Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. maí 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ráðstefna RUT-nefndar o.fl. um upplýsingasamfélagið

Ávarp fjármálaráðherra á ráðstefnu
Skýrslutæknifélags Íslands, RUT-nefndar og Verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið
20. maí 1998 í Súlnasal Hótels Sögu


I. Ný RUT-nefnd
Eins og mörgum er kunnugt hefur fjármálaráðuneytið lengi haft forystu um ýmis framfaramál á sviði upplýsingatækni. Allt frá árinu 1981 hefur starfað í ráðuneytinu sérfræðingur, sem veitt hefur ráðuneytum og ríkisstofnunum ráðgjöf og beitt sér fyrir ýmsum framfaramálum.

Árið 1988 var stofnuð ráðgjafanefnd um upplýsinga- og tölvumál, RUT-nefndin, sem þið þekkið eflaust öll, og kannist við verk hennar og útgáfur.

Þegar skipan mála var ákveðin varðandi stefnumótun ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið varð að ráði að RUT-nefnd skyldi áfram fara með tiltekin verkefni í samvinnu við verkefnisstjórnina í forsætisráðuneytinu. Nefndin verður áfram skipuð af fjármálaráðherra. Þeirri hefð verður haldið að leita til sérfræðinga, bæði hjá einkafyrirtækjum og opinberum stofnunum um að þeir starfi í nefndinni um tiltölulega stuttan tíma, eða tvö ár að jafnaði. Undanfarið hálft annað ár hefur verið óvenju annríkt hjá nefndinni. Hún hefur, reyndar með hjálp margra góðra manna, unnið að endurskoðun Innkaupahandbókar um upplýsingatækni, sem nýkomin er út í þriðju útgáfu og verður kynnt hér á eftir. Það er ef til vill vegna þessa mikla átaks að nú stendur fyrir dyrum óvenju mikil endurnýjun í nefndinni, þar sem þrír af fjórum nefndarmönnum yfirgefa hana. Þeim Guðbjörgu Sigurðardóttur. Sigurjóni Þ Árnasyni og Laufeyju Ásu Bjarnadóttur er hér með þakkað framlag þeirra.

Næsta RUT-nefnd verður svo skipuð:
Halldór Kristjánsson, verkfræðingur, verður einn eftir af fyrri nefndarmönnum og tekur við formennsku, en inn koma þau Gunnar Linnet, forstöðumaður tölvumála hjá Vegagerðinni, Halla Björg Baldursdóttir forstöðumaður tölvumála á Veðurstofu Íslands og Heimir Sigurðsson, deildarstjóri í tölvudeild Olíuverslunar Íslands. Er hin nýja RUT-nefnd boðin velkomin til starfa.

II. Ártalið 2000
Vafalaust er það öllum viðstöddum kunnugt að ártalið 2000 mun – og er þegar farið að valda vandræðum í tölvuforritum og ýmsum búnaði þar sem tölvuklukkur eru notaðar. Leggja verður áherslu á að hér er ekki eingöngu um hefðbundinn tölvubúnað að ræða heldur einnig hverskonar rafeindabúnað þar sem unnið er með tíma.

Í einföldum orðum sagt er vandamálið þetta: Fram á þennan áratug hafa tölvuforritarar táknað ártöl með tveimur stöfum í stað fjögurra. Þetta var gert vegna þess að í árdaga tölvualdar var minni dýrt, og reyndar takmarkað hversu mikið af því maður gæti notað af tæknilegum ástæðum. Því varð að spara hvern staf. Auk þess má ætla að forritarar þeirra daga hafi í hógværð sinni ekki trúað svo á langlífi verka sinna að taka þyrfti tillit til atburða sem væru áratugi handan sjóndeildarhringsins.

Þessi forritunarvenja rataði einnig inn í tölvuklukkurnar þegar farið var að steypa þær í fjöldaframleidda samrásarkubba. Og þar sem þessar tölvuklukkur eru öruggar, ódýrar og auðfáanlegar hafa þær verið byggðar inn í ýmsan búnað þar sem telja þarf tíma, svo sem iðnstýrikerfi, lækninga- og rannsóknartæki, heimilistæki og vélknúin farartæki. Hvarvetna þar sem dagsetningar eða ártöl eru notuð í slíkum tækjum er möguleiki á að upp komi truflanir og óeðlileg viðbrögð þegar nota þarf ártalið 2000.

Menn tóku einnig upp sama sið í innri forritum einmenningstölva, sem kölluð eru BIOS. Þessvegna þarf að endurnýja eða uppfæra flestar einmenningstölvur eldri en svona eins og hálfs árs gamlar.

Nú á dögum byggist allt atvinnulíf meira og minna á hátækni og tölvubúnaði. Fyrirtæki eru háð samskiptum hvert við annað og við hið opinbera. Mikill vöxtur er í tölvusamskiptum á milli landa og heimsálfa auk þess sem ýmis stór upplýsingakerfi eru hnattræn í eðli sínu. Allar truflanir af völdum rangrar meðferðar á ártalinu 2000 í einu slíku kerfi geta því haft víðtæk áhrif á stóru svæði. Víðast í grannlöndum okkar hafa yfirvöld sett á stofn nefndir eða stofnanir til að fylgjast með því að eigendur kerfanna geri viðeigandi ráðstafanir í tæka tíð gegn þessu vandamáli, sem á ensku er nefnt "millennium bug". Á þetta jafnt við um upplýsinga- og tölvukerfi atvinnulífsins sem þau er varða öyggismál og almannahag. Á fundi svokallaðra G8-ríkja, eða 8 stærstu iðnríkja heimsins í síðustu viku var ártalið 2000 meðal umræðuefna, og hafa Bretar tekist á hendur það hlutverk að fylgjast með og safna saman upplýsingum á heimsvísu um framgang aðgerða.

Hér á landi hefur verið vakin athygli á málinu með ýmsum hætti og hvatt til aðgerða allt frá haustinu 1996. Svo nokkur dæmi séu nefnd þá gaf Ríkisendurskoðun á síðasta ári út vandaða skýrslu þar sem vandamálið var skýrt og bent á aðferðir til að greina og lagfæra gölluð forrit og búnað. Á þessu ári hafa Verkefnisstjórn um upplýsingasamfélagið, Ríkiskaup og RUT-nefnd gengist fyrir samstarfi margra hagsmunaaðila um ráðstefnuhald, könnun á ástandi, bæði í ríkisstofnunum og fyrirtækjum, útgáfu upplýsinga á veraldarvefnum og fleira.

En um formlega forystu af hálfu "hins opinbera" hefur ekki verið að ræða fyrr en nú í byrjun mánaðarins þegar ég skipaði nefnd "til að vara við, upplýsa og benda á hvernig standa beri að lausn þeirra vandamála sem tengjast ártalinu 2000 í upplýsingakerfum og tækjabúnaði þannig að ekki hljótist skaði af skakkri meðferð ártala á þeim tímamótum. Nefndin beini athygli sinni jafnt að einkafyrirtækjum sem opinberum stofnunum og fyrirtækjum", eins og segir í erindisbréfi hennar.
Formaður nefndarinnar er Haukur Ingibergsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu.

Hér á landi hafa ýmis fyrirtæki og opinberir aðilar þegar tekið þetta vandamál til umfjöllunar og úrlausnar. Könnun sem gerð var meðal ríkisstofnana fyrr á þessu ári bendir þó til að margir hafi enn ekki hafist handa og væntanlega gildir það sama um fyrirtæki og sveitarfélög. Ef marka má reynslu annarra þjóða er sú skoðun allalgeng meðal smærri fyrirtækja að vandinn sé þeim ekki viðkomandi. Miklu máli skiptir að ná eyrum stjórnenda slíkra fyrirtækja og benda þeim á að enginn er öruggur fyrr en að hefur verið gáð. Annað sem mikilvægt er að hafa í huga er að tíminn er afmarkaður og vinnukraftur sérfræðinga af skornum skammti. Því þarf að bregðast við í tíma.

Með þessari nefndarskipan vilja stjórnvöld skapa samstarfsvettvang til að fjalla um þetta mál með það að markmiði að íslenskt atvinnu- og efnahagslíf skaðist ekki af stefnumótinu við nýtt árþúsund.

Að svo mæltu leyfi ég mér að segja þessa ráðstefnu setta og óska þátttakendum öllum velgengni í störfum hér í dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum