Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

17. febrúar 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðFriðrik Sophusson, fjármálaráðherra 1991-1998

Afgangur á ríkissjóði í fyrsta sinn síðan 1984. Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar 23. apríl 1995 - 16. apríl 1998.

Fjármálaráðherratíð Friðriks Sophussonar 23. apríl 1995 - 16. apríl 1998

Sú var tíðin að íslensk fyrirtæki sem áttu í nánum samskiptum við erlend fyrirtæki, þurftu að upplýsa þau um að verðbólga væri hér mun meiri en í öðrum Evrópuríkjum, verðmæti íslensku krónunnar væri sífellt að minnka og tekjuskattar fyrirtækja væru tiltölulega háir. Eðlilega drógu slíkar fregnir úr áhuga útlendinga á að eiga samskipti við íslensk fyrirtæki.

Nú hefur blaðinu verið snúið við. Verðlag og gengi er stöðugt og skattalegt umhverfi fyrirtækja vel viðunandi í samanburði við það sem er í öðrum ríkjum. Víða sjást þess merki að menn séu að "virkja stóriðjuna í kollinum" á ýmsum sviðum svo að gripið sé til líkingar Einars Más Guðmundssonar, þegar hann fjallaði nýlega um menninguna. Og möguleikarnir virðast óþrjótandi. Nægir að nefna nýlegan milljarðasamning Íslenskrar erfðagreiningar við svissneskt risafyrirtæki. Þjóðin má hins vegar ekki sofna á verðinum heldur verðum við að kappkosta að viðhalda lágri verðbólgu, stöðugu gengi og öflugu atvinnulífi. Þannig örvum við best nýsköpun í íslensku atvinnulífi og bætum lífskjörin. Eitt mikilvægasta verkefnið í því sambandi er að skila ríkissjóði með afgangi og draga úr skuldum ríkisins.

Afkoma ríkissjóðs hefur batnað

Á undanförnum árum hefur afkoma ríkissjóðs batnað verulega. Árið 1991 var ríkissjóður rekinn með halla sem nemur 15 milljörðum króna á núgildandi verðlagi, en árið 1997 varð hins vegar afgangur á rekstri ríkissjóðs. Afgangurinn nam tæplega 1.200 milljónum króna, samanborið við rúmlega 100 milljón króna áætlaðan afgang í fjárlögum. Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 1984 að ríkissjóður er rekinn með afgangi. Reyndar er afkomubatinn enn meiri, eða nálægt 5 milljörðum, þegar tekið er tillit til 3,5 milljarða króna greiðslu vaxtagjalda vegna sérstakrar innlausnar spariskírteina, en ekki var áætlað fyrir því í fjárlögum. Afkoma ríkissjóðs árið 1997 er því í raun og veru nálægt 20 milljörðum betri en árið 1991. Góð rekstrarafkoma endurspeglast í lítilli lánsfjárþörf ríkissjóðs, en hún nam um 600 milljónum króna og þarf einnig að fara aftur til ársins 1984 til að finna minni lánsfjárþörf.

Heildartekjur ríkissjóðs á síðasta ári námu 131,9 milljörðum króna, eða 5,7 milljörðum meira en áætlað var í fjárlögum. Þessi tekjuauki stafar fyrst og fremst af meiri umsvifum í efnahagslífinu en ráð var fyrir gert, meðal annars vegna aukins kaupmáttar heimilanna í kjölfar nýrra kjarasamninga, lækkunar tekjuskatts og minna atvinnuleysis. Nær helming tekjuaukans má rekja til meiri launa- og tekjubreytinga en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Auk þess jukust tekjur af vörugjöldum verulega, aðallega vegna mikils innflutnings bíla.

Afkoma ríkissjóðs á verðlagi 1998

Heildarútgjöld ríkissjóðs á síðasta ári námu 130,7 milljörðum króna, eða 4,6 milljörðum meira en í fjárlögum. Þar af stafa 3,5 milljarðar af auknum vaxtaútgjöldum vegna sérstakrar innlausnar spariskírteina. Það sem eftir stendur má einkum rekja til aukinna útgjalda til heilbrigðis- og menntamála. Hlutfall útgjalda af landsframleiðslu var með lægsta móti á síðasta ári og hefur þá verið tekið tillit til áhrifa flutnings grunnskólans til sveitarfélaga.

Erlendar skuldir ríkissjóðs lækka

Betri rekstrarafkoma ríkissjóðs og minnkandi lánsfjárþörf skapaði svigrúm til þess að greiða niður skuldir rikissjóðs. Þannig lækkuðu erlendar skuldir ríkissjóðs um 6S milljarð króna á síðasta ári. Ennfremur hefur verðbréfaútgáfa ríkissjóðs verið endurskipulögð með það fyrir augum að stuðla að lækkun vaxta. Loks má nefna að lánskjör íslenska ríkisins erlendis hafa batnað verulega að undanförnu í kjölfar þess að bandarísku matsfyrirtækin, Moody's og Standard & Poor's, hækkuðu lánshæfismat þess.
Árið 1997 er afkoma ríkissjóðs í síðasta sinn gerð upp samkvæmt eldri uppgjörsreglum (á svokölluðum greiðslugrunni). Frá og með fjárlagaárinu 1998 er afkoman metin á rekstrargrunni, auk þess sem sýndar eru sjóðshreyfingar innan ársins. Þessar breytingar torvelda samanburð milli gömlu og nýju uppgjörsaðferðanna. Áætlanir benda hins vegar til að afkoma ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum ársins 1998 muni sýna tæplega 3 milljarða króna afgang, miðað við eldri uppgjörsaðferðir. Samkvæmt því mun afkoma ríkissjóðs áfram vera góð árið 1998.

Batnandi afkoma skilar sér í bættum lífskjörum

Góð hagstjórn og batnandi afkoma ríkissjóðs eiga drjúgan þátt í því að íslenskt efnahagslíf hefur styrkst verulega að undanförnu. Vextir hafa farið lækkandi, verðlag verið stöðugt og hagvöxtur verið mikill. Jafnframt hefur kaupmáttur heimilanna aukist ár frá ári, eða sem nemur 11% frá árinu 1994, og spáð er yfir 5% aukningu til viðbótar á árinu 1998.

Þótt mikilvægt sé að skila afgangi á ríkissjóði má ekki gleyma því að það er ekki endanlegt markmið í sjálfu sér heldur leið til þess að ná öðrum markmiðum eins og að lækka skuldir, viðhalda lágri verðbólgu, treysta atvinnulífið og auka sparnað. Með því móti munu fyrirtæki halda áfram að treysta samkeppnisstöðu sína og renna stoðum undir aukið atvinnuöryggi og bætta afkomu heimilanna í landinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum