Hoppa yfir valmynd
31. maí 2017 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ávarp í upphafi þings um samkeppnishæfi Íslands

Ágæta samkoma,
það er gaman að fá að vera hér þegar Viðskiptaráð Íslands og Íslandsbanki kynna niðurstöður á könnun á samkeppnishæfni Íslands fyrir árið í ár.

Þema fundarins í ár er menntun og samkeppnishæfni mannauðs. Í aðdraganda kosninganna töluðum við í Viðreisn sérstaklega um samkeppnishæf lífskjör. Sú hugtakanotkun var svo sannarlega ekki tilviljun heldur þrungin merkingu.

Með því að tala um samkeppnishæf lífskjör er verið að blanda saman hugtakanotkun úr tveimur heimum; viðskiptalífinu annars vegar og venjulega lífinu hins vegar. Tungutak viðskiptalífsins er notað út fyrir sitt hefðbundna gildissvið.

Viðskiptalífið hefur enda mikil áhrif á hag almennings.
Frumframleiðslan fer fram í einkageiranum, þaðan koma skatttekjurnar til að standa undir velferðinni, þaðan koma launin fyrir fólk til að kaupa mat og húsaskjól.

En á sama hátt og fyrirtæki geta keypt vörurnar sínar hvaðanæva úr heiminum eða staðsett sig hvar sem er í heiminum, geta fjölskyldur búið hvar sem er. Það er ekkert náttúrulögmál að Íslendingar búi allir á Íslandi. Eins og við sáum á tímum vesturfaranna og eins og við sáum í hruninu geta Íslendingar flutt utan ef Ísland býður ekki upp á
samkeppnishæf lífskjör.

Það er gagnlegt að líta á lífskjör út frá sjónarhóli samkeppni. Í stað þess að ganga út frá því að allir sem fæðist á Íslandi muni um ókomna tíð búa hér, hugsum við okkur fólk á ferð og flugi. Íslendingar flytja til útlanda og útlendingar flytja til Íslands, í lengri eða skemmri tíma. Við hugsum þá um raunlaun, kaupmátt, styrk opinberra fjármála, gæði velferðarkerfisins, skilvirkni opinberrar þjónustu, stöðu jafnréttis og marga slíka þætti. Við komumst ekki upp með að vera værukær, heldur þurfum við áfram að vinna að því að bæta það sem aflaga fer. Nágrannalöndin bjóða frábær lífskjör, og við verðum bara að gera betur en þau. Ef Ísland er ekki samkeppnishæft þá töpum við.

Einungis þannig höldum við mannauðnum okkar hér á landi og löðum að hæft fólk að utan.

Hér á landi er samkeppnishæfni lífskjara mikil. Laun eru góð, velferðin mikil, réttindi trygg og heilbrigðisþjónusta á heimsmælikvarða.
Grunnmenntun er ókeypis og góð.

Það mjög gagnlegt að meta samkeppnishæfni landa. Sá mælikvarði sem hér er til grundvallar er byggður á fjölbreyttum gögnum sem dregin eru saman til að setja í eina tölu—og bera saman—samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Stór hluti af verkefninu felst raunar ekki í niðurstöðu úttektanna, heldur í því að koma sér saman um þokkalega óumdeilda þætti sem saman geta lýst samkeppnishæfni: Hvað er gott fyrir viðskiptalífið og hvað hamlar uppbyggingu þess?

Slíkan lista geta stjórnvöld notað til að forgangsraða verkefnum. Og listann geta svo samtök eins og Viðskiptaráð notað til að halda stjórnvöldum við efnið, svo ég tali nú ekki um minni hluta á þingi sem hefur beinlínis það hlutverk að stuðla að því að meiri hlutinn gangi til góðs.

Sitjandi ríkisstjórn getur að vísu lítið hreykt sér af þeim niðurstöðum sem hér verða birtar á eftir, enda frekar nýtekin við. En við höfum unnið með það að markmiði að samkeppnishæfni Íslands geti aukist og vonum að þess muni sjást merki á komandi árum.

Við stigum þó stórt skref þegar við afléttum fjármagnshöftum að fullu af íslenskum almenningi, lífeyrissjóðum og fyrirtækjum. Við höfum stigið fyrstu skref til að einfalda skattkerfið. Við setjum fram markvissa innviðauppbyggingu, traust velferðarkerfi og stuðlum að agaðri hagstjórn svo hagvöxtur geti verið mikill og jafn. Við höfum borgað niður skuldir ríkisins um meira en 10% á skömmum ferli okkar og hyggjumst halda áfram að lækka þær markvisst á komandi árum. Lánshæfismat ríkisins hefur batnað og það nýtist íslenskum fyrirtækjum.

Við aðhyllumst alþjóðahyggju og þó ýmsar bragðtegundir séu til af þeirri stefnu er fullkominn samhljómur um að regluverk sem auðveldi fyrirtækjum að flytja hingað eða stofna hér starfsstöðvar og íslenskum fyrirtækjum að hasla sér völl erlendis.

Eins og vikið verður að hér betur á eftir, er stór þáttur samkeppnishæfni Íslands undirorpinn gengi íslensku krónunnar. Eftir því sem krónan styrkist verður vinnuafl hér hlutfallslega dýrara. Ástæðan er vitanlega sú að samkeppnisstaðan hefur verið svo góð síðustu misseri; Ísland hefur svo góða vöru að bjóða fyrir ásættanlegt verð svo ferðafólk flykkist
hingað til lands. Þetta hefur svo þau áhrif að samkeppnishæfni annarra greina versnar sem því nemur. Það er mikið áhyggjuefni og meðal þeirra stóru verkefna sem stjórnvöld hafa verið að huga að og munu gera næstu mánuði og misseri.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum