Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. apríl 2007 Félagsmálaráðuneytið

Evrópuár jafnra tækifæra 2007

Ágætu ráðstefnugestir.

Vits er þörf
þeim er víða ratar.
Dælt er heima hvað.
Að augabragði verður
sá er ekki kann
og með snotrum situr.“

   

Ég leyfi mér í upphafi máls míns að vitna í Hávamál, sem mörg ykkar þekkið vel. Þessi orð hafa staðist tímans tönn og eiga ekki minna erindi við okkur í dag en þau áttu á árunum 700 til 900 þegar þau eru talin hafa verið samin. Þau segja okkur meðal annars að víðförull maður þarf að vera skynsamur en að heima eru hlutirnir auðveldir. Mér finnst þessi orð eiga vel við nú þegar við Íslendingar mótum stefnu okkar í innflytjendamálum. Stefnu sem að mínu mati á fyrst og fremst að byggjast á mannauðssjónarmiðum. Hún á að byggja á þeim sjónarmiðum að þeir sem til okkar koma og við sem fyrir erum verðum auðugri af samskiptum okkar og samvinnu. Við getum lært hvert af öðru og styrkt hvert annað og framlag okkar allra skiptir samfélagið í heild miklu máli.

Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig sem félagsmálaráðherra að fá tækifæri til þess að setja, hér í dag formlega Evrópuár jafnra tækifæra 2007 hér á landi.

Markmið með árinu er að vekja athygli á því að allir eiga að hafa jöfn tækifæri óháð kynþætti, uppruna, trúarbrögðum og lífskoðun, aldri, kynhneigð eða fötlun.

Samkvæmt nýlegum rannsóknum telja 64% Evrópubúa að einstaklingum sé mismunað vegna kynþáttar. Þegar spurt var hvort það væri ókostur að vera fatlaður þá töldu 79% svarenda að svo væri. Sömu sögu er að segja um fleiri hópa, hvort sem spurt er um trúarskoðun, aldur eða kynhneigð. Mjög hátt hlutfall taldi að það teldist einstaklingum ekki til tekna að tilheyra minnihlutahópi í samfélaginu.

Af þessu má draga þá ályktun að ákvæði í stjórnarskrám eða almennum lögum nægi ekki, heldur sé þörf á átaki í samfélögum okkar. Evrópuár jafnra tækifæra tekur til allra aðildarríkja Evrópusambandsins og Ísland tekur sem aðildarríki EES-samningsins fullan þátt í árinu.

Á árinu er lögð áhersla á vitundarvakningu meðal almennings um rétt allra til jafnra tækifæra í samfélaginu. Það er hagur samfélagsins í heild sinni að hver einstaklingur fái að dafna og taka virkan þátt í samfélaginu án þess að búa við staðalímyndir eða fordóma. Fordómar og misrétti hafa afdrifarík áhrif á þolendur og einnig fyrir samfélagið því það missir með þeim þann frumkraft sem fylgir fjölbreytileikanum.

Evrópuári jafnra tækifæra er ætlað að vekja athygli á þeim meginsviðum er bann við mismunun borgara beinist að í löndum Evrópusambandsins. Eins og áður sagði er um að ræða bann við mismunun er rekja má til kynferðis, kynþáttar, trúarbragða, fötlunar, aldurs eða kynhneigðar.

Hér á Íslandi hafa mörg mikilvæg skref þegar verið stigin, svo sem með setningu löggjafar sem tryggir réttarstöðu samkynhneigðra. En betur má ef duga skal. Stefnumótun félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra og uppbygging í þágu geðfatlaðra eru mikilvæg verkefni.

Ég vil einnig vekja athygli á mikilvægi þátttöku eldra fólks og fatlaðra á vinnumarkaði og að mismunun sé alltaf ólögmæt vegna kynþáttar, kyns eða trúar. Ég treysti því að á ári jafnra tækifæra og verkefnum sem því tengjast verði lögð áhersla á mikilvægi þess að allir upplifi í reynd sömu tækifæri í samfélaginu okkar. Við eigum einnig að skapa þær aðstæður að börn af ólíkum uppruna geti búið saman og njóti jafnra tækifæra í lífinu. Þar gegnir menntun barna einkar mikilvægu hlutverki.

Með Evrópuári jafnra tækifæra árið 2007 eigum við að tryggja enn frekar að þær aðstæður skapist í samfélagi okkar að bæði kynin njóti jafnræðis á vinnumarkaði og þátttöku í fjölskyldulífi. Ég tel að fyrirkomulag á fæðingarorlofi hafi skipt sköpum hvað þetta varðar. Vísa ég þá einkum til þriggja mánaða feðraorlofs. Við höfum með fæðingarorlofi gefið börnum okkar tækifæri til að njóta umönnunar beggja forelda fyrstu mánuðina. Norrænar rannsóknir benda til þess að íslenskir feður skeri sig úr í þeim málum. Þátttaka beggja foreldra í fjölskyldulífi tel ég að hvetji konur til að sækjast eftir stjórnunarstöðum í auknum mæli. Við þurfum hins vegar að lengja fæðingarorlof í tólf mánuði til þess að tryggja enn frekar jafnrétti á vinnumarkaði og jafnrétti til frambúðar.

Það er mín ósk að loknu Evrópuári jafnra tækifæra verði fólk í íslensku samfélagi betur upplýst um mikilvægi fjölbreytileika, en í fjölbreytileikanum búa nánast ótakmörkuð tækifæri.

Við eigum að líta á þann margbreytileika sem hefur orðið til í samfélagi okkar, með fjölgun innflytjenda, sem tækifæri. Rétt eins og við eigum að líta á það sem tækifæri að við búum við góðar aðstæður og að fólk lifir lengur og við betri heilsu á eldri árum en áður þekktist. Í þeirri umræðu eigum við stjórnmálamenn að spyrja okkur hvers vegna fólk eldra en 50 ára telur erfiðara að fá vinnu en yngri hópar. Í okkar samfélagi eigum við ekki að láta viðgangast að gengið sé fram hjá hæfileikum nokkurs manns. Félagsmálaráðuneytið hefur unnið að verkefnum á þessu sviði og nú nýlega styrkt gerð rannsóknar sem sýnir fram á þjóðhagslegan hag af atvinnuþátttöku eldri borgara og öryrkja. Við eigum að nýta okkur þær upplýsingar.

Evrópuár jafnra tækifæra gefur okkur einnig möguleika til að takast á við fordóma er kunna að ríkja í samfélagi okkar, gagnvart kynþætti eða trúarbrögðum samborgara okkar. Einnig vonast ég til þess að árið varpi ljósi á hvernig íslensk lög og reglugerðir leggja bann við mismunun. Starfshópur á vegum félagsmálaráðuneytisins vinnur nú að gerð tillagna um hvernig endurspegla megi efni tilskipana Evrópusambandsins um bann við mismunun í reglum er gilda á innlendum vinnumarkaði. 

Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda og vonast ég til að hann ljúki störfum á þessu ári. (Fæðingarorlof formannsins og starfsmannsins hafa óneitanlega tafið vinnu starfshópsins og eru orsakir tafanna vissulega jákvæðar þegar litið er til þess.) Málefnið er mikilvægt og ég legg áherslu á að verkinu ljúki sem fyrst.

En eins og ég sagði hér fyrr er ljóst að ákvæði í stjórnarskrá og lögum nægja ekki ef við viljum ná fram raunverulegum viðhorfsbreytingum. Við þurfum að varpa ljósi á ábyrgð okkar allra í samfélaginu og eigum ekki að draga fólk í dilka. Hér tala ég ekki síður til stjórnmálamanna og okkar þingmanna. Orð og viðhorf skipta alltaf máli ef við viljum skapa samfélag er byggir á jöfnum tækifærum. Við eigum að vera framsýn og hvetja til þess og skapa þær aðstæður að í samfélagi okkar sé fjölbreytileiki eftirsóknarverður.

Þegar hefur verið ákveðið að vinna fjölmörg verkefni á árinu sem verða kynnt hér á eftir. Við í félagsmálaráðuneytinu höfum fengið til liðs við okkur ýmis félagasamtök og háskóla til að taka þátt í árinu með okkur. Ég nefni þar sérstaklega Styrktarfélag vangefinna, Samtökin ’78, Jafnréttisstofu. Fjölmenningarsetrið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Öryrkjabandalag Íslands.

Ég hef jafnframt ákveðið að settur verði á fót sérstakur sjóður sem veitir styrki til annarra verkefna sem tengjast meginmarkmiðum Evrópuárs jafnra tækifæra 2007. Ríkisstjórnin samþykkti í gær að veita tveimur milljónum króna í sjóðinn. Auglýst verður eftir umsóknum og mun stýrihópur Evrópuárs jafnra tækifæra fjalla um þær.

Heildarfjárhæðir til verkefna frá íslenskum stjórnvöldum, þátttakendum í verkefnum og Evrópusambandinu í tengslum við Evrópuár jafnra tækifæra nema um 23 milljónum króna.

Margt fleira mætti hér nefna. Á árinu verður efnt til ljósmyndasamkeppni í takt við árið þar sem áhersla er lögð á fjölbreytileika mannlífsins og að allir búi við jöfn tækifæri.

Markmið okkar er að ná til sem flestra á árinu og að hrinda af stað vitundarvakningu með íbúum þessa lands.

Ég vil leggja áherslu á að þetta er ekki tímabundið verkefni sem stendur í eitt ár, árið 2007, heldur framtíðarverkefni sem við verðum öll að vinna að.

Í dag stígum við eitt af fyrstu skrefunum og ég hlakka til að heyra það sem menn og konur hafa fram að færa í dag. Ég vil þakka öllum sem hafa lagt hér hönd á plóg fyrir þeirra framlag.

Heimasíða átaksins er lifandi vettvangur þeirra sem taka þátt í verkefninu. Með því að hafa samband við Lindu Rós Alfreðsdóttur verkefnisstjóra geta þeir kynnt verkefni og atburði undir merkjum Árs jafnra tækifæra á heimasíðunni. Þannig fyllist síðan smám saman af áhugaverðu efni. Á síðunni verður bæði kynningar- og fréttaefni og þar er meðal annars að finna dagatal sem gefur upplýsingar um viðburði tengda árinu. Til dæmis verður gjörningur nú á laugardag.

Ég lýsi Evrópuár jafnra tækifæra á Íslandi sett.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira