Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

30. janúar 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðFriðrik Sophusson, fjármálaráðherra 1991-1998

Afgangur á ríkissjóði bætir lífskjör heimilanna. Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar.

Á árunum 1996 og 1997 varð afkoma ríkissjóðs mun betri en ætlað hafði verið í fjárlögum þessara ára. Árið 1991, þegar þriggja flokka ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór frá völdum og ríksstjórn Davíðs Oddssonar tók við, var greiðsluhalli ríkissjóðs 15 milljarðar króna á verðlagi þessa árs. Árið 1998 er hins vegar gert ráð fyrir 3 milljarða króna afgangi. Þessi 18 milljarða króna umskipti á afkomu ríkissjóðs eru mikilvægur árangur sem fylgja þarf eftir á næstu árum.

Afgangur á fjárlögum og minni lánsfjárþörf

Batnandi afkoma ríkissjóðs á undanförnum árum á mikinn þátt auknum stöðugleika í efnahagslífinu. Eftir langvarandi hallarekstur hefur nú tekist að skila ríkissjóði með afgangi, en að því hefur markvisst verið stefnt undanfarin ár. Miðað við hefðbundnar uppgjörsaðferðir (greiðslugrunn) stefnir í rúmlega 3 milljarða króna tekjuafgang á nýbyrjuðu ári og spáð er að rekstrarafkoman verði mun betri í fyrra en fjárlög gerðu ráð fyrir. Samkvæmt nýrri framsetningu fjárlaga er einnig gert ráð fyrir lítilsháttar afgangi þrátt fyrir lækkun á tekjusköttum einstaklinga, en á undanförnum árum hefur verið verulegur halli á rekstraruppgjöri ríkisreiknings. Það er til marks um þann árangur sem náðst hefur í ríkisfjármálum að í einungis 2-3 löndum í Evrópu er afkoma hins opinbera betri en hér á landi samkvæmt áætlunum fyrir árið 1997.

Undanfarin ár hefur lánsfjárþörf ríkissjóðs farið minnkandi samhliða batnandi afkomu ríkissjóðs. Árið 1998 verða þau kaflaskil að ríkissjóður mun ekki lengur þurfa að taka lán til að mæta skuldbindingum sínum heldur mun skuldastaðan þvert á móti batna um 5 milljarða króna. Mikilvæg skýring á þessum umskiptum er sú að nú er áformað að selja hlutabréf í eigu ríkisins í mun meira mæli en áður. Gert er ráð fyrir að heildarverðmæti sölu eigna geti numið tæplega 8 milljörðum króna. Sú fjárhæð skilar sér í minni lánsfjárþörf ríkissjóðs og fer að mestu til þess að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Grynnkað á skuldum og sparnaður efldur

Gert er ráð fyrir að heildarskuldir ríkissjóðs muni lækka á árinu 1998, þriðja árið í röð, í 43% af landsframleiðslu, en þær námu rúmlega 51% í árslok 1995. Þessi lækkun endurspeglast einnig í lækkun heildarskulda hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) úr 59% af landsframleiðslu í árslok 1995, í 51% 1998. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut á næstu árum til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir og koma í veg fyrir skattahækkanir í framtíðinni.

Afar mikilvægt er að nýta andvirði sölu ríkiseigna til þess að grynnka á skuldum en ekki til þess að auka útgjöld. Með því er stuðlað að stöðugleika og auknum sparnaði í þjóðfélaginu. Við ríkjandi aðstæður í efnahagslífinu er brýnt að efla innlendan sparnað. Þannig er hamlað gegn viðskiptahalla gagnvart útlöndum. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á lífeyriskerfi landsmanna að undanförnu stuðla að auknum sparnaði í þjóðfélaginu. Ný lífeyrislög eru því mikilvægt framlag til áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu um leið og þau treysta fjárhagslega stöðu lífeyrisþega í framtíðinni.

Frekari rekstrarafgangur ríkissjóðs er nauðsynlegur

Jafnvægi í ríkisfjármálum er mikilvægur áfangi á leið til að grynnka á skuldum ríkisins. Nú, þegar því markmiði hefur verið náð, þarf að setja fram áætlun til nokkurra ára um hvernig skuldir ríkisins skuli greiddar niður. Það verður aðeins gert með því að treysta stöðu ríkissjóðs enn frekar með auknum rekstrarafgangi. Um þetta mikilvæga markmið þarf að nást víðtæk sátt í þjóðfélaginu og brýnt er að sem flestir geri sér grein fyrir þeim ávinningi sem af þessu hlýst. Um leið og skuldirnar lækka minnkar vaxtakostnaður ríkissjóðs, en hann er nú árlega nær sama fjárhæð og nemur heildarútgjöldum menntamálaráðuneytisins. Afgangur á fjárlögum bætir því lífskjör heimilanna þegar til lengri tíma er litið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum