisþjónustu sem veitt er af hálfu ríkisins. Þeir sem við eigum að þjóna hverju sinni spyrja ekki hver veitir þjónustuna heldur hvort hún sé fyrir hendi og hve góð hún er.  

Almenn samstaða er um að öldruðu fólki sé gert kleift að halda eigið heimili eins lengi og kostur er, einnig þótt það þarfnist aðstoðar með heimaþjónustu og heimahjúkrun. Sama gildir um fatlað fólk. Að það eigi kost á sjálfstæðu heimilishaldi með því einkarými sem stenst kröfur um friðhelgi einkalífsins, hvernig sem fötlun þess er háttað. Krafa dagsins í þessum efnum snýst því ekki síst um sjálfræði, mannlega reisn og friðhelgi. Mannréttindi sem við teljum öll sjálfsögð.  

Stefna í mótun

Þessi viðhorf endurspeglast í stefnumótun félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna til ársins 2016. Grunnáföngum hennar er lokið, síðustu umsagnirnar að berast og á ráðstefnunni Mótum framtíð, sem upp undir 700 manns sóttu, komu fram ýmsar gagnlegar ábendingar sem farið verður yfir í ráðuneytinu. Stefnumótun af þessu tagi er sífellt breytingum undirorpin og verður að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Ætlunin er að endurskoða ýmis atriði hennar á hverju ári.

Ég vil draga fram þrjú almenn markmið:  

  • Fyrir árið 2016 njóti allt fatlað fólk á Íslandi sambærilegra lífskjara og lífsgæða og aðrir þegnar þjóðfélagsins.
  • Fyrir árið 2016 verði fagleg þekking og færni starfsfólks á við það sem best gerist í Evrópu.  
  • Fyrir árið 2016 verði verklag og gæði þjónustunnar á við það sem best gerist í Evrópu.

Í þessum háleitu markmiðum felst mikil áskorun fyrir okkur öll, stjórnvöld, hagsmunasamtök og síðast en ekki síst einstaklingana sjálfa. Ég er þó ekki í nokkrum vafa um að við náum þeim með sameiginlegu átaki og höldum áfram að vera í fararbroddi í alþjóðlegum samanburði.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira