Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. júlí 2009 Mennta- og barnamálaráðuneytiðKatrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013

Ræða menntamálaráðherra á Rannsóknaþingi 1. júní 2009


Góðir gestir.

Hvað er framundan? er spurt í yfirskrift þessa rannsóknaþings 2009. Og það er von fólk spyrji sig. Aldrei í sögu lýðveldisins höfum við staðið frammi fyrir jafnviðamiklu og erfiðu verkefni og nú blasir við okkur í ríkisfjármálunum.

Margir vöruðu við því hvert stefndi. Þær raddir, hvort sem þær voru sérfræðinga, vísindamanna, stjórnmálamanna, voru þaggaðar niður (eða var kannski ekki hlustað á þær), allavega erum við hér í dag, hér erum við og þurfum, verðum, ætlum að byggja Ísland upp á nýtt.

Og í þetta sinn verðum við að byggja á þekkingu.

Kreppan hefur á síðustu vikum verið að þéttast og verða raunverulegri. Fréttir af fjárlagavinnunni í ráðuneytunum hefur jarðtengt okkur, samdrátturinn í ríkisfjármálunum er verulegur, óhjákvæmilegur, og hann mun snerta öll svið samfélagsins. Í síðustu viku kynnti ráðuneyti mitt fyrstu drög að fjárlögum 2010 fyrir forstöðumönnum. Háskólar og rannsóknastofnanir munu þurfa að draga saman um 8,5%. Þetta var ekki auðveld ákvörðun og verður ekki auðvelt fyrir þessar mikilvægu stofnanir. Ráðuneytið er í nánu samstarfi við skóla og stofnanir um hvernig hægt er að mæta þessum niðurskurði á sem sársaukaminnstan hátt. Verkefnið er flókið því við viljum að sjálfsögðu veita sem flestum aðgang að háskólanámi, sérstaklega á tímum aukins atvinnuleysis.

Hvernig drífum við samfélagið áfram? Þekkingarleitina? Vísinda- og tækniráð ásamt sérfræðingum sem ráðuneytið hefur fengið til liðs við sig hefur lagt mikla áherslu á að samkeppnissjóðirnir verði varðveittir og helst efldir. Ég er sannfærð um sjóðirnir séu ein skilvirkasta og besta leiðin til að stuðla að rannsóknum og skapa þekkingu og verðmæti. Því hef ég tekið ákvörðun um að framlag til samkeppnissjóðanna verður óskert árið 2010.

Forveri minn í starfi skipaði strax í lok 2008 tvo hópa til að gera tillögur um aðgerðir í háskóla- og rannsóknamálum. Hóparnir, annar skipaður erlendum aðilum en hinn íslenskum, skiluðu niðurstöðum í maí. Ég ákvað í kjölfarið að skipa rýnihóp innlendra sérfræðinga til að fjalla um skýrslurnar og gera tillögur um útfærslur. Seinna í dag á ég fund með rýnihópnum og mun taka tillögur hans til athugunar í sumar. Markmiðið er að við höfum fyrir framan okkur í haust skýra stefnu í háskóla- og rannsóknamálum, stefnu sem við getum unnið eftir næstu árin.

Þeir sérfræðingar sem við höfum fengið til ráðgjafar gera tillögur að róttækum breytingum á háskólakerfinu og stuðningskerfi rannsókna og nýsköpunar. Þó tillögurnar séu unnar sem viðbrögð við hruninu í október þá er óhætt að segja að kerfið okkar hefði þurft á breytingum að halda óháð því hvað gerðist sjötta október. Háskólakerfið hefur vaxið mikið á undanförnum árum, námsframboð hefur aukist, samkeppni á vissum sviðum virðist hafa verið til góðs en vöxturinn hefur þó hugsanlega verið of hraður og of mikill. Flestir sem fjallað hafa um háskólastarf á Íslandi nýlega telja óskynsamlegt að reka 7 háskóla hjá svona fámennri þjóð og fram hafa komið tillögur um að fækka þeim í tvo. Þessar tillögur hafa skiljanlega fengið mikla athygli sem hefur dregið athyglina frá því sem skiptir meira máli. Í umfjöllun um háskólana og einföldun háskólakerfisins er megináherslan á aukið samstarf milli þeirra en ekki á fjölda stofnana eða hvaða háskóla eigi að hafa á landinu.

Ég hef lagt mikið upp úr því að vera í góðum samskiptum við háskólana og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með því hversu mikla áherslu skólarnir hafa lagt á aukið samstarf sín á milli. Aukið samstarf getur leitt til hagræðingar en einnig til betra náms, til dæmis með því að veita nemendum aðgang að bestu kennurum og sérfræðingum sem völ er á hérlendis, óháð því hvar þeir eru í námi.

Ein af þeim tillögum sem settar hafa verið fram er um að sameina allt rannsóknanám á landinu í einni stofnun. Hér er aðallega verið að hugsa um doktorsnám en rannsóknatengt meistaranám gæti líka átt heima á þessum stað. Um þessa hugmynd virðist ríkja almenn sátt en hana má útfæra á marga misjafna vegu. Einn möguleiki er að allt rannsóknanám sé á hendi eins háskóla, til dæmis Háskóla Íslands, sem býður upp á fjölbreyttasta rannsóknanámið í dag. Annar möguleiki er að búa til stofnun sem sér um skipulag doktorsnáms, gæðamat og annað fyrir alla háskólana þó námið sjálft geti farið fram á mörgum stöðum. Þessar mismunandi leiðir eru til umræðu í rýnihópnum sem ég nefndi áðan.

Meðal þess sem þarf að taka afstöðu til á næstu mánuðum – og tengist rannsóknanáminu – er hvort allir háskólar landsins eigi að vera rannsóknaháskólar. Undanfarin ár hafa háskólarnir allir byggt upp rannsóknir og rannsóknanám. Þeir erlendu sérfræðingar sem tóku íslensku háskólana út nýlega, þegar þeir sóttu um viðurkenningu frá menntamálaráðherra, nefndu margir að þótt það væri í sjálfu sér jákvætt að háskólarnir þróuðu rannsóknanám þá væri þróunin ekki að öllu leyti heppileg. Þeir gagnrýndu fjölda námsleiða, sérstaklega í meistaranámi, og að ekki væri gert nógu mikið af því að byggja upp þverfaglegt meistaranám. Einnig lögðu þeir ríka áherslu á að háskólarnir ættu að efna til samstarfs um rannsóknanámið. Skilaboðin til háskólanna og menntayfirvalda hafa því verið skýr í nokkurn tíma. Nú er komið að því að taka tillit til þeirra.

Allar breytingar á kerfinu verða að sjálfsögðu unnar í nánu samstarfi við háskólana og eins og ég nefndi áðan hef ég verið í miklum samskiptum við rektorana undanfarna mánuði. Við megum samt ekki gleyma því að allir háskólar á Íslandi eru fjármagnaðir af ríkinu að langmestu leyti – líka einkaháskólarnir. Markmið breytinga verður ekki bara að hagræða – sem er mikilvægt – heldur fyrst og fremst að bæta háskólakerfið, bjóða áfram upp á gott nám á sem flestum sviðum og tryggja fjölbreytni í námsframboði.

Í þetta sinn verðum við að byggja Ísland á þekkingu.

Umræðan snýst ekki bara um háskólana heldur líka rannsókna- og nýsköpunarkerfið í heild sinni. Rannsóknastofnanir atvinnulífsins voru á sínum tíma skildar frá Háskóla Íslands. Fyrir því voru ákveðin rök á sínum tíma en nú hafa margir bent á að betra sé að tengja þær háskólunum aftur og jafnvel sameina einhverjar þeirra háskólunum. Háskólar og rannsóknastofnanir eru nú þegar í miklu samstarfi en það má auka og efla til muna. Okkar besta vísindafólk starfar í mörgum þessara rannsóknastofnana í mikilvægum greinum eins og hafrannsóknum, íslenskum fræðum, matvælarannsóknum, veðurfræði og heilbrigðisvísindum, svo nokkur séu nefnd. Nemendur í rannsóknanámi eiga að hafa aðgang að besta vísindafólki landsins og þegar rannsóknanám er byggt upp er mikilvægt að gera það í nánu samstarfi við rannsóknastofnanir.

Það flækir reyndar málið að að rannsóknastofnanirnar tilheyra nokkrum ráðuneytum. Fleiri ráðherrar þurfa að koma að þessu starfi ásamt Vísinda- og tækniráði.

Vísinda- og tækniráð hefur oftar en einu sinni ályktað um að mikilvægt sé að efla samkeppnissjóði. Um 15% opinberra framlaga til rannsókna og þróunar fara í gegnum samkeppnissjóði sem er mun lægra hlutfall en gengur og gerist í löndum sem við berum okkur gjarnan saman við. Síðustu ríkisstjórnir hafa fylgt þessu ráði og eflt samkeppnissjóðina en þó ekki að því marki sem vænta mætti. Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að verja samkeppnissjóðina að hluta til á kostnað stofnana og hlustar þar meðal annars á Vísinda- og tækniráð.

Opinberu samkeppnissjóðirnir eru margir og mun fleiri en þeir sem eru í umsýslu RANNÍS. Vísinda- og tækniráð hefur ítrekað bent á að nauðsynlegt sé að einfalda sjóðakerfið, fækka sjóðum og stækka þá til að geta veitt veglegri styrki og tryggt gæði úthlutana. Þessu kalli hefur ekki verið fylgt og kann að spila inn í að sjóðirnir tilheyra nokkrum ráðuneytum og stofnunum. Við endurskoðun á rannsókna- og nýsköpunarkerfinu er því nauðsynlegt að til komi samvinna margra ráðuneyta og við Katrín Júlíusdóttir getum vitnað um vilja til samstarfs. Ráðuneyti menntamála og iðnaðar eru helsti bakhjarl opinbers stuðnings við rannsóknir og nýsköpun og því er mikilvægt að þessi tvö ráðuneyti starfi vel saman. Þegar síðasta Vísinda- og tækniráð var að ljúka störfum buðu starfsnefndir ráðsins okkur tveimur á sinn fund til að kynna drög að nýrri vísinda- og nýsköpunarstefnu. Sá fundur var ánægjulegur og upplýsandi og við fengum mikilvægt veganesti á þeim fundi. En nú að Vísinda- og tækniráði.

Forsætisráðherra skipaði nýlega nýtt Vísinda- og tækniráð og ég vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem svöruðu kallinu og eru tilbúnir til að taka að sér þetta krefjandi starf. Þegar ráðið var stofnað með lögum árið 2003 var markmiðið með því að ná saman á einn stað helstu hagsmunaðilum vísinda og tækni til að fjalla um, gefa ráð og móta stefnu fyrir rannsóknir og nýsköpun. Nokkrir ráðherrar eiga sæti í ráðinu og er það til að tryggja að umræða og ályktanir ráðsins komist í framkvæmd eins og kostur er. Að mati flestra hefur þetta fyrirkomulag gefist vel en síðustu daga hefur komið fram alvarleg gagnrýni á Vísinda- og tækniráð. Nokkrir vísindamenn við íslenska háskóla rituðu grein sem birtist í Morgunblaðinu í fyrradag. Gagnrýnin snýst um skipan ráðsins og eru stjórnvöld sökuð um að sýna ráðinu hvorki skilning né áhuga. Þetta eru alvarlegar ásakanir sem stjórnvöld verða að skoða af fullri alvöru þó ég vilji taka fram að forsætisráðherra skipar ráðið samkvæmt tilnefningum Samráðsnefndar háskólastigsins, Samtaka atvinnulífsins, ASÍ og nokkurra ráðherra. Samráðsnefndin skipar flesta í ráðið, eða fjóra.

Gagnrýnina þarf að skoða í ljósi þeirra tillagna sem settar eru fram af sérfræðingum sem ráðuneytið fékk til að fjalla um málið og vitnað er í hér að framan. Í skýrslunum er lagt til að starfsemi ráðsins verði efld til muna og að Rannís fái aukið hlutverk í kerfinu. Mér virðast þessir sérfræðingar vera á svipuðum slóðum í sinni gagnrýni og íslensku prófessorarnir sem skrifuðu í Morgunblaðið, þó þeir nálgist málið án þess að ráðast á þá einstaklinga sem skipaðir eru í ráðið. Spurningin snýst um eðli og hlutverk Vísinda- og tækniráðs. Grundvallarspurningin er hugsanlega sú hvort ráðið, og starfsnefndir ráðsins, eigi að vera ráðgefandi eða ákvarðandi. Í dag er það fyrst og fremst ráðgefandi og framkvæmdavaldið er ekki bundið ályktunum eða ábendingum ráðsins. Ráðið hefur ekki bein yfirráð yfir neinum fjármunum og getur ekki sjálft fylgt stefnu sinni eftir í framkvæmd. Öll þessi mál eru til skoðunar í dag og engir möguleikar eru útilokaðir. Hins vegar tel ég ekki að vandinn – ef það er einhver vandi – snúist um þá einstaklinga sem eru í ráðinu heldur um eðli starfsins og það starfsumhverfi sem ráðið starfar í. Margt af því sem Vísinda- og tækniráð hefur ályktað um síðastliðin ár hefur komist til framkvæmda – ég vil nefnda sameiningar rannsóknastofnana, stækkun samkeppnissjóða og hækkun einstaka styrkja sem allt eru mál sem ráðið hefur ályktað um og komist hefur til framkvæmda. Væntanlegir formenn vísindanefndar og tækninefndar, starfsnefnda ráðsins, tala hér á eftir og hafa kannski einhverjar hugmyndir og tillögur um starf nefndanna og ráðsins.

Það er engin launung að tímarnir framundan verða erfiðir. Nú þegar hefur dregið nokkuð úr fjármögnun til háskóla og rannsókna og hugsanlega þarf að draga enn meira úr á næstu árum. Áætlanir um aukin framlög til háskóla og samkeppnissjóða eru í upnámi. Auðvitað væri best að þurfa ekki að grípa til slíkra ráðstafana en nú þegar það er staðreynd er nauðsynlegt að vísindasamfélagið standi saman og vinni saman að því að byggja upp vænlega framtíð. Við eigum ekki annarra kosta völ en að líta á næstu ár sem hreinsunareld sem við getum komið betri í gegnum.
 Við þurfum að spyrja okkur: Hvar viljum við vera eftir 5 ár eða jafnvel 10 eða 25 ár? Hvernig samfélag viljum við byggja og í hvernig landi viljum við eiga heima?

Allavega erum við hér í dag, hér erum við og þurfum, verðum, ætlum að byggja Ísland upp á nýtt.

Og í þetta sinn verðum við að byggja á þekkingu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum