Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

03. mars 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Dagur menntunar í ferðaþjónustu á Grand Hótel, 19. febrúar 2009

Dagur menntunar í ferðaþjónustu
Grand Hótel, 19. febrúar 2009

Kæru ráðstefnugestir.

Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur á degi menntunar í ferðaþjónustu.
Ísland hefur lengi verið áfangastaður. Á seinnihluta níundu aldar voru Norðmenn mjög spenntir fyrir því að ferðast hingað, og reyndar setjast hér að.

Ísland hefur þrátt fyrir smæð sína og hnattstöðu einhvern veginn náð í gegn til annarra þjóða. Við eigum Geysi, sem fyrir utan það að vera þekktur víða um heim sem náttúrufyrirbæri, er líklega eina orðið sem við leggjum til enskunnar. Við eigum Snæfellsjökul sem Jules Verne gerði að upphafsstað ferðarinnar að miðju jarðar. Við eigum Heklu sem lengi vel var þekkt í Evrópu sem dyrnar að helvíti. Það má því segja að við séum ýmsu vön. Sagnirnar af Heklu sanna líklega fyrir okkur að eitthvert umtal er betra en ekkert umtal. Það sést reyndar líka á því að á síðustu mánuðum hefur mikil umfjöllun um Ísland vakið athygli og forvitni margra sem, meðal annars vegna hagstæðs gengis, hafa ákveðið að sækja Ísland heim.

Undanfarnir mánuðir hafa verið þjóðinni erfiðir. Við höfum öll hugsað um hlutverk okkar í uppbyggingunni sem er framundan. Ferðaþjónustan hefur mjög ákveðið hlutverk. Og það hlutverk er ekki nýtt og undir þetta hlutverk er ferðaþjónustan vel undirbúin: á síðustu áratugum hefur byggst upp öflug ferðaþjónusta á Íslandi sem hefur flutt marga til landsins og fært mikið í þjóðarbúið. Ferðaþjónustan færir hins vegar ekki aðeins gjaldeyri í kassann heldur er hún mikilvæg fyrir ímynd okkar og sjálfsmynd. Þið, sem vinnið við ferðaþjónustu minnið okkur á hvað við höfum upp á að bjóða, þið dragið fram kostina við landið okkar og samfélagið.

Ferðaþjónusta á Íslandi byggist að miklu leyti á þeirri stórkostlegu náttúru sem landið okkar býr yfir þótt menningin, og þá kannski sérstaklega tónlistin, hafi á síðustu árum haft mikið aðdráttarafl. Það er augljóst að til að markaðssetja land þarf mikla þekkingu, ekki bara á markaðsfræðum, heldur á landinu sjálfu. Um allt land hefur sprottið upp ferðaþjónusta sem nýtir sér ekki aðeins fegurð landsins heldur söguna og mannlífið.

Því er hægt að segja: á hverjum degi menntar ferðaþjónustan gesti sína.

Ferðaþjónustan er sett saman úr mörgum ólíkum sviðum sem öll þurfa vel menntað starfsfólk. Á undanförnum árum hefur þróast fjölbreytt námsframboð á sviði ferðaþjónustu. Í fyrsta lagi má nefna formlegt starfsnám og starfstengt nám á sviði hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreina þar sem Menntaskólinn í Kópavogi er kjarnaskóli. Í öðru lagi nám á ýmsum stigum háskólanáms. Í þriðja lagi má nefna styttra nám fyrir fólk sem starfar innan ferðaþjónustunnar. Á degi menntunar í ferðaþjónustu fyrir ári síðan var kynnt námið Færni í ferðaþjónustu I sem þróað var af fagaðilum á vinnumarkaði í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins. Þetta nám hefur nú verið í boði í ýmsum símenntunarmiðstöðvum samkvæmt námskrá Fræðslumiðstöðvarinnar. Þetta nám hefur mælst vel fyrir og á eflaust þátt í að efla færni og fagvitund starfsfólks í ferðaþjónustu. Síðar í dag kynna sömu aðilar til sögunnar nýja námskrá á þessu sviði, Færni í ferðaþjónustu II. Þess má geta að menntamálaráðuneytið hefur fyrir sitt leyti samþykkt að meta megi nám samkvæmt þessum tveimur námskrám til allt að 14 eininga á framhaldsskólastigi en umfang þess er 160 kennslustundir.

Á síðastliðnu vori samþykkti Alþingi ný lög um leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og kennaramenntun og er nú unnið að innleiðingu þessara laga. Fyrir þinginu liggur nú frumvarp til laga um framhaldsfræðslu sem ég vona að verði að lögum á þessu vori.

Nám alla ævi er lykilatriði í þeirri menntastefnu sem löggjöfin byggist á. Mikilvægt er að horfa á menntakerfið sem eina heild frá leikskóla til háskóla og framhaldsfræðslu/fullorðinsfræðslu. Í þessu ljósi ber einnig að skoða óformlega menntun sem fram fer utan skólakerfisins og meta að verðleikum þá hæfni sem einstaklingurinn tileinkar sér í lífi og starfi. Litið er á þekkingu, færni og hæfni ekki einungis út frá forsendum skólakerfisins heldur einnig á forsendum atvinnulífs og einstaklingsins.

Með nýjum lögum um framhaldsskóla gefast ný tækifæri fyrir framhaldsskóla og samstarfsaðila að móta hugmyndir að nýjum námsbrautum. Skólum er ætlað að leggja fram lýsingar að styttri og lengri brautum sem verða hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla að fenginni staðfestingu menntamálaráðherra.Með lögunum er starfsmenntun með formlegum hætti gert jafn hátt undir höfði og bóknámi. Það á að geta skapað mörg sóknarfæri í framboði nýrra námsleiða sem verða til í samstarfi skóla og atvinnulífs.

Starfsgreinaráð hafa m.a. það hlutverk að skilgreina hæfnikröfur starfa sem mennta skal til, móta lokamarkmið starfsnáms og vera ráðherra til ráðuneytis um viðurkenningu á námsbrautalýsingum skóla.

Á síðastliðnu ári lagði starfsgreinaráð matvæla- veitinga- og þjónustugreina fram skýrslu þar sem fjallað er um færnikröfur starfa, lokamarkmið og æskilega tilhögun starfsnáms í ferðaþjónustu. Þar byggði ráðið meðal annars á viðamikilli þarfagreiningu sem fagaðilar í ferðaþjónustu létu vinna fyrir nokkrum árum. Í fjölmörgum framhaldsskólum vítt og breitt um landið er nú verið að vinna að uppbyggingu náms á sviði ferðaþjónustu.

Starfsgreinaráðið hefur tekið frumkvæði að því að efna til málþings á næstunni með fulltrúum allra þeirra sem bjóða nám á sviði ferðamála eða vinna að uppbyggingu slíks náms á framhaldsskólastigi, háskólastigi og innan símenntunar. Sá vettvangur er mikilvægur.

Það er febrúar 2009. Verkefni Íslendinga næstu misserin eru flókin og reyna á okkur. Við þurfum að byggja upp með fjölbreytni að leiðarljósi,
þurfum að byggja upp á traustum grunni,
huga að raunverulegum gæðum.
Náttúra og menning eru stór hluti af ímynd okkar sem þjóðar. Þekking ykkar í ferðaþjónustunni á þessum grunnþáttum er mikil og mikilvæg. Þessi dagur í dag er liður í því að beina sjónum að menntun í ferðaþjónustu, með menntun aukum við þekkingu okkar og styrk til að búa til verðmæti, raunveruleg verðmæti.

Ég óska ykkur til hamingju með daginn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum