Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

23. apríl 2003 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra á ráðstefnu fjármálaráðuneytis og samtaka atvinnulífsins um rafræn viðskipti 23. apríl 2003.

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

Hið talaða orð gildir

Ávarp á ráðstefnu
fjármálaráðuneytis og samtaka atvinnulífsins
um rafræn viðskipti
23. apríl 2003

Ágætu ráðstefnugestir,

Það er ánægjulegt að sjá hversu margir hafa séð sér fært að sækja ráðstefnuna hér í dag sem ætlað er að marka upphaf að aukinni samvinnu ríkisins og fyrirtækja á almennum markaði við eflingu rafrænna viðskipta hér á landi. Það er von mín að samhent átak þessara aðila muni leiða til sóknar í rafrænum viðskiptum sem muni skila sér í hagræðingu og eflingu viðskipta almennt.

Haft hefur verið á orði að ríkið í krafti stærðar sinnar og fjölbreytileika í verkefnum geti í sjálfu sér verið óháð hinum almenna markaði. Sumir hafa jafnvel haldið því fram að ríkið gæti staðið eitt og sér en markaðurinn sé háður því að viðurkennd stjórnvöld séu til staðar til að setja nauðsynlegar leikreglur. Hins vegar hafa þau sjónarmið einnig verið kynnt að ríkisrekstur og reglusetningar séu alsendis óþarfar enda muni hinn frjálsi markaður setja sínar eigin leikreglur og skapa öflugt samkeppnisumhverfi. Eins og svo gjarnt er með umræðu sem einkennist af skörpum andstæðum er ljóst að hagfelldasta lausnin liggur einhvers staðar þarna á milli og að ríki og einkamarkaðurinn geta á mörgum sviðum nýtt þekkingu, reynslu og styrk hvors annars til að skila betri árangri hvor á sínu sviði.

Viðfangsefni ráðstefnunnar í dag er dæmi um samvinnu ríkis og einkamarkaðar þar sem styrkur ríkisins er nýttur til að laða fram frumkvæði og afl einkaaðila. Hér verða kynnt verkefni sem unnin hafa verið að frumkvæði ríkisins en munu jafnframt nýtast á hinum almenna markaði. Stefnumótun ríkisins í þessum verkefnum tekur mið af því að reynt hefur verið að leiða saman ríki og atvinnulíf í þeim tilgangi að dreifa jafnt kostnaði og ávinningi af verkefnum sem munu til lengri tíma nýtast öllum. Við höfum talið að ríkið geti í krafti stærðar sinnar skapað tækifæri til uppbyggingar á nýrri þjónustu gegn því að lýsa sig reiðubúið til að leggja til viðskipti sín og tæknilega uppbyggingu.

Með kaupum á nýjum fjárhags- og upplýsingakerfum voru stigin mikilvæg skref í því að gera ríkisstofnunum kleift að stunda rafræn viðskipti. Með innleiðingu kerfisins skapast möguleikar á umtalsverðri sjálfvirknivæðingu og hagræðingu. Hins vegar er nauðsynlegt að viðskiptavinir ríkisins, þ.e. birgjarnir, taki þátt í þessari þróun af krafti til þess að fullum ávinningi verði náð.

Sem liður í að auðvelda samskipti ríkisstofnana og birgja hefur ríkið gengið fram í því að þróa rafrænt markaðstorg í samvinnu við einkaaðila með það að markmiði að sú þjónusta geti nýst starfandi fyrirtækjum á markaði. Verkefnið var unnið í samstarfi við fjölmarga aðila á markaði m.a. helstu samtök hagsmunaaðila sem er lykilatriði í því að sátt náist um tilteknar lausnir. Mikilvægt er í þessu sambandi að ríkið hefur tekið þá stefnu að skilgreina þarfir og þjónustu í stað þess að byggja sjálft upp viðkomandi þjónustu.

Þrátt fyrir að þau verkefni sem kynnt verða hér í dag séu vel á veg komin er ljóst að til þess að fullur ávinningur náist verður að nást full samstaða á markaði um frekari útfærslur og þróun. Ríkið hefur sett sér markmið varðandi framgang rafrænna viðskipta sem meðal annars voru skilgreind í nýrri innkaupastefnu ríkisins sem samþykkt var af ríkisstjórn á síðasta ári. Fyrirtæki á almennum markaði hafa mörg hver sett sér markmið og unnið ötullega að verkefnum á sviði rafrænna viðskipta. Ég tel mikilvægt að ráðstefnan í dag marki upphaf að samhentu átaki helstu hagsmunaaðila með það að markmiði að efla framgang rafrænna viðskipta í landinu. Við teljum að tekist hafi að leiða fram lausnir sem tæknilega geta leitt af sér byltingar en eftir stendur að gera þarf átak í hugsunarhætti og taka af skarið varðandi það hvernig við nálgumst viðskipti almennt.

Hér á ráðstefnunni eru fjölmargir fulltrúar hagsmunaaðila og fyrirtækja á almennum markaði. Tökum höndum saman og eflum veg rafrænna viðskipta.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum