Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. maí 2016 Félagsmálaráðuneytið

Ársfundur Vinnumálastofnunar 2016

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Komið þið sæl öll og velkomin á ársfund Vinnumálastofnunar sem að þessu sinni beinir sjónum að að atvinnumálum fatlaðra og fjölbreytileika á vinnumarkaði undir yfirskrift sem felur í sér spurninguna; Eiga allir sjéns?

Ég þakka Vinnumálastofnun fyrir að helga ársfundinn þessu viðfangsefni. Málið er mikilvægt og tilefnið ærið, því Vinnumálastofnun tók á þessu ári formlega við ábyrgð á atvinnumálum fatlaðra á landsvísu. Þessi ákvörðun hefur átt langan aðdraganda og ekki síður þess vegna er ánægjulegt að hún sé loks í höfn. Allir landsmenn ganga nú um sömu dyr þegar óskað er aðstoðar við atvinnuleit. Þetta er góð niðurstaða. Hún er í anda jafnræðis og áherslunnar um eitt samfélag fyrir alla.

Vinnumálastofnun og sveitarfélögin deila ábyrgðinni í samræmi við lög um málefni fatlaðs fólks. Vinnumálastofnun tekur við umsóknum um vinnumarkaðsaðgerðir fyrir fatlað fólk, þar með talin er vernduð vinna og hæfing, og sérfræðingar stofnunarinnar leggja mat á vinnufærni og þjónustuþörf umsækjenda. Sveitarfélögin aftur á móti fjármagna og reka vinnumarkaðsúrræðin og bera ábyrgð á áframhaldandi uppbyggingu vinnu- og hæfingarstöðva.

Það er mikil ábyrgð sem Vinnumálastofnun hefur verið falin, en ég er þess fullviss að stofnunin mun sinna verkefninu vel, veita fötluðu fólki góða þjónustu í samræmi við einstaklingsbundnar þarfir og nýta tengsl sín við vinnumarkaðinn í þágu hópsins.

Ég veit að nú stendur yfir viðamikil þarfagreining um allt land til að kortleggja þjónustuþörf fatlaðs fólks sem reikna má að geti og muni nýta þjónustu Vinnumálastofnunar. Nú þegar hafa verið færð þrjú stöðugildi úr almennri ráðgjöf stofnunarinnar yfir í ráðgjöf sem miðuð er að fólki með fötlun, en ráðgjafar á landsbyggðinni hafa bætt á sig þessari þjónustu þar sem svigrúm er til þess.

Það er mikilvægt að fjölga tækifærum fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði. Til þess þarf útsjónarsemi, víðtækt samráð og aukinn skilning á því að fjölbreytni er styrkur hvers samfélags og það gildir líka um vinnumarkaðinn. Það þarf að horfa á styrkleika hvers og eins og virkja hæfileika allra.

Vinnumálastofnun leggur áherslu á að veita faglega þjónustu í samræmi við þarfir umsækjenda og beita aðferðum sem vel hafa gefist í þjónustu við fatlað fólk samhliða því að skapa og þróa nýjar leiðir og lausnir sem greiða götu fatlaðs fólks út í atvinnulífið.

Vinnumálastofnun hefur sýnt það vel á liðnum árum að hún er afar sveigjanleg, á auðvelt með að laga sig að breyttum aðstæðum og takast á við ný verkefni. Auðvitað þarf að afla nýrrar þekkingar, það þarf að sérhæfa starfsfólk og gera ýmsar breytingar til að stofnunin geti sinnt vel atvinnumálum fatlaðs fólks. Að öllu þessu er unnið.

Það er afskaplega gleðilegt að sjá hvernig efnahagslíf landsins hefur tekið hratt við sér á síðustu árum og atvinnulífið er komið á fleygiferð. Síðustu ár hafa verið lærdómsrík á sviði vinnumála þar sem reynt hefur á alla mögulega þætti til hins ýtrasta. Fyrir hrun var geysileg þensla sem setti svo sannarlega mark sitt á vinnumarkaðinn, ekki síst vegna mikils innflutnings á erlendu verkafólki, meðal annars í gegnum starfsmannaleigur. Svo kom hrunið þar sem við upplifðum atvinnuleysi í þeim mæli að annað eins hafði vart sést hér á landi.

Fyrstu árin eftir hrun voru vissulega erfið, en ótrúlega fljótt fór þó að rætast úr fyrir okkur, atvinnulífið tók að eflast og nú er aftur hafinn innflutningur á fólki til starfa í ákveðnum greinum. Vissulega er þetta jákvæð þróun, en það fylgja svona örri þróun ákveðnar hættur sem við verðum að vera á varðbergi fyrir. Þá á ég ekki síst við félagsleg undirboð, ófullnægjandi vinnuaðstæður og þegar verst lætur mansal sem því miður er staðreynd hér á landi, líkt og dæmin sanna.

Það fór ekki á milli mála þegar þrengdi að á vinnumarkaði eftir hrunið að þeim var hættast á atvinnumissi sem af einhverjum ástæðum voru veikir fyrir, höfðu skerta starfsgetu eða stóðu á einhvern hátt höllum fæti. Sérfræðingar Vinnumálastofnunar segja mér að hlutfall þeirra sem sækja þjónustu hjá stofnuninni sem glíma við fjölþættan vanda hafi farið vaxandi á síðustu árum sem kalli á aukna þörf fyrir einstaklingsmiðaða þjónustu. Þarna sé meðal annars um að ræða einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu, sem getur stafað af líkamlegum eða sálrænum þáttum og sem getur varað í afmarkaðan tíma eða er varanleg. Einnig sé um að ræða einstaklinga sem skortir menntun, reynslu eða færni sem vinnumarkaðurinn kallar eftir, einstaklingar sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar og eru með framfærslu hjá sveitarfélögum, útlendingar sem ekki hafa nægilega mikla færni í íslensku og flóttamenn og hælisleitendur sem geta verið að glíma við fjölþættan vanda svo dæmi séu tekin.

Vinnumálastofnun þarf að mæta þörfum þessara hópa og sinna einstaklingsbundnum þörfum þeirra atvinnuleitenda sem í hlut eiga með það að markmiði að virkja þá aftur inn á vinnumarkaðinn og koma í veg fyrir að atvinnuleysið leiði til ótímabærrar örorku.

Það er augljóst að staðlaðar leiðir duga skammt þegar aðstoða þarf fólk í aðstæðum eins og hér um ræðir. Fyrir ykkur, ágæta starfsfólk Vinnumálastofnunar, eru þetta engin sérstök tíðindi. Þetta er hluti af daglegum verkefnum ykkar að veita einstaklingsmiðaða ráðgjöf og þjónustu þar sem saman fléttast greining og mat og virkniaukandi aðgerðir eða starfsendurhæfing. Síðast en ekki síst þarf að ná til hvers og eins sem verið er að liðsinna, því það næst ekki árangur nema það takist að virkja einstaklinginn sjálfan í ferlinu og styðja hann til sjálfshjálpar.

Í ljósi þess sem hér er talið hafa verkefni ráðgjafar- og vinnumiðlunarsviðs Vinnumálastofnunar breyst sem kallar á nýja nálgun. Ég veit að stofnunin leggur mikinn metnað í þá vinnu þar sem lögð er áhersla á að samræma þjónustuna eins og kostur er á landsvísu.

Það er því miður svo að nú þegar eftirspurn eftir vinnuafli heldur áfram að aukast sitja þeir atvinnuleitendur enn eftir sem af ýmsum ástæðum eiga erfitt með að fóta sig og fá tækifæri á vinnumarkaði. Örorkulífeyrisþegar eru nú rúmlega 17.000 og þeim heldur áfram að fjölga. Í þessu ljósi þarf að efla þarf þjónustu við atvinnuleitendur og sporna við þessari þróun. Vinnumálastofnun gegnir hér lykilhlutverki, en auðvitað þurfa fjölmargaraðrar stofnanir samfélagsins að taka þátt í þessu verkefni og vinnumarkaðurinn þarf einnig að axla ábyrgð, bæði hið opinbera og almenni markaðurinn.

Góðir gestir.

Eins og ég drap á áðan hefur eftirspurn eftir starfsfólki í mörgum greinum aukist stórkostlega síðastliðið ár og virðist ekki sjá fyrir endan á því. Þetta er auðvitað jákvætt en það geta fylgt þessu skuggahliðar sem við verðum að vera meðvituð um.

Þessi öri vöxtur á vinnumarkaðinum hefur komið til kasta Vinnumálastofnunar vegna aukinna verkefna varðandi framkvæmd og eftirlit með lögum um erlent vinnuafl.

Um mitt ár 2015 fjölgaði fyrirspurnum og skráningum í tengslum við starfsmannaleigur og erlend þjónustufyrirtæki og segja má að í fyrsta sinn frá setningu laganna fór að reyna á túlkun þeirra og framkvæmd. Enn fremur fjölgaði umsóknum um atvinnuleyfi á árinu 2015 frá því sem verið hafði undanfarin ár, en umsóknum sem Vinnumálastofnun bárust vegna atvinnuleyfa fjölgaði úr tæpum 1.100 árið 2014 í rúmlega 1.400 árið 2015.

Til að bregðast við auknum umsvifum þessara mála hjá Vinnumálastofnun var ráðist í ýmsar skipulagsbreytingar innan stjórnsýslusviðs stofnunarinnar og samstarf við aðrar opinberar stofnanir styrkt, allt í þeim tilgangi að tryggja vönduð vinnubrögð í málaflokknum.

Árið 2015 var settur á fót samstarfshópur opinberra aðila, þ.e. Vinnumálastofnunar, Vinnueftirlits ríkisins og ríkisskattstjóra, en allar þessar stofnanir hafa með höndum eftirlit á innlendum vinnumarkaði á einn eða annan hátt. Jafnframt eiga framangreindar opinberar stofnanir í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins vegna eftirlits á vinnumarkaði. Sameiginlegar eftirlitsferðir samstarfshópsins hafa skilað góðum og eins hafa stofnanirnar eflt upplýsingaflæði milli sín í samræmi við lagaheimildir.

Auk framangreindra sameiginlegra eftirlitsferða hóf Vinnumálastofnun að sinna virku vettvangseftirliti, þ.e. eftirlitsheimsóknum á vinnustaði þar sem aflað er mikilvægra upplýsinga um starfsemi erlendra aðila sem er tilkynningarskyld til stofnunarinnar. Þegar það á við er skorað á hlutaðeigandi aðila að skrá sig og starfsmenn sína með viðhlítandi hætti og skila inn ráðningarsamningum og þjónustusamningum.

Ég veit að þetta hefur skilað Vinnumálastofnun skráningu og upplýsingum sem alfarið má þakka virku vettvangseftirliti. Stofnunin hefur þannig fengið betri yfirsýn yfir málefni erlendra þjónustufyrirtækja og starfsmannaleigna hér á landi.

Í vettvangseftirliti Vinnumálastofnunar kannar stofnunin enn fremur atvinnuleyfi þeirra útlendinga sem starfandi eru á vinnustaðnum og koma frá löndun utan Evrópska efnahagssvæðisins. Í þeim tilfellum sem komið hefur í ljós að útlendingur starfar án tilskilinna leyfa kallar Vinnumálastofnun til lögregluna sem tekur yfir forræði málsins.

Góðir gestir, stjórnendur og annað starfsfólk Vinnumálastofnunar.

Það er aldrei lognmolla í kringum Vinnumálastofnun og verkefni hennar. Ef einhverjir halda að Vinnumálastofnun sé fyrst og fremst afgreiðslustofnun atvinnuleysisbóta þar sem flestir leggist í dvala þegar vel árar, þá er það hinn mesti misskilningur.

Þess má líka geta að Fæðingarorlofssjóður og öll umsýsla hans er hjá Vinnumálastofnun. Umfjöllun um fæðingarorlofsmál, rétt foreldra til orlofs, fjárhæðir, lengd orlofstímans, þátttöku feðra í töku fæðingarorlofs og svo framvegis gæti orðið mér efni í aðra ræðu ekki styttri en þessa. Ég ætla samt að láta þetta duga og geyma umræðuna um fæðingarorlofið til betri tíma.

Takk fyrir áheyrnina og góðar stundir.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira