Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. febrúar 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

112-dagurinn. Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð 11. febrúar 2009

Ágætu gestir

Það er ánægjulegt að sjá ykkur svo mörg í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð í tilefni dags neyðarnúmersins, 112-dagsins, sem nú er haldinn í fimmta sinn og að þessu sinni sérstaklega helgaður börnum og ungmennum, enda er 112 einnig númerið fyrir barnavernd á Íslandi.

Þetta er í fyrst sinn sem Menntamálaráðuneytið kemur formlega að framkvæmd dagsins og er mjög gleðilegt að ráðuneytið geti lagt þessu þarfa málefni lið. Það er góð tilfinning að standa að þessum degi með þeim sem á hverjum degi vinna að því að tryggja öryggi okkar og velferð.

Öryggis- og velferðarmál koma okkur öllum við. Í skólastarfinu er mikil áhersla lögð á velferð barna. Í aðalnámskrá grunnskóla er fjallað um lífsleikni sem sérstaka námsgrein. Námsgreininni er meðal annars ætlað að auðvelda skólum að fjalla um mikilvæg atriði sem ekki falla undir hefðbundnar námsgreinar. Markmið í lífsleikni er meðal annars að nemandi sé meðvitaður um nauðsyn ábyrgrar hegðunar í umferðinni; geti bent á slysagildrur í umhverfinu, í umferðinni og á heimilum; þekki til helstu atriði slysavarna og viðbragða við slysum og þekki helstu stofnanir samfélagsins sem starfa að almannaheill og hlutverk þeirra.

Hlutverk okkar sem fullorðins fólks er að skapa mannúðlega og góða umgjörð um börnin okkar. Við setjum lög og reglur um velferð og hagsmuni barna og göngumst undir alþjóðlegar skuldbindingar í þágu barna með það að leiðarljósi að þeim líði sem best. Það er síðan hlutverk hinna fullorðnu að kenna börnum að hafa áhrif á öryggi sitt og umhverfi. Heimili og skóli eru mikilvægur vettvangur slíkrar fræðslu. Með forvörnum og fræðslu í skólum og á heimilum er lagður grunnur að því að koma í veg fyrir slys og önnur óhöpp. Slík fræðsla skapar nauðsynlegan grunn sem mikilvægt er að fylgt sé eftir með úrræðum sem 112 vísar á.

Mikilvægi þess að hafa eitt neyðarnúmer er flestum ljóst. Það að þekkja númerið einn-einn-tveir getur skipt sköpum. Nauðsynlegt er að kenna börnum og ungmennum að bregðast rétt við óvæntum aðstæðum. Þegar hringt er í 112 komumst við á augabragði í samband við vel þjálfað og gott fólk um allt land sem er tilbúið til að hjálpa okkur þegar mest á reynir. Það er boðskapur 112-dagsins.

Þessa dagana heimsækja hjálparlið grunnskóla um allt land til að kynna það víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem við höfum öll aðgang að í gegnum neyðarnúmerið. Einnig verða kynntar leiðir fyrir nemendur til að taka þátt í starfi samtaka á þessu sviði og stuðla að eigin öryggi og annarra. Ýmsu fræðslu- og kynningarefni hefur verið komið á framfæri við skólana sem kennarar geta notað að vild til að ræða um daginn og tilgang hans.

Í dag eigum við ekki aðeins að vekja athygli á nauðsyn, lífsnauðsyn, 112, heldur líka nota daginn til að þakka þeim sem á hverjum degi ársins standa vaktina um öryggi og velferð þjóðarinnar. Til hamingju með daginn!



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum