Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

17. apríl 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ráðherra flytur ávarp á íþróttaþingi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands 17. apríl 2009

Hilton Hótel Nordica, 17. apríl 2009

Íþróttaþing Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands


Forseti Íslands, ráðherrar, þingmenn, forseti ÍSÍ og aðrir góðir gestir.

Það er mér sönn ánægja að vera hér með ykkur í dag, fulltrúum þessarar mikilvægu fjöldahreyfingar.

Við stöndum í erfiðum sporum, íslenska þjóðin. Áföll haustsins og vetrarins eftir alla þá þenslu sem ríkti síðustu árin hafa reynt á okkur og mun reyna á okkur. Tveir atburðir í íþróttalífinu standa líklega upp úr á síðasta ári, annars vegar silfrið í Kína og hins vegar glæsilegur árangur íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, auk að sjálfsögðu óteljandi persónulegra sigra. Það hefur hins vegar ekki verið síður ánægjulegt að sjá í vetur þær styrku stoðir sem íslenskt samfélag hefur þrátt fyrir öll áföll. Þar er ekki síst ánægjulegt að vita af þeirri sterku hreyfingu sem íþróttahreyfingin er og þau miklu og mannbætandi áhrif sem hún hefur staðið fyrir alla tíð og er samfélaginu gríðarlega mikilvæg á erfiðum tímum eins og núna.

Íþróttir eru hluti af lífi marga og ÍSÍ hefur ýtt undir þátttöku fullorðinna á markvissan hátt með verkefnum eins og Hjólað í vinnuna og Lífshlaupinu.

Afreksíþróttir fá jafnan mesta athygli fjölmiðla og markaðar og hefur áherslan á þær jafnvel aukist síðustu mánuðina og árin. Þrátt fyrir það hefur íþróttahreyfingin lagt mikla, og ég leyfi mér að segja, megináherslu á þann þátt sem snýr að þátttöku unglinga og barna í íþróttum. Þar hefur fólk uppskorið gott samfélag en kannski litla athygli.

Það er í raun áhyggjuefni hversu lítið er fjallað um almenningsíþróttir í fjölmiðlum og þá ekki síður íþróttir barna og unglinga. Nú stendur fyrir dyrum endurskoðun á þjónustusamningi ráðuneytisins við Ríkisútvarpið og tel ég brýnt að litið sé sérstaklega til skyldna Ríkisútvarpsins á þessu sviði eins og öðrum þeim sem snúa að fræðslu og menningu.

Það má kannski orða það svo að þessi ríkisstjórn og hin næsta þurfi að huga vel að vörninni og byggja upp markvissar sóknir. Mikilvægasti hluti þessarar varnarbaráttu er að verja barna- og unglingastarfið. Við munum hins vegar gefa okkur tíma til að undirbúa jarðveginn fyrir umbætur og þróun og móta, í nánu samstarfi við hreyfingar eins og ÍSÍ, stefnuna fyrir framtíðina. Þær tillögur sem liggja fyrir þessu þingi bera þess glöggt merki að íþróttahreyfingin hyggur áfram á umbætur í íþróttamálum þjóðarinnar og slær þar ekkert af.

Nú stendur yfir endurskoðun samninga ráðuneytisins við ÍSÍ: samning um stuðning við sérsambönd, saming um Afrekssjóð ÍSÍ og samning um Ferðasjóð ÍSÍ. Ég geri mér fyllilega grein fyrir mikilvægi þessara samninga fyrir íþróttahreyfinguna og um leið allt samfélagið. Það eru auðvitað erfiðir tímar framundan á efnahagssviðinu en ég legg mikla áherslu, mikla áherslu, á að við reynum að koma sem best til móts við þarfir íþróttahreyfingarinnar með sitt mikilvæga hlutverk í uppbyggingu samfélagsins. Ég tel nauðsynlegt og mun leggja allt kapp á að ráðuneytið og forysta ÍSÍ hafi með sér náið samstarf um framhaldið.

Íþróttahreyfingin hefur á síðustu árum og áratugum sýnt mikla samfélagslega ábyrgð. Í íþróttahreyfingunni hefur komið saman stór þverskurður af íslensku þjóðinni og lagt sitt af mörkum í þágu afreks- og almenningsíþrótta. Ég legg mikla áherslu á að áfram sé hlúð að þessari mikilvægu stoð og er þess fullviss að íslenska þjóðin mun njóta þess mikla starfs sem fer fram innan vébanda ÍSÍ.

Ég þakka fyrir mig og vona að þið eigið góðar og skapandi stundir á Íþróttaþingi 2009.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum